Opinn félagsfundur FHG var haldinn að Hilton Nordica miðvikudaginn 11.mars kl. 16:00. Kristófer Oliversson formaður FHG fór yfir helstu þætti þeirrar stöðu sem blasir við greininni í dag og lauk lofsorði á fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í þágu bæði ferðaþjónustunnar og þjóðarbúsins. Hann tiltók sérstaklega áralangt baráttumál hótel- og gistiþjónustugeirans sem er afnám Gistináttaskattsins sem er meðal þess sem ríkisstjórnin hefur heitið og þá ekki síður langþráð alþjóðleg markaðsherferð til vitundarvakningar um áfangastaðinn Ísland.
Kristófer vék jafnframt að kjarasamningum, en í april brestur á með enn nýjum launahækkunum, en hjá mörgum fyrirtækjum á vettvangi ferðaþjónustunnar eru launin tekin að nálgast 50% af rekstrarkostnaði. Þá eru ótalin fasteignagjöldin, síhækkandi kostnaður aðfanga, afborganir lána, sölu- og markaðskostnaður og sitthvað fleira.
Sú viðleitni ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans er þakkarverð að hlutast til um að létt verði undir með ferðaþjónustufyrirtækjum og þeim skapað svigrúm til að frestunar skattaskila- og gjalda, tryggt lausafé í lánastofnunum og til að mæta því ástandi sem fall WOW, kyrrsetning MAX véla Icelandair og almennur samdráttur í greininni hefur valdið, að ekki sé minnst á Covid 19 veiruna.
Óskar Jósefsson framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála gerði góða grein fyrir þeim aðgerðum og fyrirætlunum öllum, en hann hefur unnið staðfastlega að þeim undanfarna daga í nánu samráði við ríkisstjórnina, embættismenn og fleir aðila.
Þvínæst sté í pontu Stefán Melsteð yfirlögfræðingur Tryggingamiðstöðvarinnar og fór yfir sitthvað er varðar ábyrgð tryggingarfélaga annars vegar og fyrirtækja hins vegar ef afturkallaðar eru hótelbókanir vegna veirunnar.
Ljóst má vera að skaðinn af slíkum afbókunum lendir í flestum tilfellum á hótelunum sjálfum.
Þá svaraði Guðjón Rúnarsson lögfræðingur ýmsu er lýtur að löglegu samráði ferðaþjónustufyrirtækja og ólöglegu. Niðurstaða hans var sú
að á viðsjárverðum tímum sem nú, væri svirúm fyrirtækja til samræðna og miðlunar gagnkvæmra upplýsinga almennt rýmra en ef undir eðlilegum kringumstæðum væri.
Að þessu loknu steig í pontu Pétur Geirsson hótelstjóri Hótel Borgarness og vék að óhóflegum og síhækkandi fasteignasköttum sveitarfélaga sem sáralitla eða enga þjónustu veita á móti.
Tóku ýmsir fundarmenn undir þann málflutning og sammæltust um að gera þyrfti gangskör að því endurhugsa þau mál öll og beita sér fyrir því að ríkið tryggi sveitarfélögum stærri skerf af samaeiginlegum tekjum, t.a.m. með ríflegri hlutdeild í virðisaukaskatti. Ótækt sé með öllu að sveitarfélög einblíni á Gistináttaskatt sem sitt haldreipi til að geta kennt börnum og unglingum lestur og skrift.
Hugmyndir að vígorðum fyrirhugaðrar alþjóðamarkaðsherferðar Íslandsstofu með u.þ.b. 1500 milljón króna framlagi ríkisstjórnarinnar voru reifaðar og fundarmenn sammála um að leggja skyldi í þeim efnum sérstaka áherslu á ábyrg viðbrögð yfirvalda hér við Covid 19 veirunni, öfluga heilsugæslu, hreinlæti og ekki síst að beina augum þeirra sem hugsanlega vilja koma hingað í heimsókn að víðernum okkar öllum sem flest eru opin almeningu - ólíkt flestum öðrum löndum í okkar heimshluta .
Loks voru samþykkt á félagsfundinum eftirfarandi skilaboð til Ríkislögreglustjóra, Almannavarna, Landlæknisembættisins og Ríkisstjórnar Íslands :
"Við óskum ykkur til hamingju með frábæra framgöngu í baráttunni gegn þeirri vá sem Covid 19 veiran er.Ætla má að engin þjóð geti státað af jafn öflugum viðbrögðum og raun ber vitni hérlendis.
Viðbrögð ríkisstjórnarinnar sem tilkynnt voru 10.mars sl. ber sérstaklega að lofa. Hún hefur brugðist hárrétt við með niðurfellingu Gistináttaskattsins sem ber að þakka, sem og með metnaðarfullri áætlun um öfluga alþjóðlega markaðsherferð, liðveislu við að gera bönkum landsins mögulegt að liðka fyrir rekstri í ferðaþjónustunni og sitthvað fleira.Við þökkum af heilum hug liðveislu ykkar, skörungsskap og atfylgi allt!"
Fært til bókar að afloknum félagsfundi FHG að Hótel Nordica 11.mars 2020
Comments