Íslenskir hóteleigendur hafa margir hverjir deilt við bókunarsíðuna Booking.com um greiðslur af fyrirframgreiddum bókunum þegar veittur er sérstakur aukaafsláttur. Þá fyrirframgreiðir viðskiptavinur gistinguna og samþykkir að hann geti ekki afbókað, breytt bókun eða fengið endurgreitt hætti hann við ferð. Hefur Booking í einhverjum tilviku einhliða ákveðið að endurgreiða gistinguna og mótmæltu hótelin því. Viðbrögð Booking voru að segja hótelunum að taka þá við keflinu og semja við viðskiptavini. Liggur ágreiningurinn í því að sumir þeirra vilja endurgreiðslu.
Ekki heimilt að ákveða einhliða
Ferðamálastofa óskaði eftir lögfræðiáliti vegna þessa ágreinings hjá Magna lögmönnum í mars sl. Í minnisblaði lögmannanna kemur fram að telja verði að ekki sé heimilt að ákveða einhliða að krefjast endurgreiðslu frá ferðaþjónustuaðila á óendurgreiðanlegum bókunum sem hafa verið afbókaðar. Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG), segir að Booking hafa vísað til svonefndrar force majeure-reglu, en hún varðar ófyrirséð og óvænt ytri atvik sem koma í veg fyrir efndir. Kristófer segir íslensku hótelin hafa komið því sjónarmiði á framfæri að hótelin séu í fullum rétti að halda eftir greiðslum frá löndum þar sem flugsamgöngur eru hafnar á ný. "Síðan er Booking í sjálfsvald sett hvort hún endurgreiðir til að halda sinni viðskiptavild," segir Kristófer.
Hafa uppi á viðskiptavinum
Flest hótel hafa lagt í mikla vinnu við að hafa uppi á viðskiptavinum og bjóða þeim inneign svo þeir geti bóka gistinguna síðar. Þannig séð komið til móts við endurgreiðslurétt án þess að endurgreiða í beinhörðum peningum núna. Í langflestum tilfellum hafa þessi mál verið leyst farsællega og viðskiptavinir almenn sýnt þessum málum skilning og þegið inneignina. Það sé helst til ráða að vera í sambandi við Booking, viðskiptavininn og viðkomandi kortafyrirtæki. "Það er mikil vinna og því miður eru einhverjar bókanir enn í ágreiningi, en þeim fer mjög fækkandi." segir hann.
Blaðamaður: Baldur Arnarson
Grein - Morgunblaðið 8.júlí 2020
Comentários