top of page

Samtal við borgarstjóra um Airbnb og gistináttaskatt á aðalfundi FHG 2022

Updated: Jul 15, 2022Dagur B. Eggertsson borgarstjóri var gestur aðalfundar FHG 28.apríl síðastliðinn. Hann rifjaði upp þá umbyltingu sem hefði orðið í ferðaþjónustu frá því hann kom fyrst til starfa fyrir borgina árið 1998, þegar hann tók að sér að starfa með Höfuðborgarstofu. Þá hefði þetta verið sumarbransi hér á landi og ársfundur ferðaþjónustunnar haldinn í október að lokinni ferðamannavertíðinni. Hann sagði Reykjavíkurborg hafa sett sér sína fyrstu ferðamálastefnu árið 1998 og á grunni hennar hafi borgin lagt áherslu á vörumerkið Reykjavík. Borgin hafi þannig verið í fararbroddi að átta sig á mikilvægi ferðaþjónustunnar og hlúa að henni til framtíðar.


Uppgangur ferðaþjónustunnar eftir hrun hafi dregið þjóðina uppúr stöðnun, en sá öri vöxtur um 20% árlega hafi kallað á sterkari innviði. Dagur sagði innkomu Airbnb hafa hjálpað til við að leysa þann vanda. Borgin hafi ýtt á eftir þeim breytingum, en þó hafi það komið borginni á óvart að löggjafinn ákvað að breyta frumvarpinu og leyfa hverjum leyfishafa að skrá tvær eignir, ekki eina. Dagur segir borgina hafa verið meðvitaða um vaxtaverkina sem fylgdu vexti Airbnb og átt í samstarfi við systurborgir í Evrópu sem voru að glíma við sama vanda. Amsterdam hafi hoggið á þann hnút og þvingað Airbnb til að skaffa gögn um gistinætur. Samhliða miklum uppgangi sagði borgarstjóri ferðaþjónustuna hjá borginni hafa farið að snúast meira frá því að markaðsetja Reykjavík yfir í að stjórna ferðamönnum í Reykjavík. Þar hafi komið til þættir eins og betra utanumhald um Airbnb, stýringu á rútuumferð í miðbænum og kvóti á hótelherbergi á einstökum svæðum miðborgarinnar.


Borgarstjóri sagði málflutning FHG gegn gistináttagjaldi hafa verið beittan og bað félagsmenn að íhuga það hvort þetta gæti ekki verið röng nálgun hjá ferðaþjónustunni. Tekjur ríkisins af ferðaþjónustu færu beint í rekstur ríksins en ekki til að styrkja innviði ferðaþjónustunnar. Sveitarfélög hafi þannig ekki beinan tekjustofn af ferðaþjónustunni og þar með ekki beina hagsmuni af því að taka á Airbnb. Borgarstjóri sagði það ríkan vilja sveitarfélaganna að fá gistináttagjaldið til sín, en ríkið hafi dregið lappirnar. Það væru langtímahagsmunir að sveitarfélögin hafi beinar tekjur af ferðaþjónustunni, þannig geti ferðþjónustuaðilar gert meiri kröfur til sveitastjórna um að ákveðnir hlutir séu í lagi.


Þá lýsti Dagur aðdáun sinni á hversu vel gististaðir og veitingastaðir fóru í gegnum covid. Á sama tíma hafi Reykjavík tekist að snúa vörn í sókn og styrkja sig sem öruggan áfangastað. Hingað hafi sem dæmi komið risastór tölvuleikjamót með fjölda þátttakenda sem dvöldu lengi á hótelum borgarinnar. Erlendir kvikmyndaframleiðendur hafi einnig treyst Íslandi meðan faraldurinn geysaði. Nú sé borgin og Ísland í heild komið á kortið hjá þessum aðilum.


Hann sagðist vera ánægður með aðgerðir stjórnvalda í covid, sem hann sagði að vísu hafa komið nokkuð seint í upphafi og lokið helst til snemma eða um síðustu áramót. Hann sagðist sjálfur ásamt fleirum hafa látið í sér heyra og kallað eftir áframhaldandi aðgerðum á lokasprettinum. Ánægjulegt væri hins vegar að sjá góða bókunarstöðu nú.


Borgarstjóri sagði að í aðgerðaráætlum borgarinnar til 2025 sé áætlun um fjölgun ráðstefna og ráðstefnugesta. Dagur taldi mestan virðisauka fást úr þeim markhópi, því þeir gestir dvelja lengst. Þá taldi hann mikilvægt að vera með græna stefnu, þ.e. skýrt kolefnisbókhald á fyrirtækjagrunni, fyrir borgina í heild. Reykjavíkurborg sé í dag í 5. sæti yfir borgir í fararbroddi í sjálfbærri ferðaþjónustu. Helsinki sé í fyrsta sæti. Hann taldi það skipta hvað mestu máli þegar kemur að því að markaðsetja Ísland til framtíðar og þá sér í lagi þegar kemur að hvataferðum og ráðstefnuhaldi. Borgarstjóri sagði þau stóru hótelverkefni sem væru í gangi í miðborginni eiga eftir að laða til sín betur borgandi ferðamenn, en á næstu 12 mánuðum muni opna fjögur stór lúksus hótel í Kvosinni.


Dagur þakkaði FHG fyrir að bjóða sér að mæta á aðalfund sinn og sagðist vilja eiga gott samtal við félagsmenn FHG. Hann áréttaði að borgin og ferðaþjónustan eigi sameiginlega hagsmuni í að auka tekjur af ferðaþjónustu og tryggja á sama tíma að upplifun ferðamanna sé sem best. Þó verði alltaf að hugsa borgina út frá íbúunum og það snúi líka að ferðaþjónustunni. Þeir vilja ekki lenda í því sama og Barselóna þar sem íbúar fari í mótmælagöngur vegna ágangs ferðamanna. Þar megi hafa í huga að fyrir Olympíuleikana í Barselóna 1992 hafi fjöldi ferðamanna þar verið jafn mikill og í Reykjavík. Árið 2019 hafi ferðamenn í Barselóna hins vegar verið komnir í 12 milljónir á ári.


Í umræðum í kjölfar ávarps borgarstjóra komu fram áhyggjur félagsmanna FHG af gistináttaskatti. Það væri illa útfærður skattur og margar betri leiðir fyrir sveitarfélög til að sækja sér tekjur af ferðaþjónustu. Þannig benti formaður FHG á að tekjur hins opinbera af gistináttaskatti hefðu verið aðeins rúmur milljarður króna árið 2019 þegar best lét í ferðaþjónustu fyrir covid. Þannig sé ekki eftir miklu að slægjast fyrir sveitarfélög landsins. Þá yrði að hafa í huga að starfsfólk í hótelgeiranum væri upp til hópa ungt aðflutt fólk án fjölskyldu, sem skilaði sveitarfélögum útsvari en þæði litla þjónustu á móti. Þar væri um verulegar útsvarstekjur að ræða fyrir sveitarfélögin og mun hærri en nokkurn tímann fengist af gistináttaskatti. Einnig var bent á að margar borgir í kringum okkur bæði austan hafs og vestan hefðu farið í hart gagnvart Airbnb, með það að markmiði að takmarka þá þjónustu. Dagur sagði að hann sæi borgina og FHG geta sameinast um það markmið að fækka á ný niður í eina eign á leyfishafa, auk þess sem hann teldi þurfa að efla eftirlit. Það hefði sýnt sig að ríkið stæði sig ekki í þeim efnum og því vildi borgin gjarnan taka eftirlishlutverkið að sér.


Þá var spurt var út í hvort borgin hygðist taka upp næturstrætó á ný um helgar til að tryggja betur öryggi starfsmanna gististaða í miðborginni. Dagur sagði þá tilraun hafa lagst af í covid, en hann sæi ástæðu til að endurræsa hana um helgar. Dreifikerfi slíkrar þjónustu gæti þó aldrei verið sambærilegt við dagþjónustuna.


Formaður FHG áréttaði í lokin að hvert hótelherbergi í borginni borgaði að meðaltali um 2 milljónir króna á ári til hins opinbera. Á móti greiddu Airbnb og hótelskip nær núlli. Mikilvægt væri að finna leiðir til að leiðrétta þá skekkju. Formaður og borgarstjóri voru sammála um mikilvægi þess fyrir bæði Reykjavíkurborg og FHG að samtal milli þessara aðila héldi áfram á næsta kjörtímabili.

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page