top of page

Safnstæði rúta í fráleitu uppnámi í miðborg Reykjavíkur!

Updated: Sep 24, 2020

Ekki stendur til að opna safnstæði 7, við Traðarkot, aftur þegar Hverfisgatan opnar loksins fyrir bílaumferð milli Lækjargötu og Smiðjustígs - hvenær sem það skyldi verða. Margra mánaða tafir á lúkningu framkvæmda á vesturhluta Hverfisgötu skýrast m.a. af því að þar hefur enginn dampur verið á framkvæmdum um margra mánaða skeið. Einn til tveir eldri verkamenn sjást öðru hvoru dunda þar og hinum og þessum stofnunum borgarinnar kennt um, þ.á. m. Orkuveitunni. Svipað hangs hefur viðgengist víða um miðborgina allt frá vormánuðum og fjöldi gatna hafa verið lokaðar að hluta eða í heild og hagsmunir rekstraraðila eru hunsaðir.


Vegna lokana safnstæða við Safnahús og Traðarkot, númer 6 og 7, í sumar, var opnað nýtt safnstæði við Skúlagötu 14, og mun það vera opið áfram.

Stæðið við Safnahús er enn lokað vegna framkvæmdanna fyrrnefndu. Ferðaþjónustufyrirtækjum er því beint á stæðin við Skúlagötu 14 og einnig við Lækjargötu 3.


Lagt var fyrir skipulags- og samgönguráð Reykjavíkurborgar bréf Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF) þann 16. janúar 2019, þar sem fram kom sú tillaga að safnstæði 7 við Traðarkot yrði lokað sökum „mikilla vandkvæða“ við stæðið. Ekki var haft samráð um þetta fyrirkomulag við FHG - Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu - sem innibera yfir 90% hótel-og gistirýma landsins.


Mikill fjöldi hótela og gistihúsa er í miðborginni, ekki síst í kringum austurhluta Laugavegar og Hverfisgötu. FHG telur algjörlega óboðlegt að loka safnstæðum bæði á Laugavegi og nú á Hverfisgötu og bjóða ferðafólki og þjónustuaðilum þess einungis upp á Skúlagötu og Lækjargötu sem valkost til að sækja fólk og skila. Það er satt að segja ekki í anda íslenskrar gestrisni að gera t.a.m. eldra fólki að klöngrast með farangur sinn síðla kvölds upp bratta stíga allt að einum km. til að komast í gistingu eftir langt og strangt ferðalag.


FHG hefur gert alvarlegar athugasemdir við umrætt fyrirkomulag og óskað eftir samtölum við borgarfulltrúa hið fyrsta, en þegar hefur verið fundað með Samgöngustjóra borgarinnar vegna þessa.

Ferðafólk hímandi í myrkri og kulda á óupplýstri gangstétt við Skúlagötu að bíða eftir rútu. "Fullur sómi að" segja borgaryfirvöld!

コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page