LEIÐARI FORMANNS
TÍMABÆRAR BREYTINGAR Á LÖGUM UM GISTISTAÐI
Á heimasíðu FHG má finna umsögn félagsins um frumvarp til breytinga á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Í umsögninni lýsir FHG stuðningi við að þinglýstur eigandi fasteignar verði að skrá sig fyrir leyfi til heimagistingar. Þetta gerir aðilum sem eru með umfangsmikla íbúðaleigu í gegnum milliliði, erfiðara fyrir. Þá köllum við eftir að hver einstaklingur megi aðeins leigja út 1 fasteign í 30 daga, enda er það algengt orlofstímabil vinnandi fólks og alls engin ástæða til veita undanþágu frá greiðslu skatta í lengri tíma.
Þá er heimilað að leggja stjórnvaldssektir á þá sem ekki fara að lögunum, en fram til þessa hefur reynst flókið og erfitt að beita viðurlögum á þá aðila sem kerfisbundið hafa brotið lögin.
Umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga styður við okkar umsögn í öllum meginatriðum.
Athygli vekur að fjórar umsagnir bárust frá sýslumönnum og eru þær ekki allar samhljóða. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu annist eftirlit um allt land. Það virðist falla í grýttan jarðveg hjá sýslumönnum úti á landi og er breytingunni um að færa aukin völd til embættisins á höfuðborgarsvæðinu mótmælt. Sýslumannafélagið segir skorta samráð um frumvarpið, ekki sé horft til staðarþekkingar á embættunum á landsbyggðinni.
Ferðamálaráðherra þarf að taka afstöðu í þessu máli við endanlega útfærslu frumvarpsins. Í því sambandi má benda á að nú er unnið að útfærslu á s.k. leyfagátt á vegum stjórnarráðsins og nú þegar heldur Ferðamálastofa utan um útgáfu ýmissa leyfa innan ferðaþjónustunnar. FHG telur að leyfisúthlutun, utanumhald og upplýsingagjöf sé betur komin í leyfagáttinni hjá Ferðamálastofu. Það er hins vegar ekki óeðlilegt að eftirlit sé í höndum sýslumanna í hverju umdæmi og lögregla framfylgi lögum í þessum efnum eins og öðrum.
Kristófer Oliversson, formaður FHG.
STJÓRNAR- OG FÉLAGSFUNDUR
Óhætt er að segja að starf FHG hafi fengið mikil og jákvæð viðbrögð. Við höfum náð eyrum margra, sem um málefni greinarinnar fjalla, og alls staðar fengið jákvæðar og góðar undirtektir við okkar ábendingum. Meginverkefni okkar er að koma málum á dagskrá er lúta að bættu rekstrar- og starfsumhverfi og höfum því fundað vítt og breitt um þau efni. Við leitumst að sjálfsögðu við að nálgast málin af yfirvegun og með sannfærandi röksemdafærslu en óneitanlega er víða við ramman reip að draga og því mikilvægt að sem flestir leggist á árarnar.
Í þessu fréttabréfi er fjallað um það helsta sem er á döfinni hjá félaginu, hvað við höfum verið að fást við undanfarnar vikur. Allar ábendingar um málefni er lúta að bættu rekstrar- og starfsumhverfi innan hótel- og gistiþjónustu eru vel þegnar.
STJÓRNARFUNDUR
Stjórn FHG kom saman til fundar 18 október, þar var rætt um fyrirkomulag starfsins og hvernig við náum helst markmiðum okkar um bætt og heilbrigðara rekstrarumhverfi í greininni. Við tilkynntum stofnun félagsins til Samkeppnisstofnunnar og svöruðu þeir með nokkurra blaðsíðna leiðbeiningum um samkeppnismál. Stjórnin setti sér í því ljósi starfsreglur og samkeppnisleiðbeiningar unnar af Guðjóni Rúnarssyni lögmanni. Þetta má allt finna á heimasíðu félagsins www.fhg.is
Þá var áréttað að efla starf í starfshópum félagsins og eru allir hvattir til að setja sig í samband við framkvæmdastjóra hafi þeir hug á að taka þátt í slíku starfi. Best að gera það með tölvupósti á petur@fhg.is
Árni Sólonsson kynnti verkefnið “Fræðslustjóri að láni”, sem snýst um að fá fræðslu inní fyrirtækin með námskeiðahaldi eða einstaka fyrirlestrum. Þessi fræðsla getur verið ýmisskonar og náð yfir öll þau svið sem fyrirtæki starfa á. Fyrir smærri fyrirtæki getur þetta verið ansi kostnaðarsamt og því kann að vera hagkvæmt að fyrirtæki taki sig saman um verkefni af þessu tagi. Stjórn taldi ástæðu til að skoða hvort væri tækifæri til að sameinast um það á vettvangi FHG. Áhugasamir hafi samband við framkvæmdastjóra.
Á fundinum var bent á að vefsíðan www.kompas.is væri gott samsafn af alls kyns verkfærum sem gætu nýst félagsmönnum í daglegri starfsemi og áveðið að vekja sérstaka athygli á því hér.
Næsti stjórnarfundur verður haldinn 29. nóvember nk.
FÉLAGSFUNDUR
Opinn félagsfundur var haldinn hinn 1. nóvember s.l. á Grand Hóteli. Það kynnti Alexander Eðvardsson skýrslu KPMG um afkomutölur í gistingu og má nálgast kynningu hans á heimasíðu félagsins. Hann hafði áður kynnt þessa skýrslu á opnum fundi KPMG og Ferðamálastofu en FHG óskaði eftir að fá hann til að taka gistigeirann sérstaklega fyrir. Auk þess flutti Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri erindi um stöðu og horfur í greininni. Fundurinn var vel sóttur og góður rómur gerður að ræðumönnum.
FUNDUR MEÐ HAGSMUNAAÐILUM
Framkvæmdastjóri, formaður og einstaka stjórnarmenn hafa fundað vítt og breitt síðustu vikur til að koma málum á hreyfingu.
FUNDUR MEÐ FERÐAMÁLASTJÓRA
Formaður, framkvæmdastjóri og Geir Gígja stjórnarmaður heimsóttu ferðamálastjóra í október. Markmiðið var að kynna FHG og helstu áherslumál samtakanna fyrir honum. Rætt var um tölugreiningar og meðferð talnaefnis, markaðsmál, ímyndarmál, mælaborð ferðaþjónustunnar, leyfakerfið og Airbnb. Ferðamálastjóri fór yfir verkefni Ferðamálastofu í kjölfar yfirtöku stofunnar á mælaborði Stjórnstöðvar ferðamála, en markmið þeirrar vinnu var að útvega ferðaþjónustunni áreiðanleg gögn.
Afar brýnt er að framhald verði á þeirri vinnu sem unnin var hjá Stjórnstöðinni og dró sú vinna m.a. fram talnaefni um gríðarlegt umfang skuggahagkerfisins sem rekið er fyrir tilstilli vefs Airbnb og slíkra aðila. Ferðamálastjóri tók undir áherslur FHG og þáði boð um að taka til máls á fyrsta opna félagsfundi samtakanna 1. nóvember.
FUNDUR MEÐ RÁÐHERRA FERÐAMÁLA ÞÓRDÍSI KOLBRÚNU REYKJÖRÐ GYLFADÓTTUR 17.OKTÓBER
Framkvæmdastjóri, formaður og varaformaður heimsóttu ráðherra þann 17. október. Auk ráðherra sátu fundinn Sigrún Brynja Einarsdóttir, skrifstofustjóri ferðamálaskrifstofunnar og Ólafur Teitur Gunnarsson aðstoðarmaður ráðherra.Við vildum kynna nýstofnuð samtök fyrir ráðherra, markmið þeirra og tilgang. Þá kynntum við áhuga okkar á aðkomu að Stjórnstöð ferðamála, einkum gjaldtökunefnd enda er hótelgeirinn helsta andlagið í sértækri gjaldtöku á ferðaþjónustuna og er skemmst að minnast þreföldunar gistináttaskattsins frá 1. september 2017.
Við gerðum grein fyrir andstöðu okkar við gistináttaskattinn í núverandi mynd og færðum rök gegn tilfærslu hans til sveitarfélaganna og fram komnum hugmyndum um að gera skattin hlutfallslegan. Verði þessar hugmyndir að veruleika þýðir það að til verður nýr veltuskattur á gistiþjónustuna, sem einkum mun renna í borgarsjóð Reykjavíkur enda falla um 2/3 hlutar gistinátta til í Reykjavík.
Á fundinum kom fram að drög að frumvarpi til breytinga á lögum um gististaði væri nú komið á samráðsgátt stjórnarráðsins. Við kynntum okkur efni þess og sendum inn umsögn auk tillagna um ferkari breytingar sem nauðsynlegt er að gera á gildandi lögum að okkar mati. Umsögnina má sjá á www.samradgatt.isog í sérkafla í þessu fréttabréfi.
FUNDUR MEÐ ÞJÓÐSKRÁ 19. OKTÓBER
Til fundarins mættu formaður FHG ásamt Árna Sólonssyni stjórnarmanni. Af hálfu Þjóðskrár sátu fundinn Hjörtur Grétarsson sviðsstjóri fasteignaskrársviðs, Ingi Þór Finnson og Jónas Pétur Ólason.
FHG höfðu heyrt af því að til stæðu breytingar á álagningargrunni og þar með fasteingamati hótela og gistihúsa í landinu og var farið yfir þau mál með fulltrúum Þjóðskrár. Sýndu þeir málinu skilning og óskuðu eftir að fá að skoða þetta nánar, þannig að tekin væru nokkur gistihús víðsvegar um landið og þróun fasteignagjalda þeirra skoðuð sl. 10 ár. Höfum við sent þeim lista yfir slík gistihús til glöggvunar og væntum niðurstaðna þeirrar skoðunar fljótlega þannig að við getum þokað þessu máli áfram.
FUNDUR MEÐ SAMBANDI ÍSLENSKRA SVEITARFÉLAGA 23. OKTÓBER
Af hálfu FHG sóttu fundinn formaður og varaformaður auk Bjarka Júlíussonar framkvæmdastjóra. Tilgangur fundarins var gistináttaskatturinn og ósk sambandsins um að fá hann til sveitarfélaga, auk þess var rætt um fyrirhugaðar breytingar á lögum um gististaði. Vissulega vilja SÍS áfram fá gistináttaskattinn til sín, en við gerðum þeim grein fyrir ágöllum þess ágæta skatts og ótta okkar við afleiðingar á tilfærslu hans. Auk þess áréttuðum við vilja okkar um að hann verði lagður niður. Fundarmenn voru á hinn bóginn samstíga um að fyrirhugaðar breytingar á lögunum væru til bóta.
SAMRÁÐSFUNDUR MEÐ REYKJAVÍKURBORG OG ÖÐRUM HAGSMUNAAÐILUM 2.NÓVEMBER
Á þennan fund, til móts við forseta borgarstjórnar og embættismenn Reykjavíkurborgar, mættu af hálfu FHG formaður félagins og Bjarki Júlíusson. Á fundinn voru einnig boðaðir fulltrúar SAF og ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins. Tilgangurinn fundarins var að opna samráðsvettvang um það sem má bæta í starfsumhverfi greinarinnar og er á valdi borgarstjórnar Reykjavíkur. Þetta á að vera samráðsvettvangur um ferðamálastefnu, þar með talið heimagistingu og þróun á gististarfsemi í borginni. Greinilega er full þörf fyrir slíkt og fundarmenn almennt sammála um að halda þessum vettvangi opnum til góðra verka. Ákveðið að hittast aftur í lok þessa mánaðar til frekari ráðagerða.
FUNDUR MEÐ FRAMKVÆMDASTJÓRA SAF OG FORMANNI GISTISTAÐANEFNDAR 5. NÓVEMBER
Formaður og framkvæmdastjóri hittu framkvæmdastjóra SAF, Ingibjörgu Ólafsdóttur stjórnarmann og Birgi Guðmundsson formann gististaðanefndar. Farið var yfir ýmsa snertifleti og áherslur og greinilegt að ekki er verkefnaskortur þegar kemur á áherslum er varða rekstrar- og starfsumhverfi greinarinnar.
ÝMIS MÁL
LAGABREYTING
Eins og áður er getið er væntanlegt frumvarp til breytinga á gildandi lögum í veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þessar breytingar varða aðallega eftirlitsþátt laganna og heimildir sýslumanna til stjórnvaldssekta. Það er okkar mat að breytingarnar séu til góða en nauðsynlegt sé að huga að ítarlegri lagabreytingum. Við sendum inn þessa umsögn á samráðsgátt sem má sjá á heimasíðu okkar undir fréttir og greinar.
TALNAGREININGAR
Talnagreiningar á gistiþjónustunni birtast mánaðarlega hjá Hagstofunni og Mælaborði ferðaþjónustunnar. FHG hafa gert athugasemdir við framsetningu þessara gagna og kallað eftir úrbótum. Sem dæmi er gistingunni skipt í tvennt á Mælaborði ferðaþjónustunnar, hótel og gistiheimili annars vegar og Airbnb hins vegar. Það er nokkuð ljóst að fjöldi gistinátta á landinu fellur undir hvorugan flokkinn, hvar er hún? Það vekur líka athygli að í gistináttatölum Hagstofunnar eru nærri 60.000 gistinætur, í einum mánuði, annars vegar hjá fjölskyldu og vinum eða í bílum utan tjaldstæða. Ætla má að vangreiddur gistináttaskattur vegna þessara gistinátta nemi um 10 milljónum á mánuði. Gott og vel, vera má að rúmlega 1.000 erlendir gestir séu hverja nótt í heimsókn hjá vinum og vandamönnum, erlendir, vegna þess að tölurnar byggja á landamærakönnuninni í Leifsstöð, en er það trúverðugt? Eða að tæplega 1.000 erlendir gestir gisti í vegaköntum? Þessar tölur gefa að minnsta kosti tilefni til sérstakrar skoðunar þar á og þá hverning úr megi bæta.
Aðspurð segist Hagstofan ekki vita hve stórt hlutfall leyfisskyldra gististaða skilar inn svokölluðum Hagstofuskýrslum, sem öllum ber að gera skv. lögum. Hagstofunni finnst það ekki áhugaverðar upplýsingar. Okkur finnst það viðhorf vera áhugaverðar upplýsingar.
GISTISÖLULEYFI
Eins og kunnugt er þarf leyfi til reksturs gistiþjónustu og veita sýslumenn þessa lands slík leyfi að uppfylltum skilyrðum og umsögnum. Halda þeir skrá yfir veitt leyfi. Engin getur hins vegar svarað því hve mörg gistisöluleyfi eru í gildi í landinu eða þá hve margar gistisölueiningar eru á markaði sem ætla mætti að væri þá grundvöllur álagningar gistináttaskatts. Úr þessu þarf að bæta, enda staðfestir þetta hvers konar óbermi gistnáttaskatturinn er.
Comments