Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra var sérstakur gestur á hádegisfundi FHG í Hörpu 13. júlí sl. Hún flutti yfirgripsmikið erindi um stöðu ferðaþjónustunnar og framtíðarhorfur og svaraði að því loknu fyrirspurnum úr sal auk þess að taka þátt í almennum umræðum.
Ráðherra fór yfir víðan völl í máli sínu og ræddi m.a. um mikilvægi mælinga og að umfangsmikil gagnaöflun á hverjum tíma þyrfti að liggja til grundvallar ákvarðanatöku, m.a. hvað varðar markaðssetningu og átaksverkefni. Vikið var að mikilvægi Stjórnstöðvar ferðamála sem stofnuð hefði verið til að auka samráð ráðuneyta og lykilaðila á vettvangi ferðaþjónustunnar. Sú stjórnstöð hefði senn lokið hlutverki sínu og yrði lögð niður á næsta ári en áframhaldandi samráð og samtal fyrrnefndra aðila yrði tryggt.
Fram kom í máli ráðherra að mögulegt fall WOW hefði ítrekað verið til umræðu í ríkisstjórninni en niðurstaðan ávallt verið sú að ekki hefði verið talið mögulegt að koma í veg fyrir gjaldþrot félagsins með atfylgi ríkisstjórnarinnar. Um þessa ákvörðun ríkisstjórnarinnar er enn mjög deilt, nú er fyrir liggja hinar margvíslegu afleiðingar fallsins, þ.m.t. þá staðreynd að stór flugfélög á borð við Delta og Easyjet telja ekki lengur jafn ábatasamt og áður að gera út á Ísland sem "hub" þ.e. að þær 3.5 milljónir farþega sem WOW flutti til og frá landinu eru ekki lengur það stóra mengi sem hægt er að veiða úr farþega til að flytja til og frá áfangastaða umræddra félaga. Við þetta bætast auðvitað þeir 600 þúsund farþegar sem WOW flutti til Íslands sem sérstaks áfangastaðar, farþegar sem skópu hér hagkerfi upp á 100 milljarða íslenskra króna og sjálfur ríkissjóður fékk allra aðila stærsta ábatann af. Ólíkt ýmsum spám hafa EKKI komið til ný flugfélög sem fyllt hafa upp í það skarð sem WOW skildi eftir sig. Afleiðingar þessa sér enn ekki fyrir endann á.
Ferðamálaráðherra upplýsti að ráðuneyti dómsmála yrði senn komið fyrir undir stjórn nýs ráðherra og að hún gæti þarmeð varið kröftum sínum í meira mæli í þágu þeirra stærstu atvinnugreinar þjóðarinnar sem ferðaþjónustan er orðin. Þessa gerðist ekki síst þörf nú, á æði viðsjárverðum tímum í greininni.
Comments