top of page

Ísland á mikil tækifæri inni í ferðaþjónustu, en þurfum að temja okkur að horfa á langtímahagnað og mæta áskorunum sem fylgja fjölda ferðamanna með aðgangsstýringu sagði Ólafur Ragnar gestur aðalfunda



Ólafur Ragnar Grímsson formaður Hringborðs Norðurslóða og fyrrverandi forseti Íslands var gestur aðalfundar FHG - Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu - 18. apríl sl. Hann sagði lykilatriði fyrir íslenska ferðaþjónustu að horfa á Ísland og norðurslóðir með augum annarra. Sumt af náttúru landsins sem við sæjum hversdags, þætti mögnuð upplifun í huga útlendinga sem hingað koma. Þannig hefði aldrei hvarflað að honum fyrr á árum að geta sér til um að Grundafjörður og Vík í Mýrdal ættu eftir að verða eftirsóknarverðustu áningarstaðir landsins að heimsækja. Þá hefði ekki hvarflað að neinum nema upphaflegu fjárfestum Bláa Lónsins hvaða tækifæri það ætti eftir að skapa í ferðaþjónustu á Íslandi.


Ólafur rifjaði upp að þegar hann sat í nefnd sem vann að uppbyggingu Leifsstöðvar hefðu margir talið fráleitt þegar hann nefndi að gera þyrfti ráð fyrir allavega milljón ferðamönnum. Nú værum við farin að taka á móti rúmlega tveimur milljónum ferðamanna á ári og stöðugt bætti í. 


Grundvallarboðskapur Ólafs var sá að eftir 25 ár verði ¾ hlutar jarðarbúa íbúar Asíu og Afríku. Efnaðum ungum og menntuðum Asíubúum fjölgi um 30 milljónir á ári. Þeir muni í auknum mæli vilja sækja norðurslóðir heim. Tækifæri Íslands gagnvart þeim hópi væru risastór, sem miðstöð ferða á norðurslóðir. Fjárfestingar erlendra aðila í hótelgeiranum á Íslandi á seinni árum væru skýr vísbending um þessa framtíðarsýn.  


Ísland sé þannig í kjörstöðu varðandi aðgang að norðurslóðum fyrir aðra hluta heimsins.  Héðan er stutt að fara í ferðir til annarra svæða norðurslóða. Því skipti máli að við höfum rétt vegakort í huga þegar við skipuleggjum okkur og svörum þeirri spurningu hve marga ferðamenn við viljum. 


Hann sagði mátt samfélagsmiðlanna mikinn. Ísland er orðið „location“ fyrir náttúru, aðgengi að henni og hreint vatnið sagði Ólafur. Myndum af ferðalögum hingað sé deilt í þúsundatali á hverjum degi á samfélagsmiðlum. Fjármunum sem varið er í landkynningu af Íslands hálfu væri þannig betur varið í annað. 


Það væru þó ekki bara tækifæri, þessu fylgdu einnig áskoranir.  Áskorunin væri sú hvernig við sem þjóð ætlum að ráða við að taka á móti þeim mikla fjölda ferðamanna sem vilja sækja okkur heim. Af hverju skiptum við ekki Þingvöllum upp í tveggja tíma heimsóknarglugga spurði Ólafur og takmörkum þannig aðgengi. Á Íslandi hefur það verið þannig að allt eigi að vera opið fyrir alla. Við þurfum að breyta þeirri hugsun sagði Ólafur, annars missum við stjórn og eina takmörkunin verður fjöldi flugsæta og hótelherbergja.


Í ræðu Ólafs kom fram að Ísland verði að fara að ræða af alvöru að setja upp aðgangskerfi þar sem við skiptum landinu upp eftir vinsældum og setjum aðgangsstýringu inn á svæði þar sem ásókn er við þolmörk. Hann nefndi dæmi um hvernig Bláa Lóninu hefði tekist með góðum árangri að álagsstýra aðgangi, sem auki á gæði upplifunar allra sem þangað koma. 


Ólafur vildi skilja eftir þær áhyggjur sínar að vestrænt viðskiptamódel byggist á skyndigróða. Þannig sé sú hætta til staðar að við verðum svo upptekin af skyndigróðanum að við sprengjum okkur útaf markaðnum.  Ef það gerist geti tekið óratíma að vinna okkur aftur inn þá ímynd sem við höfum hjá mörgum í dag, að við séum draumaáfangastaður ferðamannsins. Við eigum að tileinka okkur hugsunarhátt Asíubúa sagði Ólafur, að hugsa í áratugum, ekki ársfjórðungum.


Varðandi uppbyggingu innviða tengda auknum ferðamannastraumi benti Ólafur á að það væru hæg heimatök að innheimta gjald af ferðamönnum á vinsælustu áningastöðunum. Það þætti bæði sjálfsagt og eðlilegt af hálfu þeirra sem sækja Ísland heim. Tekjur af slíkum gjöldum ætti svo að nýta til að byggja upp innviðina.


Niðurstaða Ólafs var sú að þær breytingar sem eru að verða í veröldinni séu Íslandi og norðurslóðum í hag og svo öflugar að þær einar muni skila okkur þeim tækifærum sem við kjósum.  Á sama tíma þurfum við alvarlega að velta því fyrir að takmarka fjölda ferðamanna sem hingað koma, a.m.k. á ákveðin svæði á landinu.  Því til viðbótar þurfum við að hugsa um að gera viðskiptavininn ánægðan ár eftir ár í stað þessa að hugsa um stundargróða.


Á aðalfundinum voru eftirtalin kjörin í stjórn FHG fyrir starfsárið 2024-2025.


Árni Sólonsson Capital Hotels

Björgvin Jóhannesson   Hótel Selfoss

Birgir Guðmundsson   Berjayja Hotels

Geir Gígja   Cabin Hotels

Halldór Hafsteinsson   ION Hotels

Hjörtur Gíslason   Courtyard by Marriott

Hjörtur Valgeirsson  Íslandshótel

Jóhann Pétur Reyndal   Hótel Valaskjálf/Hótel Hallormsstaðir

Kristján Þór Kristjánsson Hótel Ísafjörður

Kristófer Oliversson  Miðbæjarhótel/Center Hotels 

Markús Árnason   Hótel Höfn

Páll Sigurjónsson   KEA Hotels

Steinþór Jónsson  Hótel Keflavík

Sveinn Hreiðar Jensson  Hótel Klaustur

Unnur Steinsson  Hótel Fransiskus


bottom of page