Í kjölfar Covid19 faraldursins blasti snemma við að ástandið í íslenskri ferðaþjónustu væri óviðráðanlegt, m.a. sökum algjörs tekjuhruns.
FHG afréð snemma að leita atfylgis Sigurðar G. Guðjónssonar lögmanns við að greina stöðuna. Úr varð að ákveðið var að óska eftir sérstöku lögfræðiáliti Viðars Más Matthíassonar fv. hæstaréttardómara.
Niðurstaða þess lögfræðiálits var afgerandi: Lömunaráhrif Covid19 faraldursins á ferðaþjónustuna hlýtur að verða að flokka sem Force majeure eða óviðráðanlegar aðstæður þar sem lokun landsins og tekjuhrun hótela og fleiri aðila veldur algjörum forsendubresti, m.a. gagnvart kröfuhöfum. Álitgerð Viðars Más má finna neðst hér á síðunni.
Það felur t.a.m. í sér að viðvarandi tekjuhrun af ferðaþjónustu muni í tilfelli hótela og gistiþjónustu ekki bitna einungis á rekstraraðilum og eigendum hótelanna, heldur þurfi aðrir er hafa hagsmuna að gæta s.s. fasteignaeigendur, fjármálastofnanir og aðrir kröfuhafar einnig að axla byrðar af völdum hins fordæmalausa ástands.
FHG kom lögfræðiálitinu tafarlaust í hendur ríkisstjórnarinnar sem hóf þegar í stað vinnu við lagafrumvarp er miðar að því að koma hlutaðeigandi fyrirtækjum, m.a. hótelum og gistihúsum, í skjól – tímabundið „frost“ - þar til ferðaþjónustan tekur við sér að nýju og tekjuflæði hefst aftur að einhverju marki.
Umrætt frumvarp hefur verið í smíðum á vettvangi Dómsmálaráðuneytisins í samstarfi við nokkur önnur ráðuneyti og er gert ráð fyrir að annarri umræðu um það ljúki á allra næstu dögum á Alþingi í kjölfar umfjöllunar Allsherjarnefndar. Þá tekur við þriðja umræða sem alla jafna er fremur stutt og síðan verður gengið til atkvæða. Ríkir bjartsýni um að það megi verða fyrir lok fyrstu viku júnímánaðar.
FHG hefur síðan kallað eftir viðbrögðum og jafnvel lagasetningu er lúti að því að ferðaþjónustufyrirtækjum og lykilinnviðum hennar á borð við hótel og gistihús nái að halda velli að „frostinu“ afstöðnu. Ekki dugir að leysa vanda þessara aðila eingöngu með skuldasöfnun. Inn í jöfnuna þarf líka að taka vanda fjármagnseigenda því vandinn færist upp alla keðjuna. Þá vinnu þarf að vinna á vettvangi fjármálaráðuneytisins.
Ljúka ber lofsorði á augljósan og einbeittan vilja stjórnvalda til að styðja við ferðaþjónustuna með ráðum og dáð, svo innviðir hennar haldist svo sterkir sem verða má þegar hingað taka að streyma ferðamenn að nýja. Ferðaþjónustan hefur jú á örfáum árum orðið tekjuhæsta og gjöfulasta grein atvinnulífs á Íslandi og því mikið í húfi, bæði fyrir greinina sjálf og þjóðarbúið allt.
Comments