top of page

FHG á ferð og flugi

Updated: Sep 24, 2020

Vesturland var áfangastaður forsvarsmanna FHG fimmtudaginn 18.júlí 2019.

Gott hljóð var í rekstraraðilum í hótel- og gistiþjónustu á svæðinu.


Að aflokinni yfirreið og stuttum heimsóknum á nokkur hótel og gistihús, blésu þeir Kristófer Oliversson stjórnarformaður FHG og Jakob Frímann Magnússon ritari stjórnar til fundar á Hótel Fransiskus þar sem farið var yfir stöðuna og starfsemi FHG kynnt.

Sóknarfærin virðast brosa við Vestlendingum og Snæfellingum í ferðaþjónustunni. Aðildarfélögum FHG fjölgaði umtalsvert eftir umræddan leiðangur og er það vel.


Meðfylgjandi eru nokkrar myndir úr leiðangri þeirra félaga.


Gestgjafinn Margrét Rósa Einarsdóttir í Englendingavík tók vel á móti þeim kumpánum, en auk veitinga- og gistiþjónustu er gestum Englendingavíkur boðið að skoða Leikfangasafn Soffíu, eitt af djásnum staðarins, en þar getur að líta fjölmörg áhugaverð barnaleikföng og brúður frá fyrri tíð.


Þá var áð að B59 hinu nýja glæsihóteli Snorra Hjartarsonar og fjölskyldu hans, þar sem staðarhaldarinn Hendrik Hermannsson kynnti fjölþætta starfsemi sem m.a. inniber veitingarekstur, viðburðahald, heilsulind og gistiþjónustu.


Þá getur hér einnig að líta myndir af staðarhaldaranum Þorkatli Símonarsyni, Kela, að Langaholti, staðarhaldaranum Sigrúnu Erlu Eyjólfsdóttur að Hótel Rjúkandi við Vegamót, staðarhaldaranum Berglindi Arnardóttur að Hótel Búðum auk mynda af ýmsum áhugaverðum áfangastöðum öðrum.


Kíkt á Leikfangasafn Soffíu í Englendingavík. Aðalritari FHG hér við hlið hinnar ástsælu forstöðukonu Iðnó til áratuga, frú Margrétar Rósu Einarsdóttur, nú staðarhaldara að Englendingavík í Borgarnesi og að Hótel Glym í Hvalfirði.

Útsýnið í Englendingavík er engu líkt. Það minnir helst á Flatey á góðum degi.

B59, hið nýja glæsihótel Borgnesinga - hér með blaktandi fánum.

Geðþekkt starfsfólk einkennir B59 og reyndar íslenska ferðaþjónustu almennt.Hótelstjórinn Keli, í senn vígalegur og vinalegur í anddyri Langaholts á Snæfellsnesi.

Hér fara tónlistarmaður, hótelstjóri, hugsjónamaður, viðburðahaldari og félagsmálaforkólfur í einum og sama manninum.

Berglind Arnardóttir hin fríska og gjörvulega hótelstýra Hótel Búða heilsar og kveður með virktum. Þar var tekið á móti ferðalöngum FHG með lostagóðri humarsúpu og ljúfu fiskmeti öðru auk gómsætra eftirrétta.

Anddyri Hótel Búða er einkar glæsilegt, nú sem fyrr.

Hótelstýran á Hótel Rjúkandi við Vegamót á Snæfellsnesi er Sigrún Erla Eyjólfsdóttir. Einkunnin 9.2 á Booking.com segir allt sem segja þarf um þetta fallega fjölskyldufyrirtæki.


Allt í blóma hjá Hótel Rjúkandi

Arnarstapi skartar veitingahúsinu Arnarbæ sem er í eigu Sverris Hermannssonar athafnaskálds og hótelstjóra, líkt og hið nýlega Hótel Arnarstapi handan götunnar, sem einnig býður upp á fyrirtaks veitingar og gistiþjónustu,

Mæðgur frá Shanghai í Kína njóta blíðunnar við Hótel Arnarstapa að aflokinni vel heppnaðri fiskmáltíð.

Fosshótelið Hellnar er stórglæsilegt, nú sem fyrr, er sómahjónin og frumkvöðlarnir Guðrún og Guðlaugur Bergmann reistu það og ráku undir heitinu Brekkubær.

North Star á Rifi er glæsilegt á að líta.

Hótel Hellissandur er 20 herbergja nútímalegt hótel sem Skúli Alexandersson alþingis- og athafnamaður reisti ásamt fleirum á sínum tíma.

Welcome Apartments á Ólafsvík er meðal þeirra gistihúsa sem Welcome hótelkeðja Stefáns Aðalsteinssonar og fjölskyldu hans rekur víðsvegar um landið.

Welcome keðjan rekur einnig North Star á Rifi, Hótel Hellissand og North Star hótelið á Ólafsvík sem hér getur að líta.

Hótel Egilsen á Stykkishólmi er með glæsilegustu og sögufrægustu húsum á Stykkishólmi.

Líkt og Hótel Egilsen býr Sýsló Guesthouse á Stykkishólmi yfir mikilli og merkri sögu. Hótel Búðir og Ion Hótelin tilheyra hótelkeðjunni Gistiveri. Umsýslumaður hótela Gistivers á Snæfellsnesi er Arnór Hreiðarsson.Víkur nú sögu að frostavetrinum mikla 1918 og spænsku veikinni sem þá felldi margan mætan Íslendinginn. Lúðrasveit Stykkishólms gekkst það ár fyrir söfnunarátaki með hljómleikahaldi með það fyrir augum að reisa spítala.

Nokkrum árum síðar komu fram hugmyndir um að fá kaþólskar nunnur til landsins til að reka slíkan spítala á Stykkishólmi og víðar. Borfirðingar og Eyrbekkingar vildu ólmir fá slíkar nunnur til sín og buðu Eyrbekkingar m.a. fram spítalahúsnæði sitt að Litla Hrauni þar sem nú er rekið sem fangelsi.

Úr varð að níu nunnur komu til Stykkishólms árið 1935, m.a. frá Belgíu, Hollandi, Frakklandi og Póllandi og sömdu við bæjaryfirvöld um ákveðinn sjúkrasjóð, niðurfellingu af byggingargjöldum o.fl.

Urðu þær frumkvöðlar í velferðarmálum á staðnum m.a. með stofnun sjúkrahússins, leikskóla o.fl. og voru allt að 16 nunnur starfandi á Stykkishólmi á hverjum tíma.


Lokaáfanga yfirreiðar preláta FHG reglunnar, Sankti Kristófers Oliverssonar og Síra Jakobs Frímanns Magnússonar, var náð á Hótel Fransiskus, áður spítala Fransiskusar reglunnar, sem sendi níu sprækar nunnur til Íslands árið 1935 að frumkvæði Páls Vídalín sýslumanns.

Sankti Kristófer flytur fagnaðarerindi sitt yfir sóknarbörnum á kvöldfundi FHG að Hótel Fransiskus í Stykkishólmi.

Þó Unnur Steinsson sé óumdeild hótelstýra að Hótel Fransiskus, þjóna aðrir fyrir altari í hinni gullfallegu kapellu hótelsins. Hér er krossi brugðið á loft af bænheitum kaþólskum klerki og blessun meðtekin af heimamönnum og hótelgestum í senn.

Amen á eftir efninu.


コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page