top of page

Spáir metári í ferðaþjónustu



Framkvæmdastjóri RR hótela segir bókunarstöðuna góða - Hrakspár um samdrátt hafi ekki ræst - RR hótel hafa tekið yfir rekstur Turnsvítanna í Höfðatorgsturninum - Munu opna nýtt hótel í vor.


Þórður Birgir Bogason, framkvæmdastjóri RR Hótela, segir bókunartölur benda til metfjölda erlendra ferðamanna í ár. RR Hótel áformaði að taka nýtt hótel á Hverfisgötu 78 í notkun í desember. Er nú miðað við febrúar. Með því fjölgar hótelíbúðum félagsins úr 47 í 63. Þá er félagið rekstraraðili vínbarsins Port 9 á Veghúsastíg og rekur lúxussvítur á efstu hæð Höfðatorgsturnsins undir vörumerkinu Tower Suites Reykjavík.



Áhyggjurnar reyndust óþarfar Þórður segir hrakspár um samdrátt í ferðaþjónustu ekki hafa ræst. „Bókunarstaðan er að minnsta kosti jafn góð og í fyrra. Ef ég horfi ár aftur í tímann þá fór uggur um mann. Maður óttaðist hvernig staðan yrði á árinu 2018. Þær áhyggjur reyndust óþarfar. Nú eru hlutirnir orðnir eðlilegri, þ.m.t. verð fyrir gistingu. Verð í helstu kaupmyntum okkar hefur lækkað og er nú nær því að vera í takt við það sem gengur og gerist í samkeppnislöndum okkar. Að sjálfsögðu hefur veiking krónu komið sér vel fyrir útflutningsfyrirtækin og fyrirtæki í gistiþjónustu,“ segir Þórður Birgir sem telur neikvæða umræðu um greinina og hrakspár um jafnvel samdrátt ekki í takt við þróunina í gistirekstri í fyrra.


„Ég er sannfærður um að árið 2019 verður stærra en 2018 í komum ferðamanna til landsins. Ég held að hótelmarkaðurinn og þeir sem eru í fínum rekstri í dag eigi eftir að hafa það ágætt. Reksturinn á eftir að ganga vel í ár.


Vissulega eru sumir rekstraraðilar í erfiðleikum. Samkeppnin er mikil sem er til góða fyrir neytandann. Svo nær þetta einhverju jafnvægi. Með jafnvægi meina ég að verð mun lækka eitthvað frekar í kaupmynt og nýting mun líklega einnig lækka og ná jafnvægi, t.d. í kringum 75% í Reykjavík þegar fram í sækir. Þannig er það í flestum borgum sem við berum okkur saman við. Þeir sem eru hagkvæmastir í rekstri munu ná samkeppnisforskoti.


Allir hagsmunaaðilar munu þurfa að taka þátt í þessu og ekki aðeins rekstraraðilar heldur einnig fasteignafélög, lóðareigendur, birgjar og ekki síst stjórnvöld sem ættu að koma fram við greinina sem útflutningsgrein. Raunin er sú að eftirspurnin er mikil og við þurfum að mæta því sem þjóð á einhvern hátt. Það er mikið í burðarliðnum í hótelgeiranum og stórir aðilar eru að koma inn á markaðinn árin 2020 og 2021 með fín vörumerki og hágæðagistingu. Maður finnur fyrir eftirspurninni.


Það er ekkert lát á henni. Sé eftirspurnin til staðar, og ef haldið verður ágætlega á spöðunum í uppbyggingu innviða, mun flugframboð taka mið af því. Ég hef engar áhyggjur af því að flugframboð verði vandamál,“ segir Þórður og vísar m.a. til áhrifa breytinga hjá WOW air.


Byggt á landamærarannsókn

Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru seldar 4,16 milljónir gistinátta fyrstu 11 mánuðina í fyrra. Fram hefur komið að desember var góður mánuður í ferðaþjónustunni. Miðað við að jafn margar gistinætur hafi selst í desember 2018 og seldust í desember 2017 má ætla að um 4,5 milljónir gistinátta hafi selst í fyrra. Það væri nýtt met. Hins vegar benda tölur um óskráða gistingu fyrstu 11 mánuði 2018 til samdráttar (sjá minna grafið hér fyrir ofan).


Birtar misjafnlega reglulega

Hjörvar Pétursson, sérfræðingur hjá Hagstofunni, segir Hagstofuna hafa um langt skeið skráð fjölda gistinátta á hefðbundnum gististöðum – hótelum, gistiheimilum, tjaldsvæðum og öðrum gististöðum – og birt þær ýmist mánaðarlega fyrir hótel eða árlega fyrir aðra gististaði.


„Þessar tölur byggjast á innsendum gögnum frá þeim gististöðum sem skráðir eru í gistináttagrunn Hagstofunnar. Síðan í apríl 2018 hefur Hagstofan einnig birt áætlaðar tölur um fjölda erlendra gistinátta sem eru utan hefðbundinnar gistináttatalningar og ná þær tölur aftur til upphafs ársins 2017. Fyrsti flokkurinn eru nætur í íbúðagistingu sem greitt er fyrir í gegnum vefsíður, á borð við Airbnb eða HomeAway.


Næsti flokkur eru nætur í bílum og vögnum með svefnaðstöðu þar sem ekki er gist á greiðsluskyldum tjaldsvæðum. Þriðji flokkurinn er ógreidd innigisting, til dæmis við húsaskipti eða hjá vinum eða ættingjum. Þessar áætluðu tölur fyrir óskráða gistingu byggjast á landamærarannsókn Ferðamálastofu sem hófst í júní 2017. Í henni eru í hverjum mánuði að jafnaði um 2.000 ferðamenn á heimleið um Keflavíkurflugvöll m.a. spurðir um dvalarlengd og tegund gistingar meðan á Íslandsdvöl stóð. Áætlaðar óskráðar gistinætur fyrir janúar til maí 2017 voru metnar út frá þróuninni frá fyrra ári miðað við skráðar gistinætur í sömu mánuðum. Tölur fyrir desember 2018 hafa ekki verið birtar,“ segir Hjörvar Pétursson.


Verkföll gætu skaðað orðspor


Kristófer Oliversson

Kristófer Oliversson, formaður FHG – fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, segir eigendur gististaða bíða eftir því að óvissu í ferðaþjónustu létti. „Menn bíða og horfa til verkfalla og eftir því hver niðurstaðan verður hjá WOW air. Óvissan er svo mikil. Því er hvorki hægt að leyfa sér að vera bjartsýnn né svartsýnn. Ef samið verður í þessum mánuði, og WOW air lýkur sínum málum, erum við bjartsýnir. Ef hvorugt gerist þyngist hins vegar brúnin á mönnum. Maður hugsar það ekki til enda ef skæruverkföllum verður beitt og reynt að loka fullbókuðum hótelum. Það er mikill ábyrgðarhluti. Því ef gestirnir ná að koma til landsins geta þeir aldrei komið að lokuðum hótelum. Sjálfsagt eru menn að vinna í því að gera þær ráðstafanir sem unnt er hver um sig. Það verður mikill skaði fyrir orðspor okkar og framtíðarafkomu í greininni ef allt fer á versta veg og endar í hörðum átökum,“ segir Kristófer. Hann segir aðspurður að bókunarstaðan fyrir þetta ár sé „eftir væntingum“. Á það beri að líta að bókunarstaða hótela sé oft tengd tekjustýringu, eins og verð á flugsætum. Hægt sé að fylla hótel á ódýrum bókunum og halda því fram að bókunarstaðan sé góð. Slíkt beri að skoða í samhengi. Hann segir aðspurður að áhrifin af uppstokkun WOW air séu ekki komin fram af fullum þunga hjá félaginu og þar með mögulega ekki heldur hjá hótelum. Hvað snerti CenterHotel-keðjuna sé „bókunarstaðan eðlileg miðað við árstíma“. Keðjan er með sex hótel í miðborg Reykjavíkur og með tvö í byggingu. „Eftirspurnin er fyrir hendi, þannig að við höfum engar áhyggjur af sumrinu ef engin óvænt áföll verða,“ segir Kristófer.


Frétt Morgunblaðsins 18.janúar 2019 - Höfundur Baldur Arnarson /baldura@mbl.is


Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page