top of page

Forstöðumaður efnahagssviðs SA á fundi með stjórn FHG



Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, mætti á fund stjórnar FHG þann 27. ágúst síðastliðinn. Hún sagði SA vera að vinna að heildstæðri greiningu á áhrifum Covid19 á stöðu atvinnulífsins á Íslandi. Hagfræðileg umræða um þau áhrif hefði verið takmörkuð fram til þessa. Því væri þetta kjörið tækifæri fyrir efnahagssvið SA að eiga samtal við stærstu atvinnurekendurna í þeirri atvinnugrein sem sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda eru að bitna harðast á.  Í máli Önnu Hrefnu kom fram að ólík sjónarmið vegist á í tengslum við umræðu um lokanir á landamærum, sóttvarnarsjónarmið annars vegar og efnahagsleg sjónarmið hins vegar. Hvað síðarnefnda þáttinn varðar þyrfti þó einnig að horfa til afleiddra áhrifa sem sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa á t.a.m. atvinnuleysi og þar með lýðheilsu. Þau áhrif séu líklegri til að bitna á heilsu þjóðarinnar og þjóðarbúinu til lengri tíma litið, en einnig er erfiðara að leggja heildstætt mat á þau áhrif. Varðandi aðgerðir stjórnvalda sagðist Anna Hrefna hafa skilning á því að erfitt sé fyrir stjórnvöld að hanna skilvirk úrræði til að milda höggið þegar óvissan er jafnmikil og raun ber vitni en að mikilvægt væri að aðgerðir stjórnvalda væru hnitmiðaðar og tækju á rót vandans.

Á fundinum kom ítrekað fram að stjórnvöld skuldi atvinnulífinu svör um við hvaða aðstæður landamæri verði opnuð á ný.  Það taki tíma að markaðssetja Ísland sem áfangastað eftir slíka lokun sem nú er uppi og því séu miklir hagsmunir fyrir atvinnugreinina að það sé sett fram með skýrum hætti hvað þurfi til, til þess að hægt verði að opna landið að nýju. Þá voru umræður um mikilvægi þess að hlutabótaleiðin væri í boði meðan landið væri lokað og að stjórnvöld þyrftu að leggja sín lóð á vogarskálarnar til að byrðunum af því sameiginlega tjóni sem safnast upp í núverandi stöðu verði skipt með eðlilegum hætti milli leigutaka, leigusala og fjármagnseigenda. Þar mun vega þyngst veruleg lækkun vaxta og fasteignagjalda.


Guðjón Rúnarsson lögmaður sat einnig stjórnarfundinn, en FHG hafa fengið hann sér til aðstoðar. Guðjón hefur mikla reynslu af störfum hagsmunasamtaka og samskiptum við stjórnvöld sem fyrrverandi framkvæmdastjóra Samtaka fjármálafyrirtækja, aðstoðarframkvæmdastjóra Verslunarráðs Íslands, nú Viðskiptaráðs, og lögfræðingur nefnda Alþingis.


bottom of page