top of page

Samningsstaðan nú allt önnur



Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir lög nr. 57/2020 um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar hafa mikla þýðingu fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu sem þegar hafi orðið fyrir miklu tekjutapi og verði enn um ókomna tíð. „Nú höfum við fengið lagaramma til þess að koma ferðaþjónustufyrirtækjum, eða þeim sem tapa miklu fé [vegna faraldursins] í skjól til þess að endurskipuleggja fjárhaginn. Ég tel að þetta framtak Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu (FHG) að fá gott álit á réttarstöðu þeirra í kjölfar faraldursins hafi gert það að verkum að það eru almennt miklu rólegri samskipti milli ferðaþjónustufyrirtækja og fjármálafyrirtækja,“ segir Sigurður. Vísar hann til álitsgerðar sem Viðar Már Matthíasson, fyrrverandi hæstaréttardómari og rannsóknarprófessor við lagadeild Háskóla Íslands, vann fyrir FHG, en Viðar Már er einn helsti sérfræðingur landsins í kröfurétti.


Lögbann á Íslandsbanka

„Ég held að menn séu, að minnsta kosti í hluta þess geira sem ég þekki, að vinna miklu meira saman á flestum vígstöðum. Einstaka leigusali var þó með tilburði til þess að ganga í ábyrgðir sem bankarnir höfðu veitt til tryggingar réttum efndum á leigusamningum. En það tókst að stöðva það, þá m.a. með lögbanni á hendur Íslandsbanka,“ segir hann. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vísar hann til þess að fasteignafélagið Íþaka hafi sem leigusali viljað ganga að ábyrgð Íslandsbanka á leigugreiðslum Íslandshótela vegna hótels í Katrínartúni, stærsta hóteli landsins. Aðili tengdur Íþöku hafði uppi sams konar kröfur gagnvart Miðbæjarhótelum ehf. (CenterHótelin) vegna Laugavegar 95-99. En sátt náðist áður en lögbannsbeiðni á hendur Íslandsbanka var tekin fyrir. Ef gengið er að ábyrgð fær leigusalinn greidda leigu í samræmi við ábyrgðina en til verður að sama skapi gjaldfallin krafa bankans á hendur þeim sem hann veitti ábyrgðina. Gjaldfelling einnar kröfu getur valdið gjaldfalli allra krafna og því var mikilvægt að geta stöðvað greiðslu ábyrgða með lögbanni.


Settir í slæma stöðu

Spurður til hvaða aðgerða leigusalar hefðu getað gripið í slíkum tilvikum segir Sigurður að ásamt því að ganga að eignum hafi þeir getað sett leigutakann í mjög slæma stöðu, þar til lög nr. 57/2020 tóku gildi. „Eftir gildistöku laga nr. 57/2020 er hægt beita greiðsluskjóli og frysta allar greiðslur í ár. Ferðaþjónustan er því í dag orðin tiltölulega vel í stakk búin verkfæralega séð til þess að glíma við fjármagnið. Það er alveg ljóst að ef þetta heldur áfram í þessum farvegi [vegna faraldursins] þurfa allir að gefa eitthvað eftir. Og eigendur ferðaþjónustufyrirtækja þurfa líka hugsanlega að koma inn með nýtt fjármagn í reksturinn,“ segir Sigurður, sem telur æskilegt að við endurskipulagninguna verði fylgt sama verklagi og tíðkast í sjórétti.


Málsaðilar taki allir á sig tjón

„Þ.e.a.s. að þegar það verður sameiginlegt sjótjón þarf að dreifa því eftir ákveðnum reglum á þá sem eru aðilar að tjóninu. Það getur þá falist í því að eigendur fyrirtækja komi með nýtt fé, lánveitendur afskrifi eitthvað af kröfum sínum og svo hefur ríkið auðvitað hjálpað til með því að vera með hlutabótaleið og greiða laun í uppsagnarfresti og fleira. Ég held að þetta sé í fyrsta skipti á Íslandi sem menn eru komnir með verkfæri til að vinna úr efnahagslegu hruni á þann átt sem er hugsunin með t.d. greiðslustöðvun og nauðasamningum. Þ.e. að það sé ekki óhjákvæmilegt að allir fari á hausinn, öll verðmæti og þekking glatist og að menn þurfi að byrja upp á nýtt, heldur sé reynt að halda verðmætunum og þekkingunni í fyrirtækjunum. Þá að því gefnu að þeir sem hafa þá þekkingu geti lagt eitthvað af mörkum líka.“ Sigurður kveðst aðspurður hafa komið að mörgum slíkum viðræðum eftir efnahagshrunið 2008. Málin séu nú í allt öðrum og betri farvegi.


Mikil breyting frá hruninu

„Á þessu er mikill munur vegna þess að eftir setningu laganna [57/ 2020] er réttarstaðan allt önnur og betri. Eftir hrunið 2008 var meira hugað að lagasetningu til hagsbóta fyrir kröfuhafa og þeim gert auðvelt að knýja skuldara í þrot. Þannig gat lánardrottinn komið fram gjaldþroti ef skuldari lýsti því ekki formlega yfir að hann gæti greitt skuld sína við viðkomandi lánardrottin þegar hún félli í gjalddaga, eða innan skamms tíma, ef hún var þegar fallin í gjalddaga. Ég held að fáir skuldarar hafi getað gefið slíka yfirlýsingu eftir efnahagshrunið 2008 og í raun heldur ekki eftir faraldurinn.“


Gæfuspor að leita til Markúsar

Sigurður segir lagasmíði Markúsar Sigurbjörnssonar, fv. forseta Hæstaréttar, hafa þegar komið að gagni og veitt nokkrum ferðaþjónustufyrirtækjum greiðsluskjól. „Núverandi ríkisstjórn bar gæfu til að leita til sérfræðinga eins og Markúsar, sem samdi frumvarp það sem varð að lögum nr. 57/2020. Ef menn skoða þróunina í gjaldþrotarétti á Norðurlöndunum, meðal annars í Noregi, kemur í ljós að Norðmenn settu svipaðar reglur í maí til þess að bjarga ferðaþjónustunni þar í landi. Ríkisstjórn Noregs brást við faraldrinum með svipuðum hætti og íslenska ríkisstjórnin, en hugmyndin er að reyna að halda í þekkingu þeirra sem hafa byggt þjónustuna upp og gera þeim kleift að hafa þá einhver vopn til þess að glíma við lánardrottnana og geta komið þeim í skjól. Það hefur mikla þýðingu að geta komist í eins árs greiðsluskjól, þótt framkvæma þurfi ákveðna vinnu á því tímabili og kannski ná samkomulagi við kröfuhafa, án þess að það verði að kalla til her lögfræðinga eða endurskoðenda.“


Baksviðs /Baldur Arnarson - baldura@mbl.is /Morgunblaðið 1.ágúst 2020

bottom of page