top of page

Félagsfundur FHG

Updated: Jun 24, 2021

ÁHRIF COVID Á SAMNINGA VIÐ KRÖFUHAFA

HÆSTARÉTTARLÖGMENN RÝNA NÝFALLINN HÉRAÐSDÓM




FHG stóðu í dag, 25. mars 2021, fyrir félagsfundi um nýfallinn héraðsdóm í máli Fosshótela og Íþöku. Eiríkur S. Svavarsson hrl., lögmaður Fosshótels í málinu, var frummælandi og Sigurður G. Guðjónsson hrl. álitsgjafi. Í ljósi sóttvarnarráðstafana var fundurinn haldinn rafrænt.


Dómsmálið var höfðað af Fosshótelum til staðfestingar lögbanns sýslumanns á útgreiðslu bankaábyrgðar til leigusala, en dómkröfur lutu einnig að breytingu á leiguskuldbindingum í því ástandi sem nú ríkir. Fjölskipaður héraðsdómur felldi lögbannið úr gildi en taldi hins vegar rétt að víkja leigusamningnum til hliðar að hluta, á grunni 36. gr. samningalaga, þannig að leigusali og leigutaki skiptu áfallinu jafnt sín á milli. Dómurinn lækkaði þannig leiguverðið um helming fyrir tímabilið frá 1. apríl 2020 til 31. mars 2021. Dóminn í heild má finna hér.


Kristófer Oliversson formaður FHG opnaði fundinn. Hann fagnaði því að komin væri niðurstaða í málið og sagði miklu geta skipt uppá framhaldið hversu víðtæka ályktun væri hægt að draga af því. Kristófer sagði markaðslega stöðu Íslands sterka um þessar mundir, með túristaeldgos í túnjarðri flugvallarins. Hins vegar skipti miklu að fyrirtækin drukknuðu ekki í afborgunum uppsafnaðra krafna um leið og starfsemin kæmist í gang á ný


Í máli sínu lagði Eiríkur áherslu á að covid19 væri óvæntur og ófyrirséður atburður, sem kæmi mjög illa niður á þeim fyrirtækjum sem sóttvarnarráðstafnir bitnuðu harðast á. Heimsbyggðin byggi í raun við stríðsástand, ástand sem eigi sér ekki samanburð síðan í síðari heimsstyrjöldinni.


Hann benti á að lítið hefði reynt á afstöðu íslenskra dómstóla til áhrifa covid19 fram að þessum dómi. Helst væri þar um að ræða dóm Landsréttar frá byrjun þessa árs í máli N1 gegn Allrahanda vegna greiðsluskjóls. Dómurinn segir þar beint út að ljóst sé að starfsemi A hafi raskast verulega vegna aðstæðna sem skapast hafa út af heimsfaraldri. Þá hefði Neytendastofa á síðasta ári í úrskurðum sem sneru að túlkun laga um pakkaferðir, nr. 95/2018, komist að þeirri niðurstöðu að óumdeilt væri að aðstæður vegna covid19 faraldursins væru óvenjulegar og óviðráðanlegar í skilningi laganna.


Eiríkur sagði á bilinu 200-300 dóma hafa gengið um gildi 36. gr. samningalaga, en af þeim hafi einungis í innan við 10% tilvika verið viðurkennt að ógildingarheimild ákvæðisins ætti við. Hinn nýi dómur væri þeim mun mikilvægari í ljósi þess. Þá bæri að undirstrika að um fjölskipaðan dóm var að ræða, samhljóða niðurstaða þriggja dómara, og fjárhagslegir hagsmunir í málinu væru miklir. Röksemdir héraðsdóms fyrir niðurstöðunni séu tvær. Annars vegar að þær aðstæður sem hefðu skapast væru ófyrirséðar við samningsgerð. Hins vegar hafi gríðarlegur samdráttur orðið í ferðaþjónustu vegna covid19 sem leitt hafi til þess að rekstrargrundvöllurinn hafi raskast gríðarlega, enda byggi hótelið afkomu sína nær eingöngu á erlendum ferðamönnum. Eiríkur vísaði einnig til þess að dómurinn nefni sérstaklega í þessu samhengi að ekki hafi verið grundvöllur til að halda hótelinu opnu.


Þetta er fyrsti efnisdómur sem gengur um samningsskuldbindingar í tengslum við covid19, mér best vitandi, sagði Eiríkur. Þegar um slíka allsherjar röskun á samningshögun væri að ræða væri því, samkvæmt dóminum, heimilt að breyta umsömdum samningsskuldbindingum.


Eiríkur sagði dóminn vopn í baráttu þeirra sem glíma við leigusala. Hann hafi þó jafnvel víðtækari skírskotun, s.s. varðandi samningssamband lántaka og lánveitenda þegar sams konar röskun eigi við og dómurinn fjallar um.


Þá vísaði Eiríkur í lærdóminn af hruninu, þar sem fjármálakerfinu reyndist þungt undir fæti að takast á við skuldastöðu fyrirtækja. Hlutirnir hefðu í raun ekki farið að hreyfast fyrr en dómar um rétt lántaka fóru að falla. Sú leið hafi verið löng og ströng. Rétt sé að læra af þeirri vegferð og það takmarki tjón ef gengið er í málin strax. Æpandi röksemdir séu fyrir því að skipta áhættunni milli aðila, þ.e. leigusala, leigutaka og þegar það á við fjármálafyrirtækis. Málið passi eins og flís við rass við kjarnann í efnahagsstefnu ríkisstjórnarflokkanna, þ.e. að búa til viðspyrnu.


Því næst fékk Sigurður G. Guðjónsson hrl. orðið. Hann fagnaði því að dómurinn tæki undir þau sjónarmið sem kæmu fram í þeirri álitsgerð sem prófessor Viðar Már Matthíasson vann fyrir FHG árið 2020. Það liggi fyrir að um sé að ræða force majeur aðstæður, þótt dómurinn vísi ekki til þeirra beint. Nú geti lánastofnanir staðið frammi fyrir því að hóteleigendur sem geta ekki greitt af skuldum sínum geti krafist þess að bankarnir gefi formlega eftir af samningsskuldbindingum sínum rétt eins og leigusali. Dómurinn sé vel rökstuddur og sterkt vopn í þeirri baráttu sem búin er að standa yfir síðan í mars í fyrra. Þótt stjórnvöld hafi staðið sig vel í að styðja við greiðsluvanda fyrirtækja í ferðaþjónustu þá sé ekki búið að leysa uppsafnaðan skuldavanda og takast á við spurninguna hvernig eigi að skipta honum milli rekstraraðila og lánastofnana. Dómurinn vísi leiðina í þeim efnum.


Sigurður sagði stjórnvöld, samtök í ferðaþjónustu og fjármálakerfið þurfa að setjast niður og reyna að finna hæfilega skiptingu um hvernig eigi að dreifa tapi milli aðila. Það sé ekki gæfulegt ef eigi að bíða eftir því að allir fari að reka mál, hver í sínu horni. Hafa megi hugfast að í hruninu hafi Hæstiréttur neitað að taka tillit til 36. gr. samningalaga í þeim málum þar sem látið var reyna á ákvæðið. Þeir dómar hafi þó ekki fordæmisgildi hér.


Opnað var á spurningar í lokin. Eiríkur var spurður út í mögulega áfrýjun málsins. Hann vísaði til þess að áfrýjunarfrestur væri skammur, 4 vikur frá dómsuppsögu, og mögulega lægi það nær stefnda að áfrýja niðurstöðunni en stefnanda. Aðspurður út í möguleikann á að fá áfrýjunarleyfi beint til Hæstaréttar, taldi hann að dómurinn ætti að uppfylla þau skilyrði en það væri hins vegar matsatriði hvort best væri að fara þá leið eða að láta Landsrétti eftir að eiga næsta leik. Sérstaklega spurður um áhrif þess að umrætt hótel lokaði alveg, sagði Eiríkur dóminn gefa þeim sem væru í sömu aðstöðu skýr svör. Gagnvart þeim sem haldið hefðu lágmarksstarfsemi opinni, væri dómurinn ekki jafn skýr.


Hér er tengill á glærur Eiríks á fundinum


Kynning - FHG - 25.3.2021
.pptx
Download PPTX • 78KB


bottom of page