top of page

Brýnast að aðstoða þá sem fyrir mesta högginu verða



Í Kastljósi þann 18. nóvember 2020 var viðtal við Kristrúnu Frostadóttur, aðalhagfræðing Kviku banka. Þar deilir hún sinni skoðun á því að stór hluti þess fjármagns sem hefur verið sett í umferð til að styðja við hagkerfið í covid, gegnum prentun nýrra peninga, hafi runnið inn á fasteignamarkaðinn í stað þess að fara til fólks og fyrirtækja sem hafa lent í mesta tekjuáfallinu. Seðlabanki ætti að hvetja fremur en letja ríkissjóð til að styðja við þá sem þurfa.

Um 300 milljarðar króna hafa verið prentaðar í hagkerfinu nettó sagði Kristrún og um helmingur af þeim hefur farið inná húsnæðislánamarkaðinn, sem útskýrir vöxt bankakerfisins frá upphafi veirunnar. Það hafi aftur ýtt undir hækkun fasteignaverðs. Einungis um 30 milljarðar hafi hins vegar farið beint til fyrirtækja landsins. Skynsamlegra hefði verið fyrir ríkið að veita fjármagninu beint til fyrirtækjanna, þar sem bankarnir hafi engar viðskiptalegar forsendur til að veita fyrirtækjum í þessari erfiðu stöðu lán. Kristrún sagði þetta vera náttúruáfall, sem er að leggjast mun verr á ákveðna hópa fyrirtækja í samfélaginu alveg óháð stöðu þeirra í samfélaginu. Ríkið hafi áratugi til að ná stuðningi við þessi fyrirtæki til baka. Bankarnir séu í annarri stöðu hvað það varðar, þar sem fyrirtækja lán þeirra séu til skemmri tíma. Þeirra hlutverk sé ekki að lána fyrir náttúruáfalli.

„Margir geirar eru tekjustopp. Það er hrun í hagkerfinu. Ein leiðin til að bregðast við því er að auka fjármagn í umferð til skamms tíma vegna þess að við erum að reyna að dreifa áfallinu af ástandinu sem við erum nú í“ segir Kristrún. Hún bætir við „Það er gígantískur markaðsbrestur til staðar í núverandi ástandi sem þýðir að kerfið lætur þá einstaklinga og þau fyrirtæki fá peninga í dag sem standa mun betur en restin af hópnum.“ Kristrún sagði að mörg þeirra fyrirtækja, sem nú væru í tímabundnu tekjustoppi, hefðu allar forsendur til að lifa þetta ástand af og myndu skila þessum tekjum aftur til ríkissjóðs í formi umsvifa.

Kristrún hafði áður sett fram sambærileg sjónarmið í viðtali í Morgunblaðinu þann 7. nóvember 2020. Þar nefnir hún sérstaklega veitingastaði og ferðaþjónustufyrirtæki sem ekki hafi fengið nauðsynlegt fjármagn í yfirstandandi kreppu. Lítið hafi þannig verið gert fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem standi hvað verst og stutt sé í að þau fyrirtæki þurfi að fara að standa skil á frestuðum gjöldum.




Grein í Morgunblaðinu 7.nóvember 2020 - Aron Þórður Albertsson / aronthordur@mbl.is


Aðgerðir stjórnvalda vanhugsaðar


  • Fjármagn hefur ekki ratað til réttra aðila

  • Stærstur hluti aukins fjármagns í umferð hefur farið í húsnæðislán

  • Fjölmörg fyrirtæki munu fara í þrot að óbreyttu

  • Staðan í kerfinu gefur falska mynd


„Stóra málið fyrir mér er að það er verið að setja gríðarlegt fjármagn inn í þann hluta kerfisins sem þarf ekki á því að halda,“ segir Kristrún Frostadóttir, aðalhagfræðingur Kviku. Vísar hún þar til efnahagsaðgerða stjórnvalda og Seðlabankans í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru.

Að hennar sögn hefur aukið fjármagn innan kerfisins ekki ratað til réttra aðila. Þannig heldur fyrirtækjum, sem ekki hafa fengið nauðsynlegt fjármagn, áfram að blæða. Þar á meðal eru veitingastaðir og ferðaþjónustufyrirtæki. Bendir Kristrún á að rúmlega 100 milljarðar króna hafi bæst við skuldir heimilanna frá því í mars. „Seðlabankinn hefur sjálfur greint frá því að þetta séu heimili sem standa betur en meðaltalið í lánabókum bankanna. Þetta er innspýting fjármagns til aðila sem þurfa ekkert á því að halda. Nýir peningar í umferð hefðu átt að örva þann hluta hagkerfisins sem lenti í áfalli,“ segir Kristrún sem kveðst hafa áhyggjur af ástandinu.


Nær ekkert fer til fyrirtækja

Undanfarna mánuði hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við erfiðu ástandi sökum kórónuveiru. Í kjölfar faraldursins voru viðskiptabankarnir jafnframt nýttir til að miðla fjármagni, sem nýtast átti fyrirtækjum í rekstrarörðugleikum. Segir Kristrún að það hafi verið tök að treysta nær alfarið á markaðinn við að koma fjármagni til fyrirtækja í tekjustoppi.


„Ríkið hefði átt að setja peningana beint inn í fyrirtækin. Bankarnir hafa engar viðskiptalegar forsendur til að veita slík lán og eru þar af leiðandi í erfiðri stöðu. Þeir hafa ekkert til að miða við varðandi tekjuflæði í framtíðinni. Þess vegna hefur fjármagnið farið í húsnæðislán,“ segir Kristrún og bætir við að langstærstur hluti aukins fjármagns í umferð hafi farið í húsnæðislán. „Bankarnir hafa stækkað um 330 milljarða frá upphafi veirunnar. Af þeim hafa um 200 milljarðar farið í húsnæðislán og 90 milljarðar í ríkisvíxla. Loks hafa um 30 milljarðar farið til fyrirtækja, sem er auðvitað ekki neitt.“


Margir verða gjaldþrota

Að hennar sögn miðast svigrúm til aðgerða við umsvif í hagkerfinu og nýtingu á nýju peningamagni. Þá hafi fjármagnið farið inn á eignamarkað, þar sem fjármagn skorti ekki. Þannig minnki svigrúmið til að styðja við fyrirtæki sem glíma við tekjuhrun. „Ég er hrædd um að það hafi verið gengið á dýrmætt svigrúm með því að setja svona mikið fjármagn inn á húsnæðismarkaðinn. Þetta var mjög vanhugsuð aðgerð. Það þarf að fara í beinar fjárveitingar til geiranna sem líða fyrir sóttvarnir,“ segir Kristrún og bætir við að staðan í ferðaþjónustunni sé grafalvarleg. Lítið hafi verið gert fyrir fyrirtækin auk þess sem stutt er þar til umrædd fyrirtæki þurfa að standa skil á frestuðum gjöldum.

„Það eru svona 40 til 50 milljarðar sem sitja á ferðaþjónustunni. Þessar frestanir hafa skapað mjög falska stöðu í kerfinu. Nú þegar hefur um helmingur starfa tapast og það virðist vera lítill vilji til að varðveita störf innan geirans. Á sama tíma á að keyra í gang verkefni til að skapa störf. Það er ekkert að þessum óvirku störfum þótt við viljum sjá vöxt í öðrum greinum. Þú eyðileggur ekki undirliggjandi getu þótt þú viljir vaxa annars staðar. Það er verið að hola efnahagsreikninga fyrirtækjanna að innan og hættan er sú að það verði ekki viðspyrnugeta þegar að því kemur,“ segir Kristrún.


Comments


bottom of page