top of page

Í deiglunni hjá FHG

Updated: Sep 24, 2020


LEIÐARI FORMANNS - HEILBRIGT REKSTRARUMHVERFI

Kristófer Oliversson, formaður FHG

Í öllum löndum sem við berum okkur saman við starfa öflug hagsmunasamtök hótel- og gistihúsarekenda. Svo var einnig hér á landi þar til SVG - Samtök veitinga og gistihúsaeigenda runnu inn í SAF, sem eru regnhlífarsamtök okkar allra í ferðaþjónustunni hér á landi. Þrátt fyrir að margt hafi áunnist hefur hótelgeirinn hér farið nokkuð halloka ef horft er til þess að nú hefur skuggahagkerfið stjórnlaust tekið yfir umtalsverðan hluta gistiþjónustunnar. 


Á sama tíma hafa verið búnir til og stórhækkaðir sértækir skattar, s.s.gistináttaskattur sem aðeins leggst á löglega gististarfsemi, en eðli málsins samkvæmt kemst skuggahagkerfið undan sköttum og skyldum. Samhliða þessu virðist ekkert lát vera á hækkun fasteignagjalda og spurnir eru af því að uppi séu uppi áform um enn frekari hækkanir sem eingöngu er beint að hótelbyggingum. Það þarf því ekki að koma á óvart að upp úr þessu umhverfi hafi orðið til ný hagsmunasamtök, FHG - Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu, en þau voru stofnuð á fjölmennum fundi á Grand hóteli, 30. ágúst sl. eftir langt undirbúningsstarf. Markmið samtakanna er að stuðla að því að atvinnugreinin búi ávallt við heilbrigt rekstrarumhverfi. Ekki hefur farið framhjá neinum að undanfarin ár hafa einkennst af miklum vexti í ferðaþjónustinni og tekist hefur að bæta nýtingu hótelfasteigna verulega yfir vetrartímann, einkum á suðvesturhorninu. Nú virðist meira jafnvægi vera að koma á markaðinni og jafnvel farið að slá í bakseglin á ýmsum svæðum landsins. Það er vilji FHG að nýta þetta andrými til tiltektar í rekstrarumhverfi greinarinnar og laga það sem miður hefur farið ásamt því að hlúa að því sem vel hefur verið gert. Með þetta fyrir augum mun félagið á næstunni leita eftir góðri  samvinnu við yfirvöld, hagsmunaaðila og helstu stofnanir sem fara með málefni okkar í FHG.



VERKEFNI STJÓRNAR

Stjórn FHG. Á myndina vantar Unni Steinsson.

Á aðalfundinum 30.ágúst voru eftirtaldir kjörnir í stjórn FHG:

Árni Sólonsson, Capitalhotels Bjarki Júlíusson, Room with a view Geir Gígja, Hótel Cabin Gyða Árný Helgadóttir, Hótel Vos Kristófer Oliversson, CenterHotels  Ragnar Bogason, Hótel Selfoss Steinþór Jónsson, Hótel Keflavík Unnur Steinsson, Hótel Fransiskus Þráinn Lárusson, 701 Hotels 

Strax að loknum aðalfundi skipti stjórnin með sér verkum og kaus Kristófer Oliversson formann og Gyðu Árný Helgadóttur varaformann.  Þá fékk stjórn Pétur Snæbjörnsson til að ýta starfseminni úr vör og sinna daglegum rekstri samtakanna.

Stjórn FHG fundaði næst þann 18.september.  Á fundinum var farið yfir gang mála og reifuð helstu verkefni sem eru framundan hjá okkur.  Ákveðið var að búa til starfshópa um ákveðin málefni til að skerpa áherslur á þeim og undirbúa félagsfundi um þau efni.  Eftirtaldir hópar voru settir af stað: Til að skoða leyfamálin, lagaumhverfi og skipulagsmál almennt voru valin, Geir Gígja, Þráinn Lárusson og Gyða Árný Helgadóttir. Til að skoða gistináttaskattinn voru valin Bjarki Júlíusson, Gyða Árný Helgadóttir og Geir Gígja. Til að skoða fasteignaskatta, umhverfismál  og álögur sveitarfélaga völdust Bjarki Júlíusson, Árni Sólonsson og Ólafur Torfason. Í hlut Unnar Steinsson og Ragnars Bogasonar, kom að skoða áreiðanleika þeirra gagna sem lögð eru til  grundvallar afkomu í greininni. Til  að skoða samstarf við hliðstæð samtök völdust Þráinn Lárusson, Steinþór Jónsson og Ragnar J Bogason. Samgöngumálin, bæði innanbæjar í höfuðborginni og um land allt, verða á könnu Þráins Lárussonar, Gyðu Árnýjar Helgadóttur og Geirs Gígja. Þessir hópar verða Pétri Snæbjörnssyni innan handar við gagnaöflun og greiningar efnis auk þess mun formaðurinn Kristófer Oliversson taka meira og minna þátt í öllum hópunum.  Ætlunin er svo að halda félagsfundi og almenna fundi um þau efni sem hér greinir eftir gangi mála.

Við hvetjum þá sem vilja leggja þessum hópum lið til að hafa samband við okkur til að ganga til liðs við ofangreinda hópa. Loks ákvað stjórn að gefa út þetta rafræna fréttabréf eigi sjaldnar en á 6 vikna fresti og setja sér starfsreglur.


HELSTU MÁL Á DÖFINNI

Stofnun félagsins hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli og hefur fjöldi fyrirtækja gengið til liðs við félagið. Helsta markmið  félagsins er að stuðla að heilbrigðu og réttlátu rekstrar- og samkeppnisumhverfi í rekstri gistiþjónustu á Íslandi.   Ljóst er að mikil þörf er á að draga fram áherslur í rekstrarumhverfi gististaða á Íslandi og vinna að úrbótum í því efni.  Sem dæmi um það er lagabreytingin frá 2016 sem var um margt góð en að öðru leyti mjög umdeild og ákvæði í lögunum sem eru á gráu svæði, framkvæmd þeirra erfið og eftirlit illmögulegt.  Ber þar hæst heimagistingu og þá ekki síst heimildir í lögunum um að leigja eina aðra fasteign en eigin heimili.  Það er mat félagsins að brýnt sé að lagfæra lög númer 67/2016 með það að markmiði að jafna stöðu mismunandi flokka gistingar í landinu. Gistináttaskattur Sértækir skattar á einstaka atvinnugreinar eru afar óheppilegir og einkum virðist gistináttaskatturinn vera að þróast í mjög slæma átt.  Í ljós hefur komið að hann er ekki góður skattstofn og ekki er ljóst  hverjir eru í raun að greiða skattinn, þar sem mikill munur er á fjölda gistisala á lista RSK,  Hagstofunnar og loks skrá sýslumanna.  Í kerfinu eru alltof mörg undanþáguákvæði auk þess að skatturinn er innheimtur af gistieiningu en ekki greiðandi einstaklingum.  Þannig borga eins manns herbergi, tveggja manna herbergi og jafnvel 10 manna orlofshús sömu upphæð í gistináttaskatt. Hugmyndir um að færa gistináttaskattinn til sveitarfélaga og gera hann að veltuskatti eru vægast sagt ógnvekjandi.  Í raun gæti þetta þýtt að gistináttaskatturinn endaði að mestu hjá Reykjavíkurborg, en þar falla flestar gistinætur til. Við viljum þennan skatt í burtu og teljum sértækar skattheimtur á tekjur einstakra fyrirtækja/- og eða starfsgreina algerlega ótækar. Önnur opinber gjöld Fasteignagjöld og skattar rjúka  upp og sveitarfélög virðast leita logandi ljósi að nýjum leiðum til að ná fjármunum af fyrirtækjum, á framkvæmdastigi.  Slíkt háttalag er íþyngjandi  og dregur úr vilja til nýfjárfestinga. Stöðugt koma til sögunnar ný gjöld, s.s. innviðagjald, umsýslugjald og byggingarréttargjald svo dæmi séu tekin. Allir tekjustofnar þurfa að vera skýrir og ljóst að greiðandinn sé að fá þjónustu eða gæði fyrir það sem hann er að greiða fyrir.  Umhverfismál er mikilvægur málaflokkur í víðasta skilningi. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar í þeim málaflokki, ekki síst á sviði fráveitu og sorpmála, og einnig loftgæða og skipulagsmála almennt. Samgöngur Það má færa mörg rök fyrir því að almenningsamgöngur í landinu séu í lamasessi, nánast hvernig sem á þau er litið.  Flugið er slitið í sundur milli  Keflavíkur og Reykjavíkur sem heldur landsbyggðinni í einangrun frá alþjóðlegum samgöngum.  Allar samgöngur frá Keflavíkurflugvelli eru til Reykjavíkur og frá flugvöllum út um land eru yfirleitt engar almenningssamgöngur.  Til dæmis á Akureyri fer strætó ekki á flugvöllinn.  Svokallað strætókerfi í landinu er illa samhæft og erfitt í notkun nema fyrir staðkunnuga.  Almenningssamgöngur eiga að vera skilvirkar, einfaldar í notkun og aðgengilegar. Gögn til grundvallar Áreiðanleiki gagna er kapítuli útaf fyrir sig, sem brýnt er að skoða betur.  Ef litið er til opinberra gagna þá eru 1.073 gistisöluaðilar í gagnagrunni Hagstofu Íslands, þar af að 135 hótel.  Þegar kemur að Ferðamálastofu eru líka 135 hótel en 3.026 aðrir aðilar, án frekari flokkunnar.  Loks eru 1.881 í gistináttaskattagrunni Ríkisskattstjóra.  Í lögum númer 85/2007 með síðari breytingum eru skýr ákvæði um flokkun gististaða, en engin ofangreind notar þá flokkun.  Hvers vegna? Í reglugerð númer 1277/2016 er ákvæði um að sýslumenn skuli halda skrá yfir gild rekstrarleyfi.  Sá listi er í einu lagi fyrir allt landið og mjög erfitt að átta sig á, nema með nákvæmri skoðun, hver er í hvaða flokki og þá ekki síður hvað eru margir í hverjum flokki.  Sami listi er fyrir gistileyfi, veitingaleyfi og skemmtanaleyfi og ekki kemur fram hvað eru mörg leyfi samtals í gildi.   Þetta gerir allt eftirlit erfitt og jafnvel óframkvæmanlegt.  Í 11 gr laga númer 85/2007 með síðari breytingum er ákvæði um að leyfisveitandi skuli úthluta leyfishafa númeri til notkunar í markaðssetningu, en í reglugerð númer 1277/2016 er ekkert minnst á þetta og það virðist ekki vera framkvæmt.  Að minnsta kosti er ekki að finna númer með nýjum leyfum á vef sýslumanna.  Loks er það nýmæli í lögunum frá 2016 að leyfin eru ótímabundin, en engin ákvæði um hvernig því skuli fylgt eftir að leyfishafar uppfylli þau  skilyrði sem sett eru starfseminni. Samstarf Mikilvægt er að fylgjast með hvað hliðstæð samtök og opinberar stofnanir eru að gera hérlendis og erlendis.  SAF er að vinna að ýmsum mikilvægum málum er varða gistihús og munum við fylgjast vel með gangi mála hjá þeim.  Eins munum við skoða rekstrarumhverfi  gistihúsa í nágrannalöndunum og erum komin í samband við hliðstæð samtök í nágrannalöndunum.


VIÐTALIÐ VIÐ FHG FÉLAGSMANN

Unnur Steinsson framkvæmdastjóri Fransiskus ehf.

Unnur Steinsson er vel flestum kunnugur Íslendingur.  Hún er starfandi framkvæmdastjóri Fransiskus ehf sem á og rekur hótel Fransisku í Stykkishólmi og er einn af meðlimum FHG. Hún sat fyrir svörum hjá okkur á FHG að þessu sinni.

Hvernig kom til að þú fórst að starfa í gistiþjónustu á Stykkishólmi? Ég hef hef alltaf verið svolítið skotin í ferðaþjónustugeiranum og kannski byrjaði þetta allt þegar hóf störf hjá Flugleiðum sumarið 1983.


Ég starfaði sem flugfreyja hjá félaginu í um 13 ár. Ég hef alltaf verið stolt af landi mínu og þjóð og finnst mikilvægt að þeir erlendu gestir sem sækja Ísland heim fái rétta mynd af okkur sem Íslendingum en ekki síður rétta mynd af landinu okkar og því umhverfi sem við búum í. Ég hef ferðast mikið bæði innanlands og utan og á staði sem eru ekki endilega í alfaraleið.


Stykkishólmur var mér ekki alveg ókunnugur áður en ég flutti þangað með fjölskylduna árið 2015 því við hjónin keyptum fyrir u.þ.b 16 árum síðan 100 ára gamalt hús sem við höfum verið að dunda okkur við að gera upp. Húsið stendur í hjarta bæjarins innan um fallega uppgerð hús, sem byggð eru um og eftir aldamótin 1900.


Árið 2005 var ég á milli starfa og bauðst mér þá að taka við starfi er sneri að ferðamálum í Stykkishólmi. Starfið fólst meðal annars í að sjá um og reka upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn og rekstur á tjaldstæði bæjarins. Þetta var skemmtilegur tími og ég fann það þá hvað það átti vel við mig að taka á móti erlendum gestum, fræða þá um svæðið og senda þá áfram á vit ævintýranna.


Það var því auðveld ákvörðun fyrir mig þegar mér bauðst staða framkvæmdastjóra 10 árum síðar á sama stað en á örlítið öðrum forsendum. Á þessum 10 árum hafði ég starfað við innkaup, vörustjórnun og markaðsmál hjá Lyfju hf.


Hvernig hleður þú batteríin? Ég fer í útreiðatúra og eyði tímanum með hestunum mínum, þeir gefa mér mestu orkuna.


Ertu á þeim stað í lífinu sem þú ætlaðir þér? Hef aldrei gert plön um hvar eða hvert ég verð komin eftir svo og svo mörg ár. Ég hef verið svo heppin að til mín hafa ratað tækifæri sem ég hef stokkið á og ekki séð eftir. Þannig að já, ég er mjög sátt með þann stað sem ég er á lífinu í dag.

Hver er þinn uppáhalds staður á Íslandi / erlendis? Ég á marga uppáhaldsstaði á Íslandi og mér finnst allir landshlutar eiga sína fallegu og    einstöku staði. Nýjasti uppáhaldsstaðurinn minn er austur á landi nánar tiltekið í Dyrfjöllum en það er staðurinn Stórurð. Alveg einstök náttúruperla.

Ég hef ferðast víða um heiminn bæði í leik og starfi og get ekki sagt að ég eigi einhvern uppáhaldsstað erlendis. Ég á þó uppháldsborgir, sem mér finnst gaman að heimsækja. Þær eru þessar týpísku,  New York, London og París en mér eru samt mjög minnistæðir staðir sem ég hef heimsótt og þá vil ég helst nefna Manila á Pilipseyjum, eyjan Maui á Hawaii, Jeddah í Saudi Arabíu og Hainan eyjan í Kína.

Ertu með lífsmottó? Það er til sögn á ensku sem er „If you don´t do it, you never know, what would have happened if you hadn´t done it“ - ég hef stundum reynt að lifa samkvæmt því.



Ætlunin er að þetta fréttabréf komi út á 6 vikna fresti og flytji ykkur upplýsingar um gang mála á okkar vegum.  Við hvetjum ykkur til að kynna ykkur heimasíðu okkar www.fhg.is og auðvitað ganga til liðs við félagið ef þið viljið leggja málefninu lið, eins erum við með facebook síðu https://www.facebook.com/fhgisland/.  Allar nánari upplýsingar veitir framkvæmdastjóri félagsins Pétur Snæbjörnsson í tölvupósti  petur@fhg.is eða í síma 8944171.




Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page