top of page

Kalla eftir aðgerðum



- Hótelin vilja gistináttaskattinn burt - Bílaleigurnar vilja aftur afslátt af vörugjöldum - Stefnir í uppsagnir starfsfólks á hótelum um næstu mánaðamót


Baksvið - Morgunblaðið 10.mars 2020

Þóroddur Bjarnason


Kristófer Oliversson, eigandi Center-hótela og formaður FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir í samtali við Morgunblaðið að í ljósi alvarlegrar sviðsmyndar sem blasi við í íslenskri ferðaþjónustu, vegna Kórónuveirunnar, sé rétti tíminn nú til að afnema gistináttaskattinn, sem lagður var á hótelin í landinu 1. janúar 2012 og síðan þrefaldaður á árinu 2017.


Innan bílaleigugeirans er einnig rætt um aðkomu yfirvalda, en viðmælendur Morgunblaðsins vilja að innleiddur verði á ný afsláttur af vörugjöldum bílaleigubíla, sem afnuminn var um áramótin 2017 - 2018.


Spurður nánar um viðbrögð yfirvalda til að sporna við ástandinu sem skapast hefur segir Kristófer að ásamt lækkun gistináttaskattsins sé nauðsynlegt að fara í markaðssókn til að kynna landið fyrir ferðamönnum, sem öruggan áfangastað. »Gistináttaskatturinn er búinn að gera okkur mikinn óleik. Þetta er auka tryggingagjald sem lagt var á hótelin eingöngu í þessu undarlega ástandi sem skapaðist eftir hrun þegar hótelunum gekk sæmilega í 2 - 3 ár. Nú viljum við að menn nýti tækifærið við gerð fjármálaáætlunar ríkisstjórnarinnar til þess að afnema gistináttskattinn,« segir Kristófer.


Airbnb veldur tjóni

Þriðja atriðið sem Kristófer nefnir er AirBNB heimagistingin, sem valdi bæði tjóni fyrir hótelin í landinu, og á markaðnum almennt. »Eins og bent var á í útvarpsþættinum Sprengisandi s.l. sunnudag þá hefur AirBNB útleiga haft þau áhrif að húsaleiga hækkar upp úr öllu valdi og fólk á lægstu laununum, sem er á leigumarkaði, býr við það að leigan hækkar og hækkar og étur upp allar launahækkanir. Við hótelmenn höfum hamrað á því í mörg ár að þessi atvinnurekstur í íbúðahverfum er afar ósanngjarn og skekkir rekstrarumhverfi hótelanna. Það eru fleiri herbergi í boði á Air BNB en á hótelmarkaði og AirBNB-rekstur er undanþegin gistináttaskatti, virðisaukaskatti, öllum leyfum og með 90% afslátt af fasteignaskatti miðað við hótelin.«


Af samtölum Morgunblaðsins við aðila á markaðnum má greina að uppsagnir séu yfirvofandi í hótel - og veitingageiranum. Kristófer er ómyrkur í máli er hann er spurður út í það atriði. Hann segir að aðilar í greininni hafi miklar áhyggjur. Salan sé að detta niður á mesta sölutíma ársins á sama tíma og lífskjarasamningarnir komi til framkvæmda af fullum krafti um næstu mánaðamót. Þá hækki taxtar bæði VR og Eflingar um ca. 8%. Kristófer segir að reikningsdæmið sé ekki flókið þegar kostnaður hækki, en tekjur dragist saman á sama tíma. »Það þarf enga snillinga til að reikna þetta dæmi til enda. Okkar stærstu kostnaðarliðir eru laun.«


Kristófer kallar eftir því að stjórnvöld taki afgerandi forustu í málefnum greinarinnar, eins og ítrekað hefur verið kallað eftir m.a. í Morgunblaðinu undanfarna daga. »Það er mikið ákall frá okkur í hótelgeiranum að stjórnvöld fari að sýna forystu, taki stjórnina með afgerandi hætti og komi á heilbrigðu rekstrarumhverfi í hótelgeiranum.«


Sala bílaleigubíla gengur hægt

Þeir aðilar á bílaleigumarkaði sem Morgunblaðið ræddi við bentu meðal annars á að bíleigur gætu gripið til þess ráðs að selja frá sér bíla en hótelin gætu ekki selt frá sér herbergin. Salan gengi þó erfiðar núna vegna verkfallsaðgerða undanfarið, en öll óvissan sem fylgdi slíkum aðgerðum og umræðu yrði til þess að fólk héldi að sér höndum við stórar kaupákvarðanir.


Einn af viðmælendum blaðsins sagði að sala bílaleigubíla væri núna fjórum sinnum minni en í janúar. Mikið hefur verið um afbókanir frá ferðamönnum sem koma frá Asíu, og til dæmis hefur dregið úr komu taívanskra ferðamanna, sem litið er á sem verðmætustu viðskiptavini bílaleiganna. Þeir dvelji lengur en aðrir, leigi dýrari bíla og kaupi meira af tryggingum en aðrir.


Almennt er talið að þær bílaleigur sem eigi mikil viðskipti við asíska ferðamenn verði harðar úti en aðrar, nú þegar kórónuveiran geisar.


Viðmælandi blaðsins benti á að ferðamenn sem kæmu hingað með hópum og ættu pöntuð rútuferðalög leigðu sér í staðinn bílaleigubíla til að forðast margmenni í rútunum til að komast hjá smiti.


Varðandi mögulegar uppsagnir í bílaleigugeiranum sögðu menn að það gæti verið snúið að segja upp fólki á þessum tímapunkti. Fólk væri með þriggja mánaða uppsagnarfrest og ekki mætti missa starfsfólk yfir háönnina í sumar þó að ástandið væri slæmt í augnablikinu.


Kórónuveiran hefur einnig áhrif á bílakaup bílaleiganna, en þær halda að sér höndum í pöntunum á nýjum bílum. Leiða má líkur að því að hundruð bíla sem annars væru pantaðir hjá íslenskum bílaumboðum séu nú ekki pantaðar vegna veirunnar.


Eins og viðmælandi Morgunblaðsins benti á var afsláttur af vörugjöldum til bílaleiga, sem afnuminn var áramótin 2017-2018, ein helsta ástæða þess hve bílaleigum fjölgaði hratt hér á landi eftir hrun.


Stór hluti hagnaðar bílaleiganna hefði komið til vegna þessarar meðgjafar frá yfirvöldum, en hægt var að selja bíl með hagnaði eftir að hafa átt hann í 15 mánuði. Afslátturinn hefði numið 250 þúsund krónum auk virðisaukaskatts.


Eins og kom fram á ferðaráðstefnu í haust er talið að ef hægt væri að lengja dvöl allra ferðamanna á landinu um einn dag þýddi það 110 milljarða tekjuauka, miðað við tvær milljónir ferðamanna. Það gæti réttlætt afslátt vörugjalda á ný, til að liðka fyrir lengri veru ferðamanna hér á landi.

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page