top of page

Dýrmætasta fjöregg Íslands er í húfi

Updated: Sep 24, 2020



Mikil óvissa ríkir meðal eigenda, stjórnenda og starfsfólks þeirra hótela og gistihúsa sem skilgreind hafa verið af verkalýðshreyfingunni sem hin "breiðu bök" og hverra samanlögðu gistirými skipta þúsundum. Ljóst er að ef til verkfalla kemur mun það ekki aðeins valda umræddum vinnustöðum alvarlegu tjóni heldur samfélaginu öllu.

Ímynd áfangastaðarins Íslands er í húfi.


Öllum má ljóst vera að "fagnaðarerindið" um Ísland hefur borist með hraða ljóssins um alla heimsbyggðina í gegnum farsíma og samfélagsmiðla frá þeim milljónum ánægðra gesta sem hingað hafa komið á undanförnum árum. Neikvæðar upplifanir og fregnir af reiðum, vonsviknum gestum munu berast jafn hratt og víða um heiminn og jákvæðu fréttirnar gerðu.

Dugmiklir eigendur og stjórnendur þeirra fyrirtækja sem færa þjóðarbúinu langstærstan hluta árlegra tekna sinna, áttu sér enskis ills von og telja ómaklega vegið að starfsemi sinni á viðsjárverðum tímum. Ferðaþjónustan hefur á fáeinum árum valdið ótrúlega jákvæðum straumhvörfum í samfélaginu og bjargað því frá fyrirsjáanlegri kyrrstöðu eftir hrun.


Kólnun hagkerfisins hefur vissulega átt sér stað á undanförnum mánuðum, óvissa um framtíð WOW hefur þegar dregið úr fjölda þeirra sem spáð hafði verið að legðu leið sína til Íslands og fréttir af yfirvofandi verkföllum gera nú illt verra. Tímasetning verkalýðshreyfingarinnar er einkar óheppileg og mun þegar upp er staðið bitna ekki síður á því starfsfólki sem að óbreyttu verður knúið í verkfall með þaulskipulögðum kosningum á vinnustöðum, þar sem örlög hvers vinnustaðar fyrir sig verða ráðin af 10% starfsfólksins sem hundelt er um alla ganga og dregið út í farartæki þar sem því er gert að kjósa fyrir allra augum.


Það fylgir því mikil ábyrgð að stunda hnútukast með sjálft lykilfjöreggi heillar þjóðar. Ekki er víst að skaðinn af slíku verði að fullu metinn hvað þá að nokkur muni axla ábyrgð á því þegar yfir líkur.


bottom of page