top of page

Hörður dregur upp mynd af áhrifum hertra aðgerða við landamærinMyndin er ekki beint glæsileg. Við stöndum frammi fyrir verstu efnahagskreppu í hundrað ár og útlit fyrir að skuldir hins opinbera aukist um 850 milljarða. Þetta eru afleiðingar af hörðum sóttvarnaaðgerðum, sem standa óhaggaðar þrátt fyrir fá smit, hverfandi innlagnir á sjúkrahús og engin dauðsföll, og mun, samkvæmt nýrri spá Seðlabankans, valda um sjö prósenta efnahagssamdrætti í ár og yfir tíu prósenta atvinnuleysi. Hætt er við að sú spá sé samt of bjartsýn. Heil atvinnugrein, sem hefur skapað um þriðjung af öllum gjaldeyristekjum þjóðarbúsins og staðið undir stórbættum lífskjörum almennings undanfarin ár, hefur verið þurrkuð út. Aðrar útflutningsgreinar landsins, einkum orkufrekur iðnaður, eru einnig að horfa upp á umtalsverðan tekjusamdrátt. Hertar aðgerðir við landamærin, þar sem Ísland sker sig úr í samanburði við önnur Evrópuríki, hafa gert slæmt efnahagsástand verra. Sú ákvörðun, sem var tekin án heildstæðs hagsmunamats og hefur skert athafna- og ferðafrelsi fólks, á eftir að valda samfélaginu í heild stórkostlegu tjóni. Búið er að brenna allar brýr að baki fyrir ferðaþjónustuna í vetur. Erlend flugfélög, sem ætluðu að halda úti áætlunarflugi til Íslands, hafa hætt við þau áform – og þau verða ekki endurskoðuð – og þá er ljóst að áhrifin á Icelandair, sem freistar þess nú að afla sér 20 milljarða í hlutafjárútboði, eru umtalsverð til skemmri tíma. Fjárhagsleg áhætta ríkissjóðs af því að veita félaginu ríkisábyrgð á 16,5 milljarða lánalínu, samhliða því að landinu er lokað fyrir ferðamönnum, hefur því að sama skapi aukist til muna. Ekki er að sjá að heil brú sé þar í nálgun stjórnvalda.


Með því að skella landinu í lás án þess að vera með plan um hvað tæki við hefur þeim tekist að auka á alla óvissu.

Áhrifin eru víðtækari en aðeins á ferðaþjónustuna. Ísland, sem lítið opið hagkerfi, reiðir sig á utanríkisviðskipti og áhrifin á vöruflutninga og fyrirtæki sem eiga sitt undir alþjóðlegum samskiptum eru mikil. Gengi krónunnar hefur lækkað um 20 prósent frá upphafi faraldursins, sem er ekki óeðlilegt í slíkum efnahagshremmingum. Frekari gengisveiking, sem kynni að ýta upp verðbólguvæntingum og knýja bankann til að fara að hækka vexti, er hins vegar ekki ólíkleg á meðan búið er að skrúfa fyrir stóran hluta af gjaldeyrisöflun þjóðarbúsins. Við þessar aðstæður verður lífeyrissjóðunum ekki mögulegt að halda áfram að auka við áhættudreifingu í eignasafni sínu með því að fjárfesta erlendis. Stjórnvöld hafa lagt á það áherslu að minnka þá efnahagsóvissu sem hefur hlotist af veirufaraldrinum. Nú er staðan önnur. Með því að skella landinu í lás án þess að vera með plan um hvað tæki við hefur þeim tekist að auka á alla óvissu. Ekki er vitað undir hvaða kringumstæðum á að vinda ofan af þessum íþyngjandi aðgerðum. Það er óþolandi. Upphaflegu markmiðin – um að fletja kúrfuna, létta álaginu á heilbrigðiskerfinu og lifa með veirunni – eru ekki lengur að leiðarljósi heldur einhver önnur og öllu óljósari. Fyrirséð er að almenningur muni í vaxandi mæli spyrja sig þeirrar spurningar hvort meðalið við veirunni, harðar sóttvarnaaðgerðir á sama tíma og gögn sýna að faraldurinn er í mikilli rénun, sé ekki hættulegra en sjálfur sjúkdómurinn. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar, sem lét meðal annars undan hótunum forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, á eftir að reynast henni meiriháttar pólitískur og efnahagslegur afleikur.


Grein: Fréttablaðið 28.ágúst 2020 / Hörður Ægisson - hordur@frettabladid.is

コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page