FHG - Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu boða til mikilvægs fundar n.k. miðvikudag, 11.mars kl. 16:00 í 2.hæðar fundarsal Hilton Reykjavik Nordica hótelinu, Suðurlandsbraut 2, 108 Reykjavík Allir hótelrekendur velkomnir.
Úr vörn í sókn
- tækifæri ferðaþjónustunnar sem við blasa í kjölfar undangenginna áskorana
Gestur fundarins verður Óskar Jósefsson framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, en á þeim vettvangi hefur verið lagt á ráðin undanfarna daga um mótvægisaðgerðir gegn áföllum greinarinnar undanfarið ár.
Að líkindum hefur engin þjóð tekið kórónaveiruna Covid 19 jafn föstum tökum og Íslendingar:
Hundruðum vísað í sóttkví - til vonar og vara - fjöldi greindra tilfella hærri en nokkurs staðar miðað við höfðatölu og hinum smituðu veitt ummönnun af sérfræðingum í öruggu umhverfi. Engin alvarleg tilfelli greind, engin dauðsföll og þorra smita má rekja til skíðaferða á afmörkuðum svæðum Evrópu.
Spurningin er - erum við að ganga of langt í varúðarráðstöfunum, eða felast í þessu tækifæri til stórfelldrar markaðssetningar strax og greindum smitum hérlendis tekur að fækka.
Fyrstu tveir árfjórðungar ársins 2020 munu vissulega taka á marga, en við eigum þess kost að ná vopnum okkar vel á ársfjórðungi 3 og 4 - ef rétt er á málum haldið.
Á einhverjum tímapunkti þarf að dempa umræðuna í fjölmiðlunum og beina athygli okkar helstu markaðssvæða að því að Ísland er
einn öruggasti staður veraldar að sækja heim:
Heilbrigði í fyrirrúmi, hreinlæti til fyrirmyndar, að ekki sé minnst á hreina loftið okkar, vatnið og umhverfið allt.
Landslag og menning sem ekki á sinn líka neins staðar í heiminum.
Mörg hundruð milljónir ferðamanna um allan heim eru í dag ráðvilltir og tvístígandi.
Stjórnvöld hafa viðurkennt að fjárfesting í þeirri grein sem mestu hefur aflað þjóðarbúinu undanfarin ár, hefur alls ekki verið í samræmi við hrein framlög greinarinnar til hins opinbera: Ferðaþjónustan aflaði hreinna 60 milljarða í fyrra og hreinna 70 milljarða í hitteðfyrra!
Auk þessa ræðum við stöðu á vinnumarkaði o.fl. undir liðnum:
Önnur mál.
Hittumst og ígrundum viðbrögð okkar, samræmum aðgerðir og verjum orðstír íslenskrar ferðaþjónustu, jafnhliða því að leggja á ráðin með skýr skilaboð út á markaðinn, sem Íslandsstofu og tengdum aðilum verður falið að koma kröftuglega á framfæri á komandi mánuðum!
Hittumst heil n.k. miðvikudag!
F.h. stjórnar FHG - fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu
Kristófer Oliversson Jakob Frímann Magnússon
formaður stjórnar FHG ritari stjórnar FHG
Comments