top of page

Isavia, sætaframboð og stækkun LeifsstöðvarGrétar Már Garðarsson, forstöðumaður flugfélaga og leiðaþróunar hjá Isavia, mætti á fund stjórnar FHG fimmtudaginn 25. júní síðastliðinn. Í máli hans kom fram að sætaframboð í flugi til landsins væri að aukast hratt þessar vikurnar. Sætafjöldinn væri kominn í 10.000 nú í júnílok, úr 2.000 í byrjun maí. Spár Isavia gera ráð fyrir að sætaframboð fari í um 20.000 í júlílok í sumar. Alls mun 21 flugfélag fljúga gegnum Keflavíkurflugvöll í sumar. Í ár gera spár Isavia ráð fyrir að fjöldi ferðmanna verði um 400-500 þúsund, samanborðið við 2,3 milljónir ferðamanna þegar hæst lét 2018. Lítið þurfi þó að breytast til að sú tala hækki á þessu ári. Horft til íslensku flugfélaganna þá hefði Icelandair verið með 36 vélar á árinu 2019 en gerði ráð fyrir 23 vélum í ár. Spár félagsins gerðu ráð fyrir að það verði aftur komið með 36 vélar í sína þjónustu á árinu 2025. Wowair var með 26 vélar þegar mest lét árið 2019, áður en félagið fór í þrot. Hið nýja flugfélag Play verður með 3 vélar í sumar en gerir ráð fyrir að vera komið með 15 vélar í notkun árið 2025. Aukin ásókn erlendra flugfélaga í að fljúga til Íslands vægi á móti færri vélum íslenskra félaga.


Þá rakti Grétar hvernig Isavia hefði brugðist við þeim áskorunum sem covid19 olli í rekstri Keflavíkurflugvallar. Félagið hefði þannig kynnt nýtt hvatakerfi í apríl í fyrra sem miðaði að því að styðja við endurheimt flugs til landsins. Í því fælist m.a. afsláttur af nýjum áfangastöðum og af ákveðnum tímum dagsins, auk þess fæli það í sér hvata til vaxtar félaga sem nýta þjónustu Isavia. Mikil áhersla hefði verið lögð á samskipti við flugfélög um stöðu mála í covid og þá hefði verið farið í að veita afslátt og jafnvel tímabundna niðurfellingu gjalda. Félagið hefði einnig dregið saman seglin í starfsmannafjölda á covidtímanum. Þannig hefðu þegar mest lét verið um 1.300 starfsmenn hjá félaginu, en þeim hefði fækkað niður í 950 þegar faraldurinn náði hámarki. Samhliða aukinni flugumferð væri starfsmönnum að fjölga á ný.


Nú þegar covid19 væri í rénun væri áherslan á markaðssetningu á Íslandi sem áfangastað beint í gegnum flugfélög. Þetta væri í góðu samstarfi við Íslandsstofu sem sæi um beina markaðssetningu landsins á lykilmörkuðum. Grétar sagði stjórn Isavia hafa samþykkt 500 milljón króna markaðsstuðning fyrir félagið til að nýta í samstarfi sínu við flugfélög. Á grunni þess stuðnings hefði verið komið á fót kerfi þar sem flugfélögum væru gefin stig, m.a. út frá tíðni, stærð véla, frá hvaða mörkuðum þau væru að koma o.fl. Fjárstuðningurinn frá Isavia endurspeglaði svo stigafjölda hvers flugfélags.


Loks ræddi Grétar um framkvæmdir á Keflavíkurflugvelli, þ.e. annars vegar viðbyggingu til austurs sem verður á þremur hæðum auk kjallara. Henni sé ætlað að fjölga hliðum, stækka veitingasvæði, bæta afgreiðslu á komufarangri, skapa rými fyrir ný kerfi tengd farangursafgreiðslu og skimun og skerpa á skipulagi fríhafnar og komusalar. Hins vegar stækkun suðurbyggingar til austurs sem ætlað sé að bæta aðstöðu við farþega á brottfararhliðum í austurenda flugstöðvarbyggingar og bæta við landgöngubrú á flugvélastæði. Stefnt væri að því að þessum framkvæmdum yrði lokið 2024. Aðspurður um betrumbætur í bílastæðamálum við Keflavíkurflugvöll sagði Grétar þær vera á teikniborðinu, en yrðu þó ekki hluti af þeim framkvæmdum sem nú værið farið af stað í.Sjá glærur Grétars hér að neðan.

Isavia glærur á fundi FHG 25.6.21
.pdf
Download PDF • 1.27MB

.Comments


Commenting has been turned off.
bottom of page