top of page

Vilja lægri bankaskatta og bankasölu

Updated: Sep 24, 2020

Í nýrri hvítbók um fjármálakerfið er lagt til að sérstakir skattar á banka verði lækkaðir og ríkið selji hlut í bönkunum.



Starfshópur sem skilaði í dag hvítbók um fjármálakerfið leggur til að sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki verði lækkaðir. Með því móti megi draga úr vaxtamun bankanna. Þá er einnig lagt til að aukið samstarf verði heimilað um rekstur fjármálainnviða til að draga úr rekstrarkostnaði.


Í hvítbókinni sem er hátt í 300 blaðsíður, er lagt til að ríkið dragi úr eignarhaldi sínu á bönkunum. Bent er á að ríkissjóður hafi bundið um 300 milljarða króna í eigin fé í bönkunum sem nota mætti til annarra þarfa og feli í sér áhættu fari illa í bankarekstrinum en ríkissjóður á Íslandsbanka og Landsbankann. Í aðdraganda sölu bankanna sé ástæða til að setja í forgang lækkun sértækra skatta. Þá sé mikilvægt að stjórnvöld hugsi heildstætt um framtíðareignarhald þar sem fjölbreytt eignarhald sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu.


Einnig er bent á að töluverðar breytingar hafi verið gerðar á regluverki í fjármálageiranum hér á landi á síðustu árum. Þá hafi verulega dregið úr áhættu í íslenska bankakerfinu. „Bankar eru betur í stakk búnir að takast á við áföll, eftirlit er sterkara og viðbragðsáætlun hefur verið mótuð," er bent á.


Starfshópurinn leggur áherslu á að ákvörðun verði tekin um að draga varnarlínu vegna fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka og að komið verði á fót miðlægum skuldagrunni sem nýttist stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum við að afla betri upplýsinga um skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Einnig er bent á að virk samkeppni og öflugt aðhald viðskiptavina sé lykilforsenda þess að hagræðing skili sér til neytenda og lítilla fyrirtækja. Þessir þættir séu mikilvægir til þess að traust byggist upp að nýju á íslenska fjármálakerfinu.


Einnig er bent á að munur sé á vaxtastigi og vaxtamun. Háir útlánavextir endurspegla að nokkru leyti háa stýrivexti sem eru hluti af ytra umhverfi bankanna en skilvirkni í bankarekstri í vaxtamun og þjónustugjöldum.


Í skýrslunni kemur fram að smæð markaðarins, háir skattar og töluvert miklar eiginfjárkröfur valdi álagi sem hefur verið nefnt „Íslandsálag“. Markaðinn sé erfitt að stækka án aukinnar áhættu eða með því að breyta gjaldmiðilsfyrirkomulagi og eiginfjárkröfur ráðist af mati á ýmiskonar áhættu. Því sé erfitt að draga úr þeim kostnaði til skamms tíma litið. Hins vegar sé hægt að draga úr rekstrarkostnaði með auknu samstarfi um rekstur fjármálainnviða og lækkun sértækra skatta. Slíkar aðgerðir séu í höndum stjórnvalda og bankanna sjálfra en virk samkeppni og neytendavernd auki líkur á að ábati hagræðingar skili sér til neytenda.


Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og hæstaréttarlögmaður er formaður hópsins, en auk hans sitja í honum Guðrún Ögmundsdóttir, forstöðumaður á fjármálastöðugleikasviði Seðlabanka Íslands, Guðjón Rúnarsson, lögmaður og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja og Kristrún Tinna Gunnarsdóttir, hagfræðingur hjá Oliver Wyman í Svíþjóð. Sylvía K. Ólafsdóttir, forstöðumaður hjá Icelandair, var einnig skipuð í hópinn og starfaði með honum fram á haust.


Sjá frétt á www.vb.is/frettir/


Reykjavík 10.desember 2018

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page