Umræðan um að ferðaþjónustan greiði ekki virðisaukaskatt hefur minnkað í takt við versnandi afkomu greinarinnar. Þegar best lét kom hins vegar hver spekingurinn á fætur öðrum og sagði ferðaþjónustuna borga of lága skatta til ríkisins.
Þær raddir hafa verið háværar síðasta árið að íslensk ferðaþjónusta muni gefa eftir vegna hás gengis íslensku krónunnar. Þvert á svartsýnishjalið virðist það ekki ætla að ganga eftir í ár.
***
Sú gífurlega fjölgun ferðamanna sem hefur orðið frá árinu 2011 hefur reynst allt of hröð fyrir fyrirtækin í greininni. Allt að 40% vexti á ári fylgja óhjákvæmilega vaxtarverkir og því er nauðsynlegt fyrir greinina að hagræða nú, þegar meiri stöðugleiki virðist vera komast á ferðamannafjöldann. Sinna innra starfi af forsjálni fremur en endalausri uppbyggingu, sem óneitanlega hefur ekki alltaf helgast af fyrirhyggju.
***
Ferðamenn hafa ástæðu til að kvarta yfir ýmsu hér á landi, en verðlagið hlýtur að vera efst á blaði á umkvörtunarlistanum.
***
Hið opinbera er vitaskuld til vandræða, þar sem skattlagning í ferðageiranum er líkt og annars staðar í þjóðlífinu. Þannig má nefna að meirihluti ferðamanna hér á landi sem annars staðar, leyfir sér að dreypa á víni í fríinu. Ísland á Evrópumetið í opinberum álögum á áfengi, en aðeins Noregur nálgast íslensku álögurnar.
***
Markmiðið, að sögn, er að draga úr áfengisdrykkju. Hins vegar sýnir evrópska heilsufarsrannsóknin frá því í fyrra, að tíðni drykkju sé hófleg á Íslandi bæði á evrópskan mælikvarða og norrænan. Rannsóknin var samræmd evrópsk rannsókn á heilsufari og heilsutengdri hegðun og var framkvæmd af hagstofum á Evrópska efnahagssvæðinu. Hlutfall óhóflegrar drykkju var það fjórða lægsta á Íslandi. Skattlagningin virðist því litlu hnika.
***
Með þessari ofurskattlagningu á áfengi lætur ríkið hins vegar ferðamenn fá óbragð í munninn og fælir þennan mikilvæga skattstofn (svo orðfæri vinstrisinna allra flokka sé notað) í burtu.
***
En það er ekki aðeins ríkinu um að kenna, því margir veitingastaðaeigendur taka þátt í þessari aðför. Mörg dæmi eru um að veitingastaðir kaupi inn ódýrasta léttvínið sem er í boði og 4-5 faldi í verði til viðskiptavinarins. Þar má segja að veitingastaðaeigandanum takist tvennt í einu, að ræna kúnnann og byrla honum eitur. Það er nefnilega þannig að ódýrasta léttvínið er varla til manneldis, hvað þá til hátíðarbrigða.
***
Veitingamenn eru ekki einir um að pissa þessu sulli í skóinn sinn. Þeir ferðamenn sem telja sig vera að kaupa aukna þjónustu og gæði hjá Icelandair lenda nefnilega í því að fá þennan sama grodda á Saga Class, sem nefnist víst í dag Saga Premium, einfeldningum til einföldunar.
***
Áfram má halda, því álögur á bíla eru óvíða eins háar og á Íslandi og það kemur að sjálfsögðu fram í verðlagi á bílaleigubílum. Í ljósi náttúrunnar og víðernisins liggur beint við fyrir ferðalanga að taka bíl og aka um landið. Þeir sem koma frá til dæmis frá Bandaríkjunum skilja auðvitað ekkert í þessu „okri“ bílaleiganna og raunar eru Evrópubúar mikið sama sinnis.
***
Sömu sögu er að segja af leigubílum. Ríkið hefur staðið vörð um sérhagsmuni leigubílstjóra á kostnað þjóðfélagsins í áratugi með fyrirsjáanlegum afleiðingum. Stýring ríkisins á leigubílamarkaði leiðir til þess að verð á leigubílaþjónustu er allt of hátt og fjöldi leigubíla í umferðinni allt of lítill. Þar sem eftirspurn og framboð eftir leigubílaþjónustu ákvarðast ekki á markaði og samkeppni er takmörkuð þá blæðir íslenskum neytendum og ferðamönnum. Þess utan er enginn hvati fyrir leigubílstjóra að standa sig og keppa um gæði eins og best má sjá af því, að sami taxti gildir fyrir gamla druslu og glænýjan Benz.
***
Umræðan um að ferðaþjónustan greiði ekki virðisaukaskatt hefur minnkað í takt við versnandi afkomu greinarinnar. Þegar best lét kom hins vegar hver spekingurinn á fætur öðrum og sagði ferðaþjónustuna borga of lága skatta til ríkisins. Þeirra á meðal var Benedikt Jóhannesson, þáverandi fjármálaráðherra. Í grein á vef fjármálaráðuneytisins sagði Benedikt m.a.:
„Á sama tíma nýtur þjónusta við ferðamenn skattalegrar ívilnunar gagnvart öðrum atvinnugreinum. Obbinn af þjónustu sem ferðamenn kaupa er í lægra virðisaukaskattsþrepinu, þrepinu sem almennt hefur verið notað fyrir brýnustu nauðsynjar og hluti sem sérstök ástæða telst til að njóti sérkjara, eins og matur, menningarstarfsemi, smokkar og bleyjur. Áætlað hefur verið að þessi ívilnun jafngildi um 22 milljörðum króna árlega. Skattaívilnunin er hlutfallslega mikil og kostnaðarsöm samanborið við önnur lönd sökum þess hversu þungt greinin vegur í landsframleiðslunni. Þessi megingrein atvinnulífsins, grein sem er yfir 8% af hagkerfinu, skilaði árið 2016 um 3% af tekjum ríkisins af virðisaukaskatti.“
***
Í þessum orðum birtist algengur misskilningur í umræðunni. Ferðaþjónustan hefur fjárfest gífurlega síðasta áratuginn og á slíkum tímum er innskattur hár. Þegar fjárfestingar minnka, eins og mun óhjákvæmilega gerast hratt þessi misserin, þá lækkar innskatturinn og þá hækka tekjur ríkisins af ferðaþjónustunni í gegnum virðisaukaskatt.
***
Til einföldunar má líkja þessu við hús sem byggt er undir virðisaukaskylda starfssemi. Á byggingartímanum eru engar tekjur og þar með enginn útskattur. Hins vegar eru mikil gjöld (byggingarkostnaður sem er eignfærður) og þá er innskattur hár. Þegar framkvæmdum er lokið verða til tekjur og en minni gjöld (aðallega fasteignagjöld og vextir) og þá er útskatturinn langt umfram innskattinn. Svo það er ekki of mikið að óttast um blessaðan skattstofninn að því leyti.
***
Hinu má einnig ekki gleyma, að víðast hvar í heiminum er lagður lægri söluskattur eða virðisaukaskattur á ferðaþjónustu en almennt og það er engin tilviljun. Hvernig sem það allt saman veltist og snýst kemur brátt í ljós, en það liggur algerlega ljós fyrir að það er tímabært að taka til í kringum ferðageirann, gera hann betri og Ísland betra heim að sækja. Ríkisvaldið getur ekki undanskilið sig í þeirri tiltekt.
Grein: Óðinn
Vb.is - 10. september 2018
Comments