top of page

Hvernig viljum við sjá ferðamannalandið Ísland?

Morgunblaðið birtir í dag eftirfarandi grein formanns FHG þar sem hann svarar rangfærslum talsmanns Cruise Iceland sem birtust í sama blaði 13. maí síðastliðinn.



Talsmaður hótelskipa við Ísland birti grein í Mbl. 13. maí og beindi spjótum sínum að FHG – Fyrirtækjum í hótel- og gistiþjónustu. Talsmaðurinn segir: „FHG sendu nýverið inn umsögn um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem er til meðferðar á Alþingi en þar óska hagsmunasamtökin FHG þess að lagður verði á skattur sem nemi ígildi gistináttaskatts á farþega skemmtiferðaskipa.“ Í inngangi greinar sinnar segir talsmaðurinn slíkar hugmyndir ekki byggjast á jafnræðisgrundvelli eða staðreyndum. Rétt er að þakka talsmanninum fyrir tækifærið til að útskýra sjónarmið FHG fyrir lesendum Mbl. FHG rekja ítarlega í umsögn sinni til þingsins hve miklum tekjum ferðaþjónusta skilar íslensku hagkerfi. Áætlaðar heildartekjur af ferðamönnum árið 2022 nema 400 milljörðum króna. Af því má áætla að í hlut ríkis og sveitarfélaga hafi komið 40-50 milljarðar króna. FHG kalla í umsögn sinni eftir því að Alþingi spyrji sig hvort grundvöllur sé fyrir sértæka skatta á hótelgistingu þegar hið opinbera hefur himinháar tekjur af erlendum ferðamönnum í almenna skattkerfinu. Gistináttaskattur er sértækur skattur sem sumir borga, ekki aðrir, og hefur verið umdeildur frá því hann var innleiddur. En Ísland er í alþjóðlegri samkeppni um ferðamenn á norðurslóðum og leggur eitt Norðurlandanna á gistináttaskatt. Það hefur neikvæð áhrif á samkeppnisstöðu okkar.


Óheilbrigð samkeppni

Samkeppnisstaða hótela er skökk gagnvart ört vaxandi gistingu í hótelskipum sem og Airbnb-gistingu, eins og þessi mynd sem KPMG aðstoðuðu FHG við að setja upp, sýnir: Staðreyndin er sú að skemmtiferðaskip greiða enga skatta hér á landi og starfsmenn skipanna skila engum sköttum eða gjöldum í ríkissjóð. Þá greiða skipin sjálf heldur engan virðisaukaskatt af þeim vistum sem keyptar eru í landi og seldar eru um borð og ekkert áfengisgjald. Viðskiptamódel slíkra útgerða gengur út á að farþegar létti á buddunni á skipi, ekki í landi. Skattleysið er ástæðan fyrir gríðarlegri aukningu skipa sem sigla í kringum landið, oftast skráð í aflandslögsögum. Þetta ásamt því að önnur ríki hafa verið að setja komum slíkra skipa skorður og hækka á þau gjöld í ljósi slæmrar reynslu. Algengt er að flogið sé með farþega til Íslands og þeir síðan ferjaðir af flugvelli í skip, stundum með viðkomu í hóteli í landi. Nú eru Faxaflóahafnir með áform um að stórbæta aðstöðu á hafnarbakkanum í Reykjavík til farþegaskipta. Það er ójöfn samkeppni fyrir þá aðila sem bjóða upp á gistingu á landi að ferðamenn sem hingað koma eigi í vaxandi mæli möguleika á að kjósa slíka gistingu á sjó í stað hefðbundinnar gistingar í landi. Sú fullyrðing talsmannsins að skemmtiferðaskip séu ekki í beinni samkeppni við hótelrekstur á Íslandi er þannig röng. Í grein sinni rekur talsmaður hótelskipa hvaða gjöld slík skip greiða. Þar nefnir hann annars vegar farþegagjald. Því skal haldið til haga að slíkt gjald er í dag um 210 kr., greitt per farþega, en aðeins við komu, en hótel í landi greiðir gistináttaskatt á hverja selda nótt. Hins vegar nefnir hann bryggjuog lestargjöld (hafnargjöld). Skv. hafnalögum ber höfnum skylda til að nýta tekjur sínar til frekari uppbyggingar og er óheimilt að hagnast. Kerfið nærir sig því sjálft, þar sem fleiri hótelskip þýða digrari hafnasjóði sem þýða frekari stækkanir á höfnum landsins sem þýða enn fleiri hótelskip o.s.frv.


Myndin sýnir það forskot sem hótelskipum og íbúðaleigu er gefið umfram hótelrekstur.


Rétt skal vera rétt

FHG telja skynsamlegast að byggja auknar tekjur hins opinbera af ferðamönnum á hinu almenna skattkerfi á grunni þeirrar fjölgunar sem spáð er, fremur en með sértækri skattlagningu á hótelþjónustu. FHG kalla jafnframt eftir því að hótelrekendur, sem oft hafa lagt allt sitt undir, fái tækifæri til að keppa um þjónustu við erlenda ferðamenn á jafnræðisgrundvelli í starfsumhverfi þar sem sumir fá ekki fríspil frá reglunum. Í dag er líklega skynsamlegra fyrir hótelrekendur að leigja aflandsskip fremur en að fjárfesta í uppbyggingu á landi. Síðarnefnda fjárfestingin er hins vegar margfalt verðmætari fyrir Ísland og skapar mörg störf, bæði beint og óbeint. Þá er ótalið álagið á fjölsótta ferðamannastaði vegna skipanna. Hér er ekki fjallað um gríðarlegt brennisteinsryk sem skipin losa. FHG kalla eftir því í umsögn sinni að á hótelskip verði lagður skattur sem er ígildi virðisaukaskatts Gistináttaskattur nemur einungis um fimm prósentum af heildarskattgreiðslum hótels og er einkum til þess fallinn að gefa skuggahagkerfinu forskot. Ef stjórnvöld munu hvergi hvika frá þessum sértæka skatti og gistináttaskattur leggst á að nýju um komandi áramót, sem er staðan nema löggjafinn grípi inn í, er nær að skip sem selja gistingu við Ísland greiði ígildi virðisaukaskatts, sem er mun hærri fjárhæð en gistináttaskatturinn. Þetta mun stuðla að jafnræði í skattheimtu. Nú er spáð 80% fjölgun skipafarþega í ár. Á sama tíma er kallað eftir betur borgandi ferðamönnum. Þetta er ósamrýmanlegt, enda gista betur borgandi ferðamenn á hótelum. Heilbrigð samkeppni á grunni jafnra leikreglna er forsenda framþróunar


Höfundur er hótelrekandi og formaður FHG.

Grein birtist í Morgunblaðinu 22.maí 2023

bottom of page