top of page

Bankarnir komi að skuldavanda


Í ágætri grein í Mbl. 15. sept. s.l. bendir Eiríkur S. Svavarsson lögmaður Fosshótela á nauðsyn þess að fjármálastofnanir komi til móts við leigutaka og leigusala, enda hefur verið á það bent í álitsgerð Viðars Más Matthíasarsonar rannsóknarprófessors, sjá hér og í grein Siguðar G Guðjónssonar hrl., sjá hér,  að líta beri á þetta sem sameiginlegt sjótjón leigutaka, leigusala og fjármagnseigenda.


Fyrir fjármagnsþungar fasteignir s.s. hótel, verða þessi máli ekki leyst nema með aðkomu fjármálastofnana í formi vaxtalækkana a.m.k. tímabundið. Einnig verða sveitarfélögin að koma að málinu með lækkun eða verulegri frestun fasteignagjalda.

Lögmaður Fosshótels Reykjavík segir mikilvægt að bankar komi til móts við leigutaka og leigusala / Ekki megi gera sömu mistök og eftir hrunið / Óskynsamlegt sé að láta dómstóla um verkefnið.


---------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------


Grein: Morgunblaðið 15.september 2020 - Baldur Arnarson / baldura@mbl.is


BANKARNIR KOMI AÐ SKULDAVANDA

  • Lögmaður Fosshótels Reykjavík segir mikilvægt að bankar komi til móts við leigutaka og leigusala.

  • Ekki megi gera sömu mistök og eftir hrunið

  • Óskynsamlegt sé að láta dómstóla um verkefnið


Eiríkur S. Svavarsson, hrl., og lögmaður Fosshótels Reykjavík, segir mikilvægt að fjármálastofnanir komi til móts við leigusala og leigutaka í hótelgeiranum sem hafi orðið fyrir tekjufalli í kórónuveirufaraldrinum. Eiríkur segir ekki hægt að gagnrýna stjórnmálamennina. Þeir hafi gripið til aðgerða sem ollu tjóni í ferðaþjónustu vegna þess æðri tilgangs að verjast veirunni. Meðal annars með því að lækka eiginfjárkröfu bankanna hafi stjórnvöld greitt fyrir aðgengi bankanna að lánsfé. Að mati Eiríks þurfi bankarnir að leggja sitt af mörkum. Þar sem faraldurinn verði líklega tímabundinn þurfi eftirgjöf banka til handa leigusölum og leigutökum ekki að vera gríðarleg. „Meðan fjármálafyrirtækin lengja aðeins í lánum og koma ekki að þessu borði á annan hátt er enginn annar til að taka á málinu en dómstólar. Það er ekki skynsamlegasta leiðin að láta dómstólana um þetta verkefni. Það gengur jafnframt ekki að bankar komi ekkert að því að skipta sér af lausninni í þessari keðju. Það er mikilvægt að ekki verði gerð sömu mistökin og í hruninu þegar bankarnir komu alltof seint fram með úrræði og lausnir á skuldavanda heimila og fyrirtækja. Það kostaði mikið tjón; gjaldþrot og nauðungarsölur.


Brýnt að lágmarka tjónið

Nú er glíman við allt annars konar kreppu. Allir innviðir eru í lagi en það þarf að bregðast hratt við til að lágmarka tjónið. Það eru öll rök fyrir því að lánveitendur komi strax að borðinu en þeir verða að gefa sínum lántökum svigrúm til að komast út úr þessum aðstæðum. Það verður ekki gert með því einu að fresta afborgunum heldur þurfa leigusalar, leigutakar og lánveitendur að deila ábyrgðinni. Það þurfa allir að taka á sig tjón og bankarnir verða að fella niður afborganir á meðan kórónuveiran ríður yfir. Þessi leið er ódýrust fyrir alla,“ segir Eiríkur sem telur það ágætis samlíkingu hjá Sigurði G. Guðjónssyni hrl. í samtali við Morgunblaðið 1. ágúst sl. að ræða um sjótjón í þessu efni. Á grafinu hér fyrir ofan má sjá fjölda hótela sem voru opin á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi í júlímánuði 2015-2020. Alls 169 hótel voru opin á landinu í júlí 2019 en aðeins 138 í júlí í sumar. Hjá Hagstofunni fengust þær upplýsingar að mismunurinn, 31 hótel, skýrðist af tímabundunum lokunum. Þar af voru 24 á höfuðborgarsvæðinu.


Lagði fram lögbannskröfu

Fosshótel Reykjavík er dótturfélag Íslandshótela, stærstu hótelkeðju landsins sem er með 17 hótel í rekstri. Í júníbyrjun lagði Fosshótel Reykjavík fram beiðni til sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem krafist var lögbanns við þeirri fyrirætlan Íslandsbanka að greiða út bankaábyrgð samkvæmt kröfubréfi Íþöku fasteigna til bankans en Íþaka er leigusali hótelsins. Eiríkur segir málið í raun miklu stærra „en þetta dómsmál sem Fosshótel Reykjavík neyðist til að vera í gagnvart sínum leigusala“. Líklegt sé að þetta verði fordæmisgefandi mál. Honum sé kunnugt um fleiri mál í dómskerfinu af svipuðum toga. Aðgerðir til að verjast veirunni teljist ófyrirséður og óvæntur atburður og í tilviki Fosshótels Reykjavík hafi ekki verið forsendur til að halda því opnu. Því hafi öllum starfsmönnum verið sagt upp og engin starfsemi verið frá 1. apríl sl.


Reyndu að ná samningum

„Við sjáum ekki fram á að það skapist forsendur til að opna hótelið alveg á næstunni. Leitað var strax til leigusala og reynt að ná samkomulagi, sérstaklega í ljósi klásúlu í leigusamningi um force majeure-- aðstæður. Það leiddi til þess að leigusali hjólaði í bankaábyrgð. Það aftur neyddi félagið til varnaraðgerða, enda er bankaábyrgð afar rík kröfuréttindi,“ segir Eírkur en force majeure-reglan varðar ófyrirséð og óvænt ytri atvik sem koma í veg fyrir efndir. Telur Eiríkur að álitsgerð sem Viðar Már Matthíasson, fv. hæstaréttardómari og rannsóknarprófessor við lagadeild HÍ, vann fyrir Fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu (FHG), styðji málstað leigutaka. „Eftir efnahagshrunið brugðust bankarnir seint og illa við sem að lokum kostaði meira umfang leiðréttinga og tjóns,“ segir Eiríkur.



Comentários


Os comentários foram desativados.
bottom of page