top of page

Árstíðasveiflan eykst á þessu ári skv. spá Isavia


„Undanfarin ár hefur megináherslan í markaðssetningu landsins verið á vetrarmánuðina. Við höfum haft minni áhyggjur af sumrinu. Aukin nýting á veturna hefur verið kærkomin í gistiþjónustu enda eru kostnaður við fasteignarekstur og laun langstærstu útgjaldaliðirnir.

Spá Isavia gerir ráð fyrir verulegum samdrætti flesta vetrarmánuði, allt að 17% í febrúar og mars. Ef þetta gengur eftir fækkar erlendum gestum um tæp 30 þúsund þessa mánuði og svipaðri þróun er spáð í október. Þá er gert ráð fyrir fjölgun [á erlendum ferðamönnum] yfir sumarmánuðina um u.þ.b. 15 þús. hvern mánuð. Mér hefði hugnast betur að sjá þetta á hinn veginn, þ.e. að fjölgunin yrði yfir vetrarmánuði. Þetta er vönduð spá hjá Isavia en engu að síður er þetta spá og við höfum ekki enn séð fyrir endann á kjaradeilum. Þá hafa málefni WOW air ekki klárast þótt aukinnar bjartsýni gæti þar. Þeir sem stunda hótelrekstur þurfa að halda vel á spöðunum og enn sem fyrr þarf að huga að erfiðri stöðu á landsbyggðinni. Þessi spá Isavia bendir til að við séum að taka skref til baka og auka árstíðasveiflu, en síðustu ár hefur fjölgunin einkum verið á veturna.“


Hér að neðan er grein eftir Baldur Arnarson - Morgunblaðið 30.janúar

Spá lakara vori en betra sumri Isavia spáir að erlendum ferðamönnum muni fækka um 56 þúsund milli ára og brottförum um 2,2% Breytingar hjá WOW air skýri fækkun á 1. fjórðungi Spá fleiri farþegum í sumar en í fyrrasumar


Rúmlega 91 þúsundi færri brottfarir verða frá Keflavíkurflugvelli fyrstu fimm mánuði ársins en í fyrra. Hins vegar verða farþegarnir rúmlega 61 þúsundi fleiri í júní til ágúst.

Þetta er meðal þess sem má lesa úr nýrri farþegaspá Isavia.

Samkvæmt henni verða tæplega 45 þúsundum færri brottfarir í september og október en í fyrra og tæplega 11 þúsundum fleiri brottfarir í nóvember og desember en í fyrra. Samandregið verður vorið lakara en í fyrra, sumarið betra, haustið lakara en síðustu mánuðirnir betri.

Heilt yfir spáir Isavia 2,2% færri brottförum í ár en í fyrra. Hér er miðað við þá talningu enda hefur Ferðamálastofa miðað fjölda erlendra ferðamanna við brottfarir.

Isavia gerir ráð fyrir að brottförum innlendra ferðamanna fækki um 3,3% og um 2,4% hjá erlendum ferðamönnum. Erlendum ferðamönnum muni fækka úr 2,316 milljónum í 2,26 milljónir, eða um 56 þús. Það gera 150 ferðamenn á dag.

Isavia spáir meiri samdrætti í tengiflugi yfir hafið. Farþegum um völlinn muni fækka úr 9,8 milljónum 2018 í 8,95 milljónir í ár. Til samanburðar hafði Isavia áður spáð 10,38 milljónum farþega í nóvemberspá 2017 og 10,07 milljónum farþega í maíspá 2018. Bilið milli þessara áætlana fyrir 2018 og nýrrar spár fyrir 2019 er því 1,43 og 1,12 milljónir farþega. Skal tekið fram að meirihluti farþega fer ekki út úr flugstöðinni.


Spáði áður allt 10,4 milljónum

Árið 2018 var metár í íslenskri ferðaþjónustu hvað fjölda ferðamanna snertir. Þrátt fyrir samdrátt milli ára yrði árið 2019 það annað stærsta í þessu efni frá upphafi.

Farþegaspá Isavia er vanalega birt í lok nóvember. Vegna sviptinga á markaði var birtingu frestað.

Hlynur Sigurðsson, framkvæmdastjóri viðskiptasviðs Isavia, segir uppstokkun hjá WOW air megin

skýringuna á fækkun flugfarþega í vor. Isavia telji nýju spána byggjast á eins áreiðanlegum grunni og hægt sé að hafa miðað við stöðuna.

„Við vinnum spána út frá núverandi forsendum. Við erum bjartsýnir um að áform WOW air [um samruna við Indigo Partners] gangi eftir. Flugþjónustufyrirtæki WOW air, Airport Associates, hefur dregið til baka stóran hluta af uppsögnum í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Við munum boða til nýs fundar ef það verða frekari sviptingar á markaði,“ segir Hlynur. Aukið framboð hjá Icelandair eigi þátt í að spáð sé fleiri farþegum í sumar en í fyrrasumar. Icelandair fái nýjar þotur í vor. Þá skýri minna framboð áætlaða 13,4% fækkun farþega í október.

„Svo virðist sem flugfélögin hafi meiri trú á sölu flugsæta til og frá landinu í haust en þau hafa á sölu flugsæta yfir hafið,“ segir Hlynur.


Spáin ekki vel rökstudd

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir Ferðamálastofu hafa áætlað að brottförum frá Keflavíkurflugvelli myndi fækka um 8-10% milli ára. Isavia geri ráð fyrir töluvert minni fækkun. Hins vegar sé spá Isavia ekki vel rökstudd að mati Ferðamálastofu.

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu og eigandi CenterHotelkeðjunnar, telur spá Isavia hvorki gefa tilefni til bjartsýni né svartsýni. „Undanfarin ár hefur megináherslan í markaðssetningu landsins verið á vetrarmánuðina. Við höfum haft minni áhyggjur af sumrinu. Aukin nýting á veturna hefur verið kærkomin í gistiþjónustu enda eru kostnaður við fasteignarekstur og laun langstærstu útgjaldaliðirnir. Spá Isavia gerir ráð fyrir verulegum samdrætti flesta vetrarmánuði, allt að 17% í febrúar og mars. Ef þetta gengur eftir fækkar erlendum gestum um tæp 30 þúsund þessa mánuði og svipaðri þróun er spáð í október. Þá er gert ráð fyrir fjölgun [á erlendum ferðamönnum] yfir sumarmánuðina um u.þ.b. 15 þús. hvern mánuð. Mér hefði hugnast betur að sjá þetta á hinn veginn, þ.e. að fjölgunin yrði yfir vetrarmánuði.

Þetta er vönduð spá hjá Isavia en engu að síður er þetta spá og við höfum ekki enn séð fyrir endann á kjaradeilum. Þá hafa málefni WOW air ekki klárast þótt aukinnar bjartsýni gæti þar. Þeir sem stunda hótelrekstur þurfa að halda vel á spöðunum og enn sem fyrr þarf að huga að erfiðri stöðu á landsbyggðinni. Þessi spá Isavia bendir til að við séum að taka skref til baka og auka árstíðasveiflu, en síðustu ár hefur fjölgunin einkum verið á veturna.“


----


Skekkjur í rekstrarumhverfi


FHG hefur unnið að því að vekja athygli stjórnvalda á skekkjum í rekstrarumhverfi gististaða. Ýmis lögleg gististarfsemi, er undanþegin sköttum og skyldum sem við þurfum að greiða s.s. orlofshús, fjallakofar, íbúðaleiga, sumarhúsaleiga, camperbílar, skemmtiferðaskip og nú stefnir í að prestsetur bætist í þennan flokk. „Svonefndum leiðangursskipum hefur fjölgað á undanförnum árum – Sigla hringinn í kringum landið í skipulögðum ferðum. – Ísland varð nýlega aðili að alþjóðlegum samtökum á þessu sviði.“ Væntanlega greiða farþegarnir hvorki gistináttaskatt né virðisaukaskatt af gistingunni.


Hér að neðan er grein eftir Geir R. Andersen - Morgunblaðið 30.janúar


Farþegasiglingar í kringum Ísland?


Eflaust hafa spurningar vaknað í huga margra, er þeir lásu frétt í Morgunblaðinu fimmtudaginn 24. þ.m. undir fyrirsögninni: „Kynnast náttúru og menningu“, ásamt undirfyrirsögninni: „Svonefndum leiðangursskipum hefur fjölgað á undanförnum árum – Sigla hringinn í kringum landið í skipulögðum ferðum. – Ísland varð nýlega aðili að alþjóðlegum samtökum á þessu sviði.“

Það verður segjast eins og er, að það er af sem áður var, þegar Íslendingar sáu sjálfir um og önnuðust farþegasiglingar í kringum land sitt. Með strandferðaskipunum Esju, Heklu, Herðubreið og Skjaldbreið var slegin einskonar „skjaldborg“ um samgöngur á sjó allt í kringum land og á minni fjörðum og flóum landsins. Með þessum skipum var landsmönnum tryggður, eins og kostur var á þeim tíma, ferðamáti, sem eyþjóð í norðurhöfum getur ein tryggt.

Hvorki flug né bíll gat „tryggt“ ferðalög landsmanna á þessum tíma.

Nú er öldin önnur, og flug og bíll eru þeir ferðamátar sem landsmenn notfæra sér óspart og farþegasiglingar eru horfnar af sjónarsviðinu, mörgum til verulegs ama og óánægju með að geta engan veginn komist sjóleiðina til hinna ýmsu áfangastaða og íbúasvæða sem þeir kjósa að ferðast til. Eða bara til þess að notfæra sér þá skemmtun að fara „hringferð“ í kringum landið líkt og útlendingar eiga kost á nú.


Erlend leiðangursskip fyrir erlenda

Svonefndum erlendum leiðangursskipum hefur fjölgað (eins og segir í frétt Morgunblaðsins) og sigla þau í kringum landið í skipulögðum ferðum. Nýlega varð Ísland aðili að „alþjóðlegum samtökum“ á þessu sviði. – Hvað svo sem það þýðir? Þetta er í sjálfu sér ekkert til að amast við, og fjölgar nú enn ferðamönnum hingað til lands, hvort sem það er aftur á móti til hagsbóta fyrir Ísland að þeim fjölgi með þessum hætti.

Það sem aftur á móti er skaðlegt fyrir Ísland er að landsmenn skuli ekki geta boðið þessa þjónustu sjálfir að neinu marki. Alls enga! – Og það sem er enn verra: Íslendingar eiga þess ekki kost að sigla sem farþegar með þessum erlendu „leiðangursskipum“. Íslensk lög banna Íslendingum beinlínis aðgang að þessum ferðum. Erlendir aðilar eru því orðnir einráðir um skipulagðar ferðir á sjó í kringum land.

Einhverjir munu e.t.v. segja sem svo: Græðum við ekki á þessu, þótt erlendir aðilar sjái um siglingarnar? Má vera, en hlutur Íslendinga er þó í litlu hlutfalli, sem segir sig sjálft, þegar landsmenn koma ekki að málinu, nema til þess að verja friðlöndin sín fyrir ferðahópunum og skoðunarferðum – m.a. með því að „upplifa tófuna“ sem sögð er friðuð og allur aðgangur óheimill við greni hennar.


Samgönguvandamálin

Ekki er nokkur vafi á, að samgönguvandi sá, sem við glímum nú við, væri snöggtum minni væri enn til staðar sá möguleiki að ferðast sjóleiðina sem farþegi milli staða, líkt og áður var. Það þótti „henta“ að leggja niður innlendar farþegasiglingar og færa alla flutninga á hina viðkvæmu nýlögðu vegi landsins. Og var það gert að frumkvæði og beiðni skipafélaganna tveggja sem enn aka um vegina á þungaflutningabílum sínum og „fletja út“ nýmalbikaðar flutningaleiðirnar vítt og breitt um land.

Þótt hægt sé að gagnrýna það andsvar sem hér birtist og „fegri“ og mikli þá staðreynd að innlendar farþegasiglingar séu öxulþungi í samgöngum eyþjóðar, getur fáum þótt það fásinna að ætla það mótvægi við yfirstandandi vandamál sem samgöngumálin eru að koma á samgöngukerfi á sjó að nýju.

Að einhverju leyti að minnsta kosti. Að öðru leyti var Morgunblaðsgreinin fimmtudaginn 24. janúar þörf ábending um þann vanda sem hér er að skapast með örri þróun þátttöku erlendra aðila í ferðaþjónustu og stýringu á henni í mikilvægum málum.


コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page