top of page

Fyrsta fréttabréf FHG 2020

Updated: Sep 24, 2020


Þrír fulltrúar stjórnar FHG gengu á fund fjármálaráðherra og ferðamálaráðherra föstudaginn 31.janúar og var Jóhannes Þór Skúlason  framkvæmdastjóri SAF með í för til að taka undir kröfur okkar og tilmæli sem sett voru fram af fullum þunga, en með hófsemd og kurteisi í fyrirrúmi.

Kristófer Oliversson, Jakob Frímann Magnússon og Unnur Steinsson skiptu með sér framsögunni, studdri vel ígrunduðum glærum. 

Gengið var af fundi með þá tilfinningu að einkar vel hefði til tekist. 

Af orðum ráðherranna að dæma yrði að teljast ósennilegt að Gistináttaskatturinn verði afhentur sveitarfélögunum á því liðlega ári sem eftir er af þessu kjörtímabili. Okkur ber þó áfram að halda vöku okkar og fylgja þessu, sem öðru, eftir af fullum þunga.

Á kröfu okkar um afnám hans fyrir fullt og allt var hlustað af kostgæfni, enda lögðum við fram gögn um aðra valkosti er skapa mundu enn meiri árlegar tekjur fyrir ríkið:

1) 520 milljónirí "stimpilgjöld" í sendiráðum Íslands í Kína, Rússlandiog víðar. Þetta eru staðafestar tölur frá Utanríkisráðuneytinu.

2) 465 milljónir með því að láta farþega skemmtiferðaskipa greiða sambærilegt komugjald hér og annars staðar, t.a.m. í Hollandi þarsem hver farþegi greiðir kr. 1.100 en einungis kr. 185 á Íslandi!

3)  Árlega renna ríkinu úr greipum um 4.5 milljarðar króna vegna þess hve fámennur sá hópur er á vettvangi Airbnb sem starfar"ofanjarðar". Hagkerfi Airbnb hérlendis telur mun fleiri herbergien almenn hótel- og gistihús. 

Munurinn er sá að 2/3 hlutar Airbnb - geirans eru enn starfandi "neðanjarðar", sumsé ekki með skráða starfsemi, með vsk., gistináttagjöld, 1.65% fasteignaskatt, áfengisgjöld eða annað sem nú sliga almenna rekstraraðila í hótel- og gistihúsarekstri. Við lögðum ríka áherslu á að hefja án tafar undirbúning að öflugri markaðsherferð á lykilmörkuðum og bentum jafnframt á mikilvægi þess að ríkið fjárfesti í greininni í samræmi við þær tekjur sem ferðaþjónustan leggur ríkinu til. Í hitteðfyrra voru nettó tekjur hins opinbera 80 milljarðar af ferðaþjónustunni en í fyrra einungis um 70 milljarðar. Í almennum rekstri þykir eðlilegt að setja 2-3 prósent af tekjum í markaðsstarf sem gera mundi á bilinu 1.5 -2 milljarða

Því fer fjarri að eitthvað í námunda við það hafi farið í markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað ferðamanna á liðnum árum.

Þá var brýnt fyrir ráðherrunum að leggja drög að því að til verði alvöru Ferðamálaráðuneyti með alvöru verkstjóra - ráðuneytisstjóra -  sem ekki er jafnhliða að þjóna landbúnaði, sjávarútrvegi, iðnaði, nýsköpun og orkumálum.  Sömuleiðis að Ferðamálaráðherra verði leiðtogi og varðmaður greinarinnar - í fullu starfi - en ekki í hlutastarfi. 

Á viðsjárverðum tímum sem nú, þarf 100%  fókus og vöktun- alla daga vikunnar og sérdeilis  sterkan erindrekstur við ríkisstjórnarborðið - í samkeppni við þá fjárfrekustu ráðherrana sem sífelldra hækkana krefjast á framlögum til sinna málaflokka.

Sitthvað fleira kom til sögunnar á þessum góða og opinskáa fundi.Við bindum vonir við raunverulegan afrakstur alls þessa, enda undirbúningur fyrir þennan fund margþættur og ígrundaður.

Við þurfum að sjálfsögðu, eftir sem áður, að vera vakin og sofin yfir hagsmunum greinarinnar og rekstrarumhverfi öllu. Það er lykilverkefni okkar í FHG og því verður haldið áfram af fullum krafti, með ráðum og dáð!

bottom of page