top of page

Rekið hótel í þrjá ára­tugi og aldrei verið jafn erfitt að finna starfs­fólk og í ár


Ritstjórn Innherja skrifar 26. desember 2022


Kristófer Oliversson formaður Félags fyrirtækja í hótel-og gistiþjónustu segir bráðvanta fólk í ferðaþjónustugeirann

/ VÍSIR


Stærsta áskorunin fyrir fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu eftir Covid-19 heimsfaraldurinn var að fá starfsfólk í þann fjölda starfa sem reksturinn kallar á. „Ég og mín fjölskylda höfum verið í þessum rekstri í þrjá áratugi og sjaldan eða aldrei reynst jafn erfitt að finna fólk til starfa og í ár,“ segir Kristófer Oliversson, framkvæmdastjóri Center hotels og formaður Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.


Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2022?


„Ferðaþjónustan hefur á síðasta áratug risið upp sem eitt af lykilhjólum íslensks atvinnulífs og sú grein ásamt sjávarútvegi sem styður mest við gjaldeyrisforða landsins. Hótelgeirinn er lykilafl innan ferðaþjónustunnar, með um þriðjung launakostnaðar og helming fjárfestinga að fluginu frátöldu.


Stuðningur stjórnvalda við greinina í heimsfaraldrinum skipti sköpum í að hótelin voru klár í að taka á móti þeirri bylgju ferðamanna sem hófst í byrjun sumars 2022, þegar faraldrinum slotaði. Ferðamannastraumur til landsins hefur verið nánast óslitinn frá þeim tíma og út árið 2022.


Það er mikil innspýting í grein, sem hafði verið nánast tekjulaus frá upphafi faraldurs. Innkoma hótelgeirans af ferðamönnum á árinu 2022 hefur því verið talsvert umfram væntingar, bæði vegna þessa aukna fjölda ferðamanna umfram spár sem og sökum hagstæðrar gengisþróunar fyrir greinina. Stærsta áskorunin fyrir rekstraraðila í hótel- og gistiþjónustu eftir faraldurinn var að fá starfsfólk í þann fjölda starfa sem reksturinn kallar á. Ég og mín fjölskylda höfum verið í þessum rekstri í þrjá áratugi og sjaldan eða aldrei reynst jafn erfitt að finna fólk til starfa og í ár.“


"Það er ljóst að innkoma Play á markaðinn til viðbótar við Icelandair reyndist mjög mikilvæg fyrir hótel- og gistiþjónustu á árinu samhliða því að mikill fjöldi erlendra flugfélaga hélt tryggð við Ísland sem áfangastað og frekari fjölgun varð þar á".


Hvað stóð upp úr?


„Á sama tíma og heildarfjöldi ferðamanna fór langt fram úr væntingum á líðandi ári þá kom skemmtilega á óvart hvað þeir voru fljótir að taka við sér, þá sérstaklega Bandaríkjamenn og Bretar.


Það er ljóst að innkoma Play á markaðinn til viðbótar við Icelandair reyndist mjög mikilvæg fyrir hótel- og gistiþjónustu á árinu samhliða því að mikill fjöldi erlendra flugfélaga hélt tryggð við Ísland sem áfangastað og frekari fjölgun varð þar á.


Það hvað Íslandi tókst vel til í glímunni við heimsfaraldurinn spurðist út og hafði mjög jákvæð áhrif á komu ferðamanna. Þá jók framhald á eldgosinu í Geldingadölum í lok sumars enn frekar áhuga á landinu og straumur ferðamanna inn á haustið og veturinn varð mun meiri en spáð hafði verið. Markaðsáhrif slíks atburðar og dreifing á myndum af vettvangi á samfélagsmiðlum um víða veröld er nokkuð sem ekki verður metið til fjár.“

„Það hvað Íslandi tókst vel til í glímunni við heimsfaraldurinn spurðist út og hafði mjög jákvæð áhrif á komu ferðamanna,“ segir Kristófer. / VÍSIR/VILHELM


Hverjar voru helstu áskoranirnar?


„Eins og fyrr segir voru ráðningar starfsfólks inn í greinina eftir heimsfaraldur stór áskorun. Þá er rekstur hótela- og gistihúsa á Íslandi þungur nú um stundir, þrátt fyrir mikla sölu á árinu. Þar vega þyngst verulega aukinn launakostnaður, hækkandi fasteignagjöld og uppsafnaðar skuldir eftir nokkur tekjulaus misseri í heimsfaraldri. Enn eru uppi deilumál fyrir dómstólum um hvort ekki sé sanngjarnt að áfallið vegna heimsfaraldurs verði borið sameiginlega af rekstraraðilum í ferðaþjónustu, lánveitendum þeirra og leigusölum.


Þar hefur meðal annars verið horft til þess að beita ætti reglum um brostnar forsendur eða horfa til ákvæðis samningalaga um heimild til að víkja samningi til hliðar í heild eða að hluta ef það verður talið ósanngjarnt að bera hann fyrir sig. Mér sýnist stór hluti rekstrarðila í hótel- og gistiþjónustu gera ráð fyrir að vera næstu 4-5 árin að kljúfa þann viðbótarbagga sem felst í Covidskuldum, ef rekstrarforsendur haldast óbreyttar að öðru leyti.


Stjórnarsáttmáli ríkisstjórnarinnar leggur áherslu á arðsama og samkeppnishæfa ferðaþjónustu. Til að þau markmið náist er lykilatriði að umgjörðin sé ekki hamlandi. Hótel- og gistihús eru í stöðugri samkeppni við íbúða- og sumarhúsagistingu eftir rýmkun þeirrarumgjarðar í kjölfar hrunsins. Heimiluðum útleigudögumvar fjölgað úr 30 í 90 daga og heimilað að leigja 2 eignir í stað þess að leigja bara sitt eigið heimili. Við það spruttu fram umsvifamiklir rekstraraðilar á því sviði, sem lúta ekki sömu kröfum um brunaeftirlit, heilbrigðiseftirlit, gjaldtöku o.s.frv. og hótel. Virðisauki samfélagsins af slíkri útleigu er brot af því sem fæst gegnum rekstur hefðbundinna hótelherbergja. Fjöldi borga jafnt í Evrópu og Bandaríkjunum eru farnar að setja AirbNb gistingu mun strangari skorður, í ætt við upphaflegt markmið deilihagkerfisins.


"Nýjasta samkeppnin kemur frá hótelskipum/skemmtiferðaskipum skráðum á aflandseyjum og með erlenda áhöfn"


Nýjasta samkeppnin kemur frá hótelskipum/skemmtiferðaskipum skráðum á aflandseyjum og með erlenda áhöfn. Þessi skip sigla hringinn í kringum landið og eru í vaxandi mæli með farþegaskipti á Íslandi. Þau greiða nánast enga skatta og gjöld í okkar sameiginlegu sjóði, en sturta stórum förmum af túristum í land í hverri höfn með tilheyrandi innnviðavandamálum, sérstaklega hvað varðar ásókn stórra hópa í helstu náttúruperlur. Þetta er átakstúrismi í um þrjá mánuði á ári sem mun bitna á heilsársuppbyggingu hótela á landsbyggðinni ef fram heldur sem horfir.


Í nýlegu viðtali við ferðamálastjóra kom fram að heildartekjur á landinu öllu af slíkum skipum nemi um5 milljörðum króna á ári. Þar af nemi hafnargjöld 1,7 milljarði og tekjur af farþegum um 3,3 milljörðum króna, ef hver þeirra eyðir 5 þúsund krónum í landi. Þó þetta virðist stórar tölur þá nemur þetta ekki nema 1% af heildartekjum ferðaþjónustunnar og er einungis lítið brot af tekjum hótela- og gistihúsa landsins.


Eins og ferðamálastjóri benti á þá er miðað við kolefnissporið af þessum skipum, og átroðninginn og mannmergðina sem þeim fylgir, illa farið með það svigrúm sem Ísland hefur. Ísland þurfi því að forgangsraða hvernig landið ætlar að nota sínar náttúruauðlindir, áfangastaði og kolefnisspor ferðaþjónustunnar. Það er þarft að hafa þessi orð ferðamálastjóra í huga þegar skoðum skuldbindingar Íslands í loftlagsmálum og markmið um samdrátt til ársins 2030 í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum.“

„Þá jók framhald á eldgosinu í Geldingadölum í lok sumars enn frekar áhuga á landinu og straumur ferðamanna inn á haustið og veturinn varð mun meiri en spáð hafði verið,“ segir Kristófer. / VÍSIR/EYÞÓR



Hvernig lítur næsta ár út frá ykkar bæjardyrum séð?


„Ef ég tala út frá rekstri okkar fjölskyldufyrirtækis þá lítur árið 2023 vel út hvað bókanir varðar og mér finnst líklegt að svo sé raunin hjá flestum í greininni. Eins og við höfum lært af reynslunni getur skjótt skipast veður í lofti og því mikilvægt að halda áfram að styrkja innviði fyrirtækjanna. Þá er ekki ólíklegt að á næsta ári fari að reyna enn frekar á stoðir rekstraraðila vegna uppsafnaðra skulda í heimsfaraldrinum.


"Þá er ekki ólíklegt að á næsta ári fari að reyna enn frekar á stoðir rekstraraðila vegna uppsafnaðra skulda í heimsfaraldrinum"


Ísland er í samkeppni við hin Norðurlöndin um ferðamenn sem leita norður á bóginn. Ekkert þeirra er með gistináttaskatt. Hið opinbera fær sem dæmi um 2 milljónir á ári í tekjur af hverju herbergi á heilsársreknu hóteli á höfuðborgarsvæðinu og nema tekjur sveitarfélaga um 25% af þeirri fjárhæð. Virðisauki hins opinbera af ferðaþjónustu er því mikill. Í stjórnarsáttmála er rætt um að samhliða endurreisn ferðaþjónustunnar í kjölfar heimsfaraldurs verði gjaldtaka í greininni tekin til skoðunar með það að markmiði að tryggja jafnræði aðila á markaði. Fyrir hótel- og gistiþjónustu er mikilvægt að það samtal verði vel heppnað, með hagsmuni allrar greinarinnar að leiðarljósi.


Skerpa þarf á stefnumótun fyrir ferðaþjónustu á Íslandi og efla markaðssetningu á þeim hluta landsins sem hefur farið varhluta af ferðamannaaukningunni, sérstaklega norð-austurhlutanum. Mikilvægt er að spyrja hver ásýnd landsins sem ferðmannaland á að vera til framtíðar. Það er heilbrigt ástand að heit svæði séu uppseld á mestu álagstímum. Umgjörðin á ekki að hvetja til stórfellds framboðs á gistingu sem lítur vægari kröfum til að mæta slíkri ásókn.


Með því að skapa heilbrigt starfsumhverfi í greininni þar sem aðilar í gistirekstri búa við sambærilegar leikreglur skapast forsendur fyrir heilbrigða uppbyggingu á ársgrundvelli, sem mun laða að fjármagn til vaxtar og skila hinu opinbera auknum tekjum. Það eru mörg og mikil tækifæri í uppbyggingu ferðaþjónustu á Íslandi. Ef stjórnvöld búa greininni samkeppnishæft starfsumhverfi til framtíðar munu þau tækifæri halda áfram að nýtast þjóðarbúinu og landsmönnum öllum.“

Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page