top of page

Fasteignaskattar sveitarfélaga

Updated: May 6, 2021


Alþingi lögfesti í mars lög um breytingu á ýmsum lögum tengdum málefnum sveitarfélaga (sveitarfélög og kórónuveirufaraldur), sjá lög nr. 22/2021 sem tóku gildi við birtingu í Stjórnartíðindum þann 26. mars síðastliðinn. Lögin byggja m.a. á ákalli FHG og SAF síðasta haust um samstarf við sveitarfélög vegna fasteignaskatta, eins og rakið var í Fréttabréfi FHG í janúar síðastliðnum.


Nýju lögin geyma breytingar á þremur lagabálkum. Gerð er breyting á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, til að auðvelda sveitarfélögum ákvarðanatöku þegar neyðarástand skapast. Lögum um Lánasjóð sveitarfélaga, nr. 150/2006, er breytt í þá veru að rýmka lánsheimildir Sjóðsins, þ.e. að honum verði auk þess að lána til fjárfestinga heimilt að lána sveitarfélögum og stofnunum vegna rekstrarhalla á tímabilinu 2020-2022. Loks er gerð sú breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, sem FHG höfðu kallað eftir, að sveitarfélögum verði heimilað að lækka eða fella niður dráttarvexti á kröfur vegna fasteignaskatta hjá gjaldendum og leigusölum þeirra sem eiga við verulega rekstrarerfiðleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins. Samhliða er lögveðsheimild sveitarfélaga í þeim fasteignum sem fasteignaskattar eru lagðir á lengd í 4 ár.


Í greinargerð laganna kemur fram að sveitarfélög skuli útfæra huglægar og skýrar reglur um framkvæmd slíkrar lækkunar eða niðurfellingar dráttarvaxta. Í reglum um útfærslu gagnvart leigusölum skuli vera áskilnaður um að sýnt sé fram á þinglýstan viðauka við leigusamning sem tryggi að ívilnanir komi rekstraraðilum til góða. Í áliti umhverfis- og samgöngunefndar alþingis um frumvarpið er brýnt fyrir sveitarfélögum að leita leiða til að framkvæmdin verði sem skilvirkust og m.a. bent á þau skilyrði sem sett eru í lögum um tekjufallsstyrki. Nefndin er einnig með ábendingu til sveitarfélaga um að vinna að útfærslu á slíkum reglum í samstarfi við Sambandi sveitarfélaga.


Nú liggur fyrir hjá sveitarfélögunum að útfærar framangreindar reglur, en þær eru forsenda þess að sveitarfélögin opni fyrir umsóknir um slíkar ívilnanir. FHG hafa verið í góðu sambandi við Samband sveitarfélaga um þá vinnu. Þá barst formanni FHG tölvupóstur frá formanni borgarráðs þann 16. apríl sl. um að málið hefði verið afgreitt úr borgarráði þann 15. apríl. Borgarráð hefði þar samþykkt tillögu um að fjármála- og áhættustýringarsvið borgarinnar útfæri reglur á grunni framangreindra ákvæða laganna og að þær verði unnar í samráði við þau hagsmunasamtök sem málinu tengjast. FHG og SAF bíða nú fundar með framangreindum aðilum til að geta fylgt þessu máli til enda.



Aðild að FHG


Aðildarfélög FHG má finna á heimasíðunni - sjá hér.

Samtakamátturinn er aldrei mikilvægari en á tímum eins og við upplifum nú um stundir.

Sótt er um aðild á heimasíðu FHG, sjá hér.

bottom of page