Í Markaði Fréttablaðsins þann 25. nóvember 2020 er viðtal við ýmsa forsvarsmenn innan ferðaþjónustunnar um alvarlega stöðu greinarinnar. Almennt eru aðilar sammála um að fljótlega þurfi að liggja fyrir hvernig opnun landamæra fyrir ferðamönnum verði háttað, svo hægt verði að hefja sölu á ferðum til landsins á ný. Í opinberum spám sé gert ráð fyrir um 750 – 900 þúsund ferðamönnum til landsins árið 2021 eða um þriðjungi þess sem var þegar best lét. Ljóst sé að svigrúm aðila til að draga saman seglin sé mismunandi, bílaleigur hafi t.d. getað létt á rekstri með sölu hluta af sínum flota á neytendamarkaði. Rekstraraðilar með dýrari og sérhæfðari eignir eins og hótelrekendur og rútu og hvalaskoðunarfyrirtæki eigi síður kost á því. Haft er eftir formanni FHG að stóra málið sé fyrirsjáanleikinn í væntanlegum aðgerðum. „Ef við fáum skýr skilaboð um aðgerðir við landamærin þá getum við strax byrjað að selja miðað við þær aðgerðir.“ Almennt eru viðmælendur sammála um að ferðaþjónustan á Íslandi megi alls ekki við því að annað sumar tapist í ferðaþjónustu á Íslandi.
Núverandi fyrirkomulag við landamærin drepur allt
Fáir ferðamenn munu koma til landsins ef núverandi sóttvarnareglur verða viðhafðar við landamærin í sumar. Ferðaþjónustan, ræður illa við að vera áfram svo gott sem tekjulaus næsta sumar. Sagt er að grípa þurfi til aðgerða strax til að bjarga sumrinu.
Ég get ekki hugsað það til enda, hvað verður um fyrirtæki í ferðaþjónustu, ef sömu sóttvarnaráðstafanir verða við landamærin langt inn á næsta ár.“ Þetta segir Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor.
Öllum sem koma til Íslands er skylt að fara í COVID-19 próf, dvelja í sóttkví í fimm daga og fara í annað próf. Umræddar sóttvarnaráðstafanir verða í óbreyttri mynd til að minnsta kosti 1. febrúar. Næsta ákvörðun um fyrirkomulag á landamærum verður tekin eigi síðar en 15. janúar. Frá og með 10. desember verða vottorð um að fólk hafi fengið COVID-19 og að sýking sé afstaðin tekin gild og veita undanþágu frá þeim kröfum sem annars eru gerðar.
Drepur allt
„Núverandi fyrirkomulag drepur allt. Ef ferðaþjónustan er ekki gjaldþrota nú þegar þá verður hún það innan tíðar. Ef það á að bjarga verðmætum verður að breyta þessu hratt,“ segir hann.
Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að það sé ljóst að það muni engir ferðamenn koma til landsins ef þessar aðgerðir á landamærunum verði áfram við lýði.
Ásberg segir á að landamæri Evrópulanda séu almennt opin, þó ekki á Íslandi sem hafi hvað mestra hagsmuna að gæta af ferðaþjónustu.
Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu hefur hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu verið um átta prósent frá árinu 2016 til 2019. Fram hefur komið í fjölmiðlum að hún hafi skapað um þriðjung af gjaldeyristekjum landsins sem nú skili sér ekki til þjóðarbúsins.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Í nýlegri skýrslu frá starfshópi á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytisins er talið að nærri 100 þúsund ferðamenn muni sækja landið heim árið 2021 ef núverandi fyrirkomulag verður á landamærum allt árið. Til samanburðar komu 459 þúsund erlendir ferðamenn til Íslands árið 2010 og 2,3 milljónir árið 2018.
Fer niður á sumrin
Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, segir að í baráttunni við COVID-19 hafi aldrei legið fyrir meiri upplýsingar en nú. Veiran hafi farið niður síðasta sumar á Vesturlöndum eftir þungan vetur, óháð sóttvörnum. Stjórnvöld hljóti að taka það til grundvallar og ákveði að opna fyrir ferðamenn í sumar. Auk þess sé ljóst að það styttist í bóluefni gegn veirunni.
Hann segir að ef annað sumar muni tapast í ferðaþjónustu verði það afar þungt fyrir fyrirtæki í atvinnugreininni. Ferðamenn bóki ferðir til Íslands í janúar, febrúar og mars. Ef ekki verði komið til sögunnar aðgerðaplan fyrir ferðaþjónustu innan skamms sé „nánast búið að eyðileggja sumarið“.
Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Arctic Adventure.
Fram kemur í fyrrnefndri skýrslu að ef tvöfaldri skimun verður hliðrað á þá vegu að fyrri skimunin eigi sér stað í heimalandi ferðamannsins en seinni skimunin við komu til Íslands sé gert ráð fyrir að ferðamenn verði um 800 þúsund á næsta ári.
Þá er möguleiki
Ásberg segist vonast til að slíku fyrirkomulagi verði komið á fljótlega. „Þá er möguleiki á að fá ferðamenn í febrúar og mars í norðurljósaferðir.“
Aðspurður um horfur hjá Nordic Visitor ef áframhaldandi takmarkanir verða við lýði segir hann að starfsmönnum muni fækka enn frekar.
Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri CenterHotels, segir: „Stóra málið fyrir okkur er fyrirsjáanleikinn í væntanlegum aðgerðum. Ef við fáum skýr skilaboð um aðgerðir við landamærin þá getum við strax byrjað að selja miðað við þær aðgerðir.“
Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center Hotels.
Hann segir að ef það fáist skýr skilaboð um að landið verði opnað, til dæmis 1. mars, þá sé hægt að byrja að selja af krafti frá þeim degi. „Því seinna sem við byrjum því erfiðara verður að ná sumarvertíðinni og verðin verða enn lægri en þau eru orðin nú.“
Festa ekki ferðir í óvissu
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að ferðaskrifstofur og flugfélög séu ekki reiðubúin að festa ferðir hingað til lands á meðan óvissa ríkir um framhald núverandi aðgerða og óvissa sé um almennar forsendur mögulegra breytinga á sóttvarnaaðgerðum.
„Það er því gríðarmikilvægt að stjórnvöld tilkynni sem allra fyrst um það hvernig sóttvarnaaðgerðum verði háttað frá áramótum, það er veiti fyrirsjáanleika um það hvaða forsendur muni liggja til grundvallar ákvörðunum um þær og við hverju megi búast í útfærslum miðað við hverjar forsendur fyrir sig. Á meðan þetta er ekki tilkynnt tapar samfélagið miklum verðmætum í hverri viku, það er verðmætum sem annars væru nú að verða til með bókunum ferðaskrifstofa á Íslandsferðum næsta sumar og haust,“ segir hann.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.
Jóhannes Þór segir að ferðamenn mæti ekki í lok maí eins og skrúfað væri frá krana. „Ferðirnar þarf að selja og bóka með fyrirvara. Því þurfum við að fá úr því skorið núna sem fyrst hvernig þessu verður háttað inn í næsta ár.“
Þurfa fyrirvara
Styrmir Þór nefnir auk þess að það taki tíma að koma starfseminni í gang. Til að mynda sé ekki farið með ferðamenn upp á jökla án leiðsagnar vel þjálfaðs starfsfólks. Það taki tíma að endurmennta starfsliðið.
Steingrímur Birgisson, forstjóri Hölds/Bílaleigu Akureyrar, segir að það myndi muna miklu fyrir rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu ef ferðamenn yrðu 800 þúsund. „Með sjö til átta hundruð þúsund ferðamenn ættum við allavega að ná upp undir núllið í rekstrinum sem væri frábært næsta skref.“ Hann segir að tapið í ár verði umtalsvert.
Hörð samkeppni
Kristófer segir að ljóst sé að samkeppnin næsta sumar verði „mjög hörð alþjóðlega“ og verðin verði umtalsvert lægri ef fram fer sem horfir.
Ásberg segir að það verði engu að síður erfitt fyrir rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu að fá um 800 til milljón ferðamenn til landsins. Misjafnt sé eftir tegund fyrirtækja hve erfitt sé að draga saman seglin. Hótel hérlendis hafi verið reist til að taka á móti 2,5 milljónum ferðamanna, erfitt sé fyrir þann rekstur að fækka herbergjum. Rútufyrirtækin eigi örðugt með að selja rútur en bílaleigur geti selt úr bílaflotanum. Aðrir viðmælendur nefna sömuleiðis að hvalaskoðunarfyrirtæki eigi erfitt með að fækka bátum.
Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz á Íslandi, segir að bílaleigan hafi notið góðs af því að bílasala hafi aukist og því getað selt hraðar úr flotanum en gert var ráð fyrir. „Ég myndi treysta mér til að reka fyrirtækið á núlli miðað við 40-50 prósent af starfsemi síðasta árs með færra starfsfólki og færri bílum.“ Hann nefnir að 40-50 prósenta samdráttur á milli ára á næsta ári sé bjartsýnasta rekstraráætlun Hertz.
100 til 200 milljarðar
Jóhannes Þór segir að það sé ljóst að ef núverandi sóttvarnaaðgerðir á landamærum verði í gildi fram á næsta vor eða yfir næsta sumar þá muni tap á útflutningstekjum geta hlaupið á bilinu 100 til 200 milljarðar.
„Það er algerlega ljóst að ef núverandi sóttvarnaaðgerðir verða áfram í gildi fram á og yfir næsta sumar þá mun viðspyrna ferðaþjónustunnar verða lítil sem engin og atvinnuleysi í greininni haldast í svipuðum tölum og nú er. Það myndi þýða að neikvæð efnahagsleg og samfélagsleg áhrif kreppuástandsins myndu framlengjast og aukast mjög,“ segir hann.
Ásberg bendir á að öll fyrirtæki í ferðaþjónustu séu rekin með tapi um þessar mundir. Hann spyr hvers vegna hluthafar ættu að borga með rekstrinum þegar það sé ómögulegt að vita hvað þurfi að gera það lengi.
Ferðaþjónusta endurræsi hagkerfið
Styrmir Þór segir að ef endurræsa eigi hagkerfið þurfi ferðaþjónusta að fara aftur í gang. Hún byggi á miklum fjölda starfsfólks.
Margir sérfræðingar eru sammála því. Hópur fagfólks telur mikilvægt að nýsköpun og tækni verði ein af undirstöðum hagkerfisins en það mun taka mörg ár að byggja upp nokkurn fjölda af nýjum sprotafyrirtækjum. Aftur á móti geti ferðamönnum fjölgað til þess að gera hratt, einkum ef COVID-bóluefni kemst í almenna dreifingu og smit fari minnkandi. Það væri mikil lyftistöng fyrir hagkerfið á erfiðum tímum.
Ásberg segir að ef yfirvöld taki innan skamms réttar ákvarðanir muni ferðaþjónusta taka hraðar við sér en margir telji. Haldi yfirvöld fast við sinn keip verði atvinnuleysi langvarandi og það muni taka ferðaþjónustu langan tíma að jafna sig. „Boltinn er hjá stjórnvöldum,“ segir hann.
Styrmir Þór segir að landið verði í reynd lokað fyrir ferðamönnum í sumar verði Ísland sem ferðaþjónustuland ekki endurreist með auðveldum hætti.
Hann vekur athygli á að fyrirtæki í ferðaþjónustu þurfi hafa tiltekinn lágmarksfjölda starfsmanna til að viðhalda lágmarksþekkingu á starfseminni innan fyrirtækisins. Sjái starfsmenn ekki fram á að hafa neitt við að vera á daginn leiti þeir annað. „Einungis besta starfsfólkið okkar er eftir [eftir uppsagnir, innsk. blm.]. Það getur fengið vinnu annars staðar,“ segir Styrmir Þór.
Fram hefur komið að ef COVID-19 skimunin verði breytt á þann veg að ferðamenn mega fara í skimun í heimalandinu, til dæmis, fjórum dögum fyrir brottför og svo aftur við komuna, sé gert ráð fyrir 800 þúsund ferðamönnum á næsta ári. Annars megi reikna með um 100 þúsund ferðamönnum.
Ríkið reiknar með ferðamennsku
Jóhannes Þór bendir á að fjármálaráðuneytið hafi sett sem viðmið um tekjuöflun ríkisins að eiga megi von á um 900 þúsund ferðamönnum til landsins á árinu 2021.
Rétt er að nefna að Seðlabankinn gerir ráð fyrir að liðlega 750 þúsund erlendir ferðamenn komi til landsins á næsta ári og á þeim gögnum reiknar bankinn með því að hagvöxtur verði 2,3 prósent árið 2021.
Horfa vongóð til Schengen
Sumir innan ferðaþjónustunnar eru vongóðir um framhaldið vegna þess að íslensk stjórnvöld hafa samþykkt tilmæli ráðherraráðs Evrópusambandsins um breytingar á Schengen-regluverkinu. Markmið tilmælanna er að samræma aðgerðir vegna takmarkana á landamærum vegna COVID-19-faraldursins. Settir verða upp samræmdir litakóðar sem eiga að gefa til kynna stöðu faraldursins í hverju landi fyrir sig. Munu ferðatakmarkanir taka tillit til þess hver staðan er hverju sinni.
Grænn litur þýðir að nýgengi smits er undir 25 á hverja 100.000 íbúa og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4 prósentum. Má líta svo á að íbúar þeirra landa geti ferðast frjálst á milli landa.
Appelsínugulur litur þýðir að nýgengi er undir 50 en hlutfall jákvæðra sýna er 4 prósent eða meira eða nýgengi er 25-150 og hlutfall jákvæðra sýna er undir 4 prósentum.
Rauður litur á við í öðrum tilvikum þar sem nýgengi er yfir 50.
Sigfús B. Sigfússon, forstjóri Hertz á Íslandi, segist treysta því að landamærin muni opnast snemma á næsta ári fyrir ferðamenn frá „grænum“ löndum og svo koll af kolli og eftir því sem bólusetningu miðar. „Það er hins vegar mjög erfitt að gera áætlanir fyrir næsta sumar en margt mun skýrast á næstu vikum,“ segir hann.
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að það sé klárlega mikill uppsafnaður ferðavilji. „Við heyrum það frá mörgum samstarfsaðilum okkar erlendis að áfangastaðir eins og Ísland verða fljótir í gang þar sem fólk mun frekar sækjast í áfangastaði þar sem er lítil mannþröng. Það verður samt sem áður mikil samkeppni á milli landa enda munu allir keppast við að fá sem flesta ferðamenn til sín,“ segir hann.
Helmingur atvinnulausra tengdur
Rúmlega helmingur fólks á atvinnuleysisskrá í október kom úr atvinnugreinum tengdum ferðaþjónustu og verslun. Aðflutt vinnuafl og svæði sem reiða sig á ferðaþjónustu hafa fengið þungan skell en rúmur fimmtungur erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði og svipað hlutfall meðal íbúa á Suðurnesjum var án atvinnu í mánuðinum, segir í Peningamálum Seðlabankans. Þá hefur langtímaatvinnulausum, það er þeim sem hafa verið án vinnu í ár eða lengur, fjölgað en þegar farsóttin skall á hafði þegar dregið úr umsvifum í hagkerfinu eftir uppgang undanfarinna ára. Vinnumálastofnun spáir því að atvinnuleysi verði 11,3 prósent í desember. Ef starfsfólk á hlutabótaleið, sem sagt í minnkuðu starfshlutfalli, er talið með, verði atvinnuleysi 12,2 prósent. Í október var heildaratvinnuleysi 11,1 prósent. Seðlabankinn spáir því að atvinnuleysi verði liðlega tíu prósent á næsta ári, en í þeim tölum er ekki horft til þeirra sem eru á hlutabótum.
Helgi Vífill Júlíusson
Miðvikudagur 25.nóvember 2020
Fréttablaðið
frettabladid.is
Comments