„Við höfum svo sem vitað að afkoman væri ekki mjög góð í greininni. Þetta styður það,“ segir Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri í samtali við mbl.is. Á fundi Ferðamálastofu og KPMG í morgun kynnti Alexander G. Eðvarðsson meðeigandi hjá KPMG niðurstöður könnunar sinnar á afkomu í ferðaþjónustu og ljóst er að hún fer versnandi á milli ára.
Það sem helst vakti athygli í kynningu Alexanders var bág staða í hótelrekstri í landsbyggðunum. „Það eru ýmsar tölur í þessu sem eru mjög áhugaverðar, eins og hvað launakostnaðurinn er orðinn stórt hlutfall hjá fyrirtækjunum úti á landi,“ segir Skarphéðinn og bætir við að í „öllum almennum rekstrarfræðum“ sé það svo að þegar staðan sé sú hjá fyrirtækjum af þessari tegund að launakostnaður sé orðinn um og yfir 50% sé reksturinn ekki sjálfbær til lengri tíma.
„Það verða allir sem að því koma að kanna það hvort eitthvað sé hægt að gera til þess að styrkja rekstur þessara fyrirtækja, því hann heldur alveg örugglega ekki áfram svona,“ segir Skarphéðinn.
Könnun Alexanders á afkomu í ferðaþjónustunni tók til hótela, bílaleiga og hópbílafyrirtækja og byggir á afkomugögnum frá fyrirtækjunum sjálfum. Hagnaður hefur víða minnkað eða snúist í tap og niðurstaða Alexanders er sú að fyrirtækjum í ferðaþjónustu hafi ekki tekist að koma innlendum kostnaðarhækkunum inn í verð þeirrar þjónustu sem þau eru að selja í erlendum gjaldmiðlum.
Ferðamálastjóri segir að ýmislegt hafi verið í gangi til þess að styrkja ferðaþjónustu í landsbyggðunum og að þar séu áfangastaðaáætlanir landshlutanna veigamiklar, en þær miða að því að gera áfangastaðina úti á landi klárari í að taka á móti ferðamönnum.
„Svo hafa fyrirtæki verið að stækka og eflast úti á landi og það eru fleiri og fleiri fyrirtæki þar. Það er líka búið að vera að byggja upp ferðamannastaði, svo það er ýmislegt sem búið er að gera til að styrkja ferðaþjónustu úti á landi. En það þarf að gera meira og það er alveg klárt að ef ekkert breytist, þá verða kannski ekki mörg fyrirtæki úti á landi til að taka á móti þessum ferðamönnum sem við erum að reyna að koma þangað,“ segir Skarphéðinn.
Aðspurður hvort hann telji „sársaukafullt tímabil“ vera að fara í hönd í ferðaþjónustu í landsbyggðunum segir Skarphéðinn að svo þurfi ekki endilega að vera, heldur felist tækifæri í að takast á við þessa stöðu.
Sóknarfæri í betri dreifingu
„Ég held að ef það haldi áfram svona, að það séu fyrst og fremst fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu sem að hafi eitthvað upp úr þessu, þá held ég að það verði ekki gæfuleg ferðaþjónusta í landinu til lengri tíma, því að ferðaþjónustan á höfuðborgarsvæðinu þarf á ferðaþjónustunni úti á landi að halda, til þess að það sé jafnvægi í þessu. Langstærsti hluti ferðamanna sem hingað koma eru komnir til að njóta náttúrunnar. Hún er sýnilegust úti á landi, ekki hérna á höfuðborgarsvæðinu, og þess vegna er eðlilegt að það þurfi að vera uppbygging úti á landi til þess að taka við því.“
Skarphéðinn segir að Íslendingar verði að „ná betur áttum með þessa atvinnugrein og ná meiri stöðugleika“ og vinna að því að ávinningurinn dreifist betur um landið. „Það eru sóknarfæri í því,“ bætir hann við.
„Þegar við erum búin að ná utan um aðgangsstýringar og fleira þá held ég að landið geti tekið við talsvert fleiri ferðamönnum. En það þarf að dreifa þeim betur, bæði á [árs]tíma og um landið.“
Sjá frétt á mbl.is/vidskipti
コメント