top of page

Skammsýni að gefa hótelskipum forskot með skattleysi


Kristófer Oliversson formaður FHG og Jóhannes Þór Skúlason framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar

Von er á fyrstu gestum á nýtt og glæsilegt Hótel Reykjavík Saga við Lækjargötu á sunnudag, en bygging þess hefur staðið yfir síðustu fjögur ár, með hléum, vegna heimsfaraldursins.

Þar með bætast við 129 herbergi í hótelgistingu á landinu, eftir að allar hótelbyggingarnar á Lækjargötureitnum verða komnar í stand, en hótelherbergjum hefur fjölgað stórlega á síðustu árum, einkum og sér í lagi fyrir faraldurinn.

Nú eru um 11.500 hótelbergi á Íslandi, en þeim fjölgaði um meira en 152 prósent á árabilinu frá 2010 til 2019, einkum vegna fjölgunar erlendra ferðamanna sem voru á þessum tíma um 90 prósent af þeim sem dvöldu á umræddum hótelum – og sú saga er nú að endurtaka sig eftir pestartímann.

En þótt hótelum fjölgi, jafnt fyrir og eftir heimsfaraldurinn, segja hóteleigendurnir sjálfir að keppnisreglurnar á markaðnum séu harla ósanngjarnar. Hingað hafi erlend hótelskip komið í röðum á síðustu árum til að mæta skorti á gistiþjónustu, en eigendur þeirra komist hjá nær öllum opinberum álögum þótt þau séu í beinni samkeppni við hótelin á landi.

Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir sveitarfélögin sjá sér akk í komum hótelskipanna, enda sjóðir hafnarsjóðs í húfi og fyrir vikið sé víða um land varið miklu skattfé til að byggja upp aðstöðu fyrir þau. „En þetta er ójafn leikur, segir hann og Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, tekur undir það, gagnrýnin sé eðlileg, enda eigi samkeppnisgrundvöllurinn í greininni að vera sem jafnastur.

En það er hann ekki ef að er gáð. Hótelrekendur greiða gistinátta­skatt, áfengisskatt, virðisaukaskatt, tryggingagjöld, fasteignagjöld og staðgreiðslu af launum starfsmanna til ríkis og sveitarfélaga, en hótelskipin aðeins hófleg hafnargjöld og komugjald sem nemur 185 króna eingreiðslu á hvern farþega.

„Það renna tvær milljónir af hverju meðalhótelherbergi í Reykjavík til hins opinbera á ári, hálf önnur milljón í ríkiskassann og hálf í borgarsjóð,“ bendir Kristófer á, „en keppinautar okkar við hafnarkantinn búa við allt aðrar aðstæður,“ bætir hann við.

„Við höfum horft á sprengingu í framboði Airbnb-íbúða, sem nokkuð hefur sljákkað, en núna er næsta bylgja að ríða yfir með hótelskipum,“ segir Kristófer og telur það mikla skammsýni stjórnvalda að gefa þessum aðilum forskot í formi skattleysis. „Það blasir við að þetta mun hægja á heilsársuppbyggingu hótela, einkum úti á landi.“

„Hótelskipin eru auðvitað allt önnur vara en gisting á landi,“ segir Jóhannes Þór, „en það breytir ekki því að opinberar álögur lenda mjög misjafnlega á seljendum gistingar á landinu. Það verður bara að segjast alveg eins og er.“ Hann bendir jafnframt á að gistináttaþjónusta hér á landi hafi lotið nokkuð öðrum lögmálum en í nágrannalöndunum vegna ónógs framboðs af hótelum frá því sprenging varð í fjölgun ferðamanna til Íslands eftir 2010.

Hérlendis hafi framboð af gistingu í heimahúsum og bústöðum aukist miklu meira en annars staðar, en hún hafi numið 20 prósentum af gistináttaframboði í samburði við fimm prósent í Svíþjóð. „Og það er nú svo að það gilda ekki sömu reglur um álögur og gjaldtöku af þessum ólíku seljendum gistináttaþjónustu hér á landi,“ segir Jóhannes Þór Skúlason.

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page