Umræða um nýfallinn dóm um áhrif covid19 á umsamið leiguverð og samspil dómsins við aðra samninga, s.s. lánasamninga.
FHG boða til félagsfundar nk. fimmtudag, 25. mars, kl. 10.00 á Icelandair Hotel Reykjavík Natura (bíósalur).
Fundarefnið er nýfallinn héraðsdómur í máli Fosshótela og Íþöku, þar sem fjölskipaður dómur tók málefnalega afstöðu til þess hvort heimsfaraldur kórónaveiru geti talist ófyrirsjáanlegur atburður sem geti haft áhrif á samningsskuldbindingar aðila. Málið var höfðað af Fosshótelum til staðfestingar lögbanns sýslumanns á útgreiðslu bankaábyrgðar til leigusala en dómkröfur lutu einnig að breytingu á leiguskuldbindingum í því ástandi sem nú ríkir. Fjölskipaður héraðsdómur felldi lögbannið úr gildi en taldi hins vegar rétt að víkja leigusamningnum til hliðar að hluta, á grunni 36. gr. samningalaga, þannig að leigusali og leigutaki skiptu áfallinu jafnt sín á milli. Dómurinn lækkaði þannig leiguverðið um helming fyrir tímabilið frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021 en dómurinn kann að hafa almenna skírskotun hvað varðar samningsákvæði um leiguverð og jafnvel aðrar samningsskuldbindingar í ljósi heimsfaraldursins.
Sjá dóminn hér
Eiríkur S. Svavarsson hæstaréttarlögmaður, lögmaður Fosshótela í málinu, verður gestur fundarins. Hann mun fara yfir dóminn, ræða mögulegt fordæmisgildi hans gagnvart samningum aðila almennt í covid, m.a. samningum við lánastofnanir, og svara spurningum félagsmanna FHG.
Í framhaldinu mun Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður koma með sitt álit á málinu, m.a. út frá lögfræðiálitinu sem prófessor Viðar Már Matthíasson vann fyrir FHG árið 2020, um áhrif óvæntra og ófyrirséðra atvika á efndir samninga.
Gert er ráð fyrir að fundurinn standi frá 10.00 til 11.30.
Comments