top of page

Lognið á eftir storminum

Updated: Sep 24, 2020


Eftir spennuþrungna tíma verkfalla og gjaldrota í ferðaþjónustunni blasir nú við betri tíð, þó nokkurs samdráttar hafi orðið vart í bókunum gistirýma víða um land. 

SAF telur að við blasi um 14% samdráttur í bókunum gistirýma á þessu ári, miðað við síðasta ár. Fyrir fjölmarga rekstraraðila er það vissulega grafalvarlegt, ekki síst þá sem starfa í dreifbýlinu.


Ýmsir eru enn hugsi yfir því með hvaða hætti fall WOW bar að og háværar sögusagnir um afarkosti Isavia gagnvart félaginu á ögurstundu fá menn til að velta því fyrir sér hvort það tengist hinni skyndilegu breytingu á stjórn og framkvæmdastjórn Isavia.

Vonandi getur sú lykilgrein atvinnulífsins sem ferðaþjónustan er reitt sig á atfylgi ríkisfyrirtækja og ríkisstjórnar þegar mikið liggur við í framtíðinni. Hafi 300 milljóna greiðsla sem ekki barst fyrr en nokkrum klukkustundum eftir gjalddaga fellt þá stóru lífæð ferðaþjónustunnar sem WOW er, þá hljómar slík upphæð hjákátlega við hliðina á þeim tugmilljörðum sem hið opinbera veitir til ýmissa tekjuminni þátta atvinnulífsins á ári hverju. 600.000 farþegarnir sem WOW flutti til landsins á sl. ári skópu hér veltu um og yfir 100 milljarða. 


Ný flugfélög hafa tekið að boða komu sína til landsins og þess má vænta að fleiri slíkra sé von á næstunni. 


Full ástæða væri til að efna til öflugs markaðsátaks á þeim mörkuðum sem flogið er til og frá, en mest munar um Bandaríkjamarkað eftir kyrrsetningu Boing véla Icelandair og gjaldþrot WOW. Nýtt Inspired by Iceland verkefni væri kærkomið við þær aðstæður sem nú blasa við. 


Áfangastaðurinn Ísland mælist sem betur fer enn með áhugaverðustu áfangastöðum heims fyrir ferðamenn og er ekki ástæða til annars en að ætla að svo muni áfram verða, ekki síst ef öflugu markaðsátaki verður hleypt af stokkunum.


Gleðilegt sumar!

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page