FHG og Samtök ferðaþjónustunnar sendu þann 7. október síðastliðinn Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu erindi með beiðni um niðurfellingu fasteignagjalda, til að atvinnurekendur sem reka ferðaþjónustufyrirtæki hafi möguleika á að leiða viðspyrnuna sem efnahagslífið mun þarfnast þegar samfélagið færist í eðlilegra horf. Í erindinu er vísað til þess að til að tekjulaus ferðaþjónustufyrirtæki geti staðið af sér núverandi ástand þurfi fastakostnaður að minnka. Fasteignagjöld vega þungt þar hjá mörgum í ferðaþjónustu, ekki síst í hótel- og gistiþjónustu.
Jafnframt kemur fram í erindinu að ef niðurfelling fasteignagjalda teljist of kostnaðarsöm fyrir sveitarfélög landsins sé mikilvægt að veita sveitarfélögum heimild til að fresta greiðslu fasteignaskatts til langs tíma. Nánar er lagt til að sveitarfélög geti veitt atvinnurekendum heimild til að fresta greiðslu fasteignagjalda sem stofnað er til á árunum 2020 til 2022, til allt að tíu ára. Slíkur samingur geti verið í formi skuldabréfs, sem yrði tryggt með lögveði í fasteign þeirri sem fasteignaskatturinn fylgir. Önnur útfærsla á frestun sem nefnd er í erindinu felst í því að fresta fasteignaskattinum á árinu 2020 til 2022 til lengri tíma, t.d. að hann myndi leggjast á fasteignagjöld á löngum tíma 2023 til 2028, og sveitarfélögum væri tryggt lögveð fyrir greiðslunni út þann tíma.
Sama erindi var sent öðrum landshlutasamtökum sveitarfélaga þann 13. október.
Erindi FHG og SAF má sjá hér að neðan.
Comments