top of page

Gistináttaskatti frestað út árið 2023



Í fjárlagafrumvarpi ársins 2022 segir:


Í forsendum tekjuáætlunar er gert ráð fyrir að gistináttaskattur verði aftur lagður á árið 2022 í samræmi við samþykkta fjármálaáætlun og gildandi lagaákvæði. Niðurfelling gistináttaskattsins frá apríl 2020 til desember 2021, var ein af aðgerðum stjórnvalda vegna heimsfaraldursins, en í ljósi stöðu ferðaþjónustunnar er ákveðið að framlengja niðurfellinguna til loka árs 2023. Áætlaðar tekjur af gistináttaskattinum nema 695 m.kr. og mun þurfa að lækka tekjuáætlun fjárlaga við 2. umræðu sem því nemur. Í frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum vegna fjárlaga er gert ráð fyrir þessari aðgerð til samræmis.


Í nýjum stjórnarsáttmála segir um þennan þátt:


Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar verður fyrirkomulag gjaldtöku í greininni tekið til skoðunar. Horft verður til þess að breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði. Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.

FHG fagna þeirri ákvörðun stjórnvalda að fresta gistináttaskattinum enn frekar. Samtökin vonast eftir góðu samtali við stjórnvöld um útfærslu á gjaldtöku í greininni, með það að markmiði að tryggja jafnræði á markaði eins og segir í stjórnarsáttmála. Í þeirri vinnu þarf einnig að horfa til þess að útfærsla slíkrar gjaldtöku skerði ekki samkeppnisstöðu rekstraraðila í gistiþjónustu.



Ferðaþjónustan og stjórnarsáttmálinn


Í nýjum stjórnarsáttmála segir Við ætlum að efla íslenska ferðaþjónustu. Nánar segir þar:

Ferðaþjónustan verður áfram stór þáttur í íslensku atvinnu- og efnahagslífi og er mikilvægt að hún fái tækifæri til uppbyggingar eftir áföll heimsfaraldursins. Lögð verður áhersla á að ferðaþjónusta á Íslandi sé arðsöm og samkeppnishæf atvinnugrein í sátt við náttúru, íslenska menningu og tungu. Við viljum að Ísland sé leiðandi í sjálfbærri þróun og nýsköpun í ferðaþjónustu. Áfram verður unnið að uppbyggingu innviða í takt við fjölgun ferðamanna.


Í einstökum aðgerðapunktum undir yfirskriftinni Ferðaþjónusta segir síðan:

  • Framtíðarsýn ferðaþjónustu til 2030, sem mótuð var á síðasta kjörtímabili, verður fylgt eftir með aðgerðaáætlun sem styður við bæði langtímamarkmiðin og áhersluatriðin 12 sem henni fylgdu.

  • Horft verður til þess að framlengja „Saman í sókn“, markaðsátak stjórnvalda, greinarinnar og Íslandsstofu, til að stuðla að nauðsynlegri viðspyrnu ferðaþjónustunnar í kjölfar Covid-19.

  • Markviss skref verða tekin til orkuskipta í ferðaþjónustu, m.a. með stuðningi við uppbyggingu hleðslunets um land allt, rafvæðingu bílaleigubíla og grænni tengingu við Keflavíkurflugvöll.

  • Stutt verður eftir föngum við frekari dreifingu ferðamanna um landið allt árið um kring til að efla atvinnusköpun og rekstrargrundvöll ferðaþjónustufyrirtækja. Efla þarf rannsóknir, nýsköpun og menntun í ferðaþjónustu.

  • Samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar verður fyrirkomulag gjaldtöku í greininni tekið til skoðunar. Horft verður til þess að breikka skattstofninn og tryggja jafnræði aðila á markaði. Unnið verður að breytingum á fyrirkomulagi gistináttagjalds í samvinnu við greinina og sveitarfélögin með það að markmiði að sveitarfélögin njóti góðs af gjaldtökunni.

Fleiri þættir í stjórnarsáttmálanum styðja við uppbyggingu ferðaþjónustunnar, s.s. átak í innviðauppbyggingu með flýtiframkvæmdum í samgöngum í samstarfi við einkaaðila, lagning bundins slitlags á tengivegi, rýmkun útgáfu dvalarleyfa á grunni atvinnuþátttöku og aukin skilvirkni með einföldun ferla á því sviði og áform ríkisstjórnarinnar um að stuðla að umhverfi lágra vaxta og hóflegrar verðbólgu í samráði við aðila vinnumarkaðarins.



Nánar úr fjárlagafrumvarpi ársins 2022


Í 2. kafla fjárlagafrumvarpsins er fjallað um Efnahagshorfur. Þar segir um ferðaþjónustuna:


Batinn í ferðaþjónustunni hófst árið 2021 og mun í enn ríkari mæli styðja við hagvöxt árið 2022 gangi spá Hagstofunnar eftir. Gert er ráð fyrir að fjöldi ferðamanna ríflega tvöfaldist á næsta ári og að um 1,4 milljónir heimsæki landið þannig að ferðamenn verði aðeins um fjórðungi færri en árið 2019. Samhliða gerir spáin ráð fyrir því að ferðalög Íslendinga erlendis fari vaxandi og skýrir það að hluta áframhaldandi sterkan vöxt einkaneyslu. Erlendir ferðamenn hafa dvalist lengur hér á landi og eytt meiru en áður. Gert er ráð svo verði enn að nokkru leyti næsta ári. Hagstofan áætlar að bati í ferðaþjónustu feli í sér að þjónustuútflutningur vaxi um ríflega 40% árið 2022 og að vöxtur útflutnings í heild verði um 19%.


Síðar í þeim kafla er undirkafli sem ber yfirskriftina Efnahagsframvindan mikilli óvissu háð. Þar segir m.a.:


Í svartsýnu sviðsmyndinni eru könnuð áhrif af óhagstæðari þróun í ferðaþjónustu. Í grunnspá Hagstofunnar er gert ráð fyrir því að útflutt ferðaþjónusta tvöfaldist árið 2022 og að erlendir ferðamenn verði um 1.430 þúsund. Sú forsenda tekur mið af horfum um þessar mundir en hún gæti líka reynst bjartsýn, t.d. ef faraldurinn nær sér aftur á kreik hérlendis eða erlendis og dregur úr ferðavilja. Í sviðsmyndinni er gert ráð fyrir því að ferðamenn verði um 800 þúsund eða hátt í helmingi færri en í grunnspánni en lítillega fleiri en gert er ráð fyrir að sæki landið heim á yfirstandandi ári. Jafnframt er gert ráð fyrir því að ferðalög Íslendinga til útlanda verði færri en í grunnspá sem nemur sama hlutfalli.

bottom of page