top of page

Með hækkandi sól

Updated: Jul 15, 2022


Það er ólíkt betra hljóðið í ferðaþjónustuaðilum nú á miðju sumri 2021 en fyrir ári síðan. Þá var landið alfarið lokað erlendum gestum, nú eru þeir farnir að streyma til landsins á ný þótt enn sé langur vegur ófarinn að ná upp þeim fjölda ferðamanna sem sóttu Ísland heim fyrir heimsfaraldur. Við bætist mikil ásókn Íslendinga í gistingu og afþreyingu um hásumarið, sem skiptir máli fyrir alla ferðaþjónustu á landsbyggðinni.

Í hagsjá Landsbankans frá 22. júní sl. er birt þróun fjölda gistinótta á Íslandi frá aldamótum út síðasta ár (sjá mynd hér að neðan). Þar sést að gistinóttum fækkaði úr rúmum 8000 ári 2019 í 3000 árið 2020. Hlutfall Íslendinga í heildarfjölda gistinótta jókst úr rúmum 10% 2019 í tæpan helming 2020, sem er skiljanlegt þar sem landið var að mestu lokað komu erlendra aðila stóran hluta ársins. Gistinóttum Íslendinga fjölgaði lítillega á milli þessara ára vegna aukinna ferðalaga Íslendinga innanlands síðasta sumar.Þrátt fyrir að horfur séu nú betri með þróun fjölda ferðamanna til landsins en bara fyrir fáum mánuðum síðan, er ljóst að enn eru ljón á vegi rekstraraðila í ferðaþjónustu að ná vopnum sínum á ný. Tekjur af erlendum ferðamönnum lágu nærri að vera 80% af heildartekjum ferðaþjónustufyrirtækja árlega á tímabilinu 2017 – 2019 þegar heildartekjur námu um og yfir 600 milljörðum króna á ári. Heildartekjurnar féllu hins vegar niður í 200 milljarða króna árið 2020 og af þeim nam hlutur Íslendinga rúmum helmingi. Það mun taka tíma að styrkja tekjugrunn ferðaþjónustuaðila á ný. Á sama tíma hefur hlaðist upp snjóhengja uppsafnaðra skulda hjá þessum fyrirtækjum frá því að loknanir vegna heimsfaraldursins skullu á. Sú snjóhengja er enn að stækka þar sem núverandi tekjur standa ekki undir fullum afborgunum skulda. FHG hafa ítrekað vísað til álitsgerðar prófessors Viðars Más Matthíassonar og kallað eftir því að tjóni vegna heimsfaraldurs verði skipt á milli aðila. Í tilviki hótelrekstrar sé eðlilegt að skipta tjóni milli leigutaka, leigusala og lánveitenda/fjármagnseigenda. Nú er hinn svokallaði Fosshótelsdómur í áfrýjunarferli hjá Hæstarétti, en héraðsdómur hafði komist að þeirri niðurstöðu að leigutaki og leigusali ættu að skipta tjóninu jafnt sín á milli. Þeim dómi voru gerð góð skil á félagsfundi FHG í mars, sjá umfjöllun hér. Ljóst er að dómur Hæstaréttar í því máli getrur orðið stefnumarkandi í þessum efnum.

Borið hefur á því að sumt forystufólk verkalýðshreyfingarinnar hafi gagnrýnt ferðaþjónustuna fyrir lág laun og jafnvel launastuld. Í síðara tilvikinu er þá verið að vísa til þess þegar rekstraraðilar verða gjalddþrota og ábyrgðarsjóður launa þarf að mæta skuldbindingum vegna ógreiddra launa. Orðum fylgir ábyrgð. Það er skaðlegt ef heil atvinnugrein er svert vegna framkomu fárra. Almennt eru rekstraraðilar í þessari grein eins og öðrum að gera sitt besta til að styðja við framtíð sinna fyrirtækja og þar með starfsmanna, þótt aldrei fyrr hafi ágjöfin verið jafn mikil og á covid tímum. Laun í gistiþjónustu á Íslandi eru með því hæsta sem þekkist samanborið við nágrannaríkin, hlutfall launakostnaðar af heildarrekstrarkostnaði endurspeglar það. FHG vilja eiga gott samtal við verkalýðsfélögin um stöðu greinarinnar. Samtal er fallið til að auka skilning beggja megin borðs og skerpa fókus á það sem betur má fara


Heimsókn frá Isavia

Grétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isvaia, var gestur stjórnarfundar FHG 25. júní síðastliðinn. Hann fór yfir stöðuna hvað varðar flug til og frá landinu á næstunni, hvernig Isvaia hefði brugðist við áskorunun tengdum heimsfaraldrinum og hvaða framkvæmdir væru í farvegi til að bæta aðstöðu í Leifsstöð. Nánari umfjöllun um yfirferð Grétars og glærurnar hans er að finna hér:

Isavia glærur á fundi FHG 25.6.21
.pdf
Download PDF • 1.27MB

.

Aðalfundur FHG

Aðalfundur FHG 2021 var haldinn 20. maí á CenterHotels Grandi í Héðinshúsi. Fundarstjóri var kjörinn Guðjón Rúnarsson lögmaður og fundarritari Jakob Frímann Magnússon úr stjórn FHG. Formaður FHG rakti í skýrslu stjórnar stóru málin á starfsárinu og Bjarki Júlíusson gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins. Á fundinum var stjórn FHG endurkjörin, en í henni sitja eftirfarandi:


Árni Sólonsson Capital Hotels, Bjarki Júlíusson Room with a view, Gyða Árný Helgadóttir Hótel Vos, Geir Gígja Hótel Cabin, Hjörtur Valgeirsson Íslandshótel, Kristófer Oliversson CenterHotels, Jakob Frímann Magnússon Six Senses, Páll Sigurjónsson KEA Hotels, Ragnar Bogason Hótel Selfoss, Steinþór Jónsson Hótel Keflavík, Tryggvi Guðmundsson Icelandair Hotels, Unnur Steinsson Hótel Fransiskus, Þráinn Lárusson 701 Hotels og Örn Andrésson Hótel Búðir/ION.


Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum bauð Kristófer Oliversson formaður FHG Ásmund Einar Daðason barna- og félagsmálaráðherra velkominn á fundinn. Kristófer rakti helstu áherslumál samtakanna, skekkjur í rekstrarumhverfi, svarta starfsemi tengda gistiþjónustu og mikilvægi sanngjarns skattaumhverfis. Ráðherra þakkaði formanni sitt innlegg og sagði þar upplýsingar sem væru áhugaverðar fyrir pólitíkina. Því næst fjallaði hann um úrræði stjórnvalda fyrir fyrirtæki landsins gegnum heimsfaraldurinn, s.s. hlutabótaleið og ráðningarstyrki. Hann þakkaði FHG fyrir þeirra þátt í að hjálpa við að slípa úrræðin og sagði mikilvægt að eiga gott samtal áfram milli aðila. Eftir framsögu ráðherra átti sér stað gott samtal milli ráðherra og félagsmanna FHG um mál sem brunnu á fundarmönnum.


Stjórnarfundur með ferðamálaráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir ferðamálaráðherra sat fund stjórnar FHG þann 15. apríl sl. Formaður FHG bauð ráðherra velkominn og rakti megináherslur samtakanna, m.a. ójafna samkeppni við heimagistingu og hótelskip. Hann þakkaði jafnframt mikilvægi úrræða stjórnvalda fyrir atvinnulífið, þ.á.m. ferðaþjónustuna, sem hafi gert flestum fyrirtækjunum kleift að komast gegnum tekjuleysið sem heimsfaraldurinn olli. Ráðherra þakkaði jákvæð viðbrögð geirans við björgunaraðgerðum stjórnvalda og sagði stefnt að framlengingu á mikilvægustu úrræðunum. Þá fjallaði ráðherra um bólusetningaráætlun stjórnvalda og áætlun um afnám hafta. Varðandi heimagistingu sagði ráðherra áherslu núverandi ríkisstjórnar hafa verið á aukið eftirlit en ljóst að enn betur mætti gera í þeim efnum. Í samtali stjórnar og ráðherra í kjölfarið lögðu stjórnarmenn áherslu á mikilvægi þess að ríkisborgurum frá Schengensvæðinu, Bretlandi og Bandaríkjunum yrði tryggður aðgangur að Íslandi svo fljótt sem verða mætti. Þá var rætt um snjóhengju íslenskra ferðaþjónustufyrirtækja í kjölfar covid19 og spurt hvað stjórnvöld hyggðust gera til að mæta þeim vanda, mikilvægi þess að auðvelda aðgengi ferðafólks að gosinu, einföldun regluverks o.fl. Ráðherra nefndi tilteknar breytingar fyrirhugaðar til einföldunar regluverks og lækkunar leyfisgjalda. Loks lögðu fundarmenn áherslu á mikilvægi þess að Ferðagjöfin yrði áfram í boði 2021.


Aðild að FHG

Aðildarfélög FHG má finna á heimasíðunni - sjá hér.

Samtakamátturinn er mikilvægur og hver félagsmaður telur. Sótt er um aðild á heimasíðu FHG, sjá hér.


コメント


コメント機能がオフになっています。
bottom of page