N.k. föstudag verður efnt til fundar um það sem hvað heitast brennur á rekstraraðilum hótela og gistihúsa, verslunar- og þjóustuaðila um þessar mundir: Síhækkandi fasteignagjöld.
Við blasir að á tímum samdráttar og hökts í ferðaþjónustu eru þau síhækkandi fasteignagjöld sem leggjast beint á eigendur fasteigna og óbeint á þá sem leigja atvinnuhúsnæði, farin að sliga fjölmarga og löngu tímabært að snúa vörn í sókn.
Félag atvinnurekenda, Húseigendafélagið og Landssamband eldri borgara standa sameiginlega að umræddum fundi sem haldinn verður kl. 8:30 - 10:00 n.k. föstudag 25. október að Grand hótelinu við Engjateig undir yfirskriftinni: Eru fasteignir féþúfa?
Meðal frummælenda eru hagfræðingurinn Magnús Geir Skúlason sem er einn fremsti sérfærðingur landins á vettvangi húsnæðismarkaðarins, Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir formaður Landssambands eldri borgara og Þórir Sveinsson stjórnarmaður í Húseigendafélaginu en fundarstjóri er Margrét Guðmundsdóttir í Festi.
Fundurinn verður haldinn í Hvammi á jarðhæð hótelsins, aðgangur er ókeypis og öllum opinn á meðan húsrúm leyfir. Léttur morgunverður verður fram borinn frá kl. 8:00.
Mikilvægt er að skrá sig á fundinn á vefnum: atvinnurekendur.is
Full ástæða er til, fyrir eigendur og rekstraraðila hótela og gistihúsa, að fjölmenna á þennan fund og taka þátt í að móta stefnu og aðgerðir svo stemma megi stigu við þeirri óheillaþróun sem hér blasir við!


Comments