Um FHG
Fyrirtæki í Hótel- og Gistiþjónustu
Sagan
Það er hverri starfsgrein nauðsyn að stunda virka hagsmunagæslu, m.a. gagnvart löggjafarvaldinu, samkeppniyfirvöldum og eftirlitsaðilum.
Veitinga- og gistiþjónustufyrirtæki landsins stofnuðu fyrst slík samtök árið 1944. Þau nefndust Samband veitinga- og gistihúsaeigenda, skammstafað SVG. Nafninu var síðan breytt í Samtök veitinga- og gistihúsa eftir því sem fyrirtækjunum óx fiskur um hrygg og einyrkjum fækkaði.
Þetta voru hin blómlegustu samtök og störfuðu af miklum krafti í hagsmunagæslu og samskiptum á vinnumarkaði. Ekki var á þeim tíma neitt annað slíkt félag á landinu innan ferðaþjónustunnar.
Eftir því sem sú grein stækkaði og efldist kom fram ákveðinn þrýstingur um að komið yrði á fót heildarsamtökum fyrirtækja í ferðaþjónustu.
Niðurstaðan var sú að stækka SVG, opna það fyrir öllum ferðaþjónustufyrirækjum og breyta nafninu í Samtök aðila í ferðaþjónustu, SAF. Þetta gekk eftir þann 11. nóvember 1998.
Reyndist þetta mikið framfaraspor og styrkti ferðaþjónstu á Íslandi sem heild. Samtakamátturinn hefur oft sýnt sig síðan í hinum ýmsu málum sem upp hafa komið og varða fleiri en einn þátt greinarinnar.
Það var hins vegar ljóst áður en til stækkunar SVG kom og formbreytingarinnar yfir í SAF, að hætta kynni að vera á hagsmunaárekstrum milli einstakra greina. Til að mynda fara hagsmunir gististaða og bílaleiga eða hópferðabifreiðarekenda ekki alltaf saman. Því var brugðið á það ráð að mynda svonefndar fagnefndir innar SAF til að gæta hagsmuna ólíkra sviða greinarinnar.
Þetta fyrirkomulag hefur mestan part gengið þokkalega, en það er mat stofnenda FHG að nauðsynlegt sé að styrkja frekar rödd fyrirtækja í hótel og gististaðaþjónustu með því að taka sérstaklega saman höndum um tiltekna hagsmuni og starfsumhverfi greinarinnar, m.a. þetta :
-
Leyfisveitingar og eftirlit með því að leyfi séu til staðar
-
Heimagistingu, framkvæmd, eftirlit og tekjuskráningu
-
Gistináttaskatt
-
Samkeppnisumhverfi
-
Gæðamál
-
Lagaramma og regluverk
FHG mun beita sér fyrir þessum áherslum og öðrum, líkt og sambærileg hagsmunasamtök gera sem starfa á ólíkum sviðum ferðaþjónustunnar.
Tilgangur
Það er tilgangur þeirra samtakta sem hér er stofnað til að vinna að ofangreindum þáttum þannig að allir séu við sama borð og stefni í sömu átt. Ljóst er að gististaðir eru margskonar og hagsmunir kunna að vera breytilegir, en allir ættu að geta verið sammála um að það regluverk og starfsumhverfi sem greininni er búið þurfi að vera þannig úr garði gert að það sé gegnsætt, eftirlit skilvirkt og að allir skili sínu til samfélagsins.
Markmið
Félag fyrirtækja í hótel og gistiþjónustu, skammstafað FHG, var stofnað á fjölmennum stofnfundi 30.ágúst 2018. Markmiðum sínum hyggst félagið ná með virkri umræðuvöktun, opnum skoðanaskiptum og reglubundnum fundarhöldum. Til að svo megi verða er m.a. þessi heimasíða sett upp, svo dreifa megi upplýsingum með sem auðveldustum hætti og koma skoðanaskiptum og fréttum á framfæri.
Það er af nógu að taka. Aðilar í hótel- og gistiþjónustu hafa löngum mátt sitja undir ýmiss konar rangfærslum og afbökunum. Slíku ber að bregðast við af fullum krafti.Þess er vænst að sá hluti heimasíðunnar sem nefnist “Fréttir og greinar” verði sem virkastur og að félagsmenn verði ófeimnir við að benda á efni til að greina og fjalla um. Þá eru félagar hvattir til að senda sjálfir inn greinar til birtingar.