top of page

Það má velta upp spurningunni hvort gengið hafi verið of langt með því að loka landinu algjörlega

Updated: Sep 24, 2020



Kristófer Oliversson, formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, FHG, segir stöðuna í hótelgeiranum mjög alvarlega. Nauðsynlegt sé að endurskipuleggja skuldir hótelanna.


„Það er ekki nokkurt fyrirtæki sem stendur það af sér að vera tekjulaust misserum saman. Nú eru allir að vinna með sínum bönkum að því að fresta afborgunum og vöxtum. Það þarf að ná þeim árangri að það sé hægt að lækka vexti á fyrirtæki til að dæmið gangi upp í heildina. Þetta er enda sameiginlegt sjótjón leigusala, leigutaka og fjármagnseigenda. Þegar menn eru búnir að átta sig á því, og nálgast málið út frá þeim sjónarhóli, þá er von til þess að við förum að eygja skynsamlegar lausnir. Það þarf að endurskipuleggja lánin því vextir og afborganir safnast fljótt upp og verða háar fjárhæðir. Meðalstórt hótel sem er tekjulaust safnar fljótt upp mörg hundruð milljóna skuld í húsaleigu og tugmilljóna skuld í fasteignagjöldum,“ segir Kristófer.


Félagsmenn í FHG funduðu um stöðuna í gærmorgun. Kristófer segir að í kjölfar hertra sóttvarnaaðgerða á landamærunum, frá og með 19. ágúst, sé nær engin spurn eftir hótelgistingu á Íslandi. Fram undan sé 99% samdráttur í eftirspurn erlendra ferðamanna.


Óvissan sé mikil og ekki hægt að búast við gestum fyrr en á nýju ári. Því séu fjórir nær tekjulausir mánuðir fram undan sem sé mikið áfall.


Flest hótelin lokuð næstu mánuði

Kristófer er eigandi og framkvæmdastjóri CenterHótel-keðjunnar. Hann reiknar með að hafa eitt eða tvö Center-hótel af átta opin á næstu mánuðum. Allt kapp verði lagt á að vernda hjartað í fyrirtækjunum sem felist í sérþekkingunni.

„Menn fagna því að hlutabótaleiðin hafi verið framlengd [út október]. Það þyrfti hins vegar lengri tíma miðað við þær aðstæður sem nú eru uppi. Meginlínan er að við verðum að fá skýr skilaboð frá stjórnvöldum um við hvaða aðstæður landið verður opnað á ný. Það má velta upp þeirri spurningu hvort gengið hafi verið of langt með því að loka landinu algjörlega. Það hefði verið hægt að setja Íslendinga í skimun og sóttkví og stíga það hóflega skref að skima alla ferðamenn einu sinni, jafnvel tvisvar, í staðinn fyrir að loka landinu,“ segir Kristófer. Með því að loka landinu fari mikil markaðssetning forgörðum. Mikil vinna hafi farið í að auglýsa landið eftir að alþjóðaflugið hófst á ný en bókanir þurrkast út.


Ráðherra bauð fólk velkomið

„Samstarfsaðilar okkar erlendis fjárfesta líka í markaðsherferðum. Nú er sú fjárfesting farin fyrir gýg. Stóra málið gagnvart okkar viðskiptavinum er að við misstum trúverðugleikann sem við höfðum haft. Það er ekki langt síðan Katrín [Jakobsdóttir forsætisráðherra] sagði landið opið og bauð alla velkomna.“ Skv. Hagstofunni störfuðu um 5.600 manns á gististöðum í janúar. Nýrri tölur hafa ekki verið birtar. Kristófer telur aðspurður að um tíundi hver haldi vinnunni. Samkvæmt því verða ríflega 5000 hótelstarfsmenn án atvinnu í haust.


Grein: Morgunblaðið 28.ágúst 2020 / Baldur Arnarson - baldura@mbl.is

Comments


Commenting has been turned off.

Hafðu samband

Fyrir nánari upplýsingar um aðild að FHG

Bankaupplýsingar:
0515-26-680918 

Kennitala: 

680918-0150

Fylgdu okkur á 

  • Facebook Social Icon
bottom of page