top of page

Sameinuð stöndum vér!

Updated: Aug 28, 2020


Hagsmunabarátta okkar í FHG er tiltölulega nýhafin, en samtökin FHG - fyrirtæki í hótel- og gistiþjónustu voru stofnuð á miðju ári 2018.

Í dag eru yfir 90% gisti- og hótelrýma á Íslandi skráð í FHG og þeim fer sífellt fjölgandi sem kjósa að þjappa sér saman um þá hagsmuni sem hér eru varðir.


Staðan í dag

Kannski var gistináttaskatturinn kornið sem fyllti mælinn og knúði á um stofnun FHG, en sá skattur var á sínum tíma lagður á hótelin - illu heilli - í viðleitni til að leysa það vandræðamál sem Náttúrupassinn var orðinn á borði ríkisstjórnar þess tíma.

Hið sakleysislega málamyndagjald kr. 100, stökkbreyttist á skömmum tíma í kr. 300 og varð í framhaldinu hluti af stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem gistináttaskattinum er ætlað að verða veltutengdur og renna til sveitarfélaga, sem prósenta af veltu gististaðanna!

Gríðarlegum þrýstingi er beitt af hálfu hagsmunasamtaka sveitarfélaganna - og þau eru öflug - til að ná þessum tekjustofni yfir til sveitarfélaganna. Núverandi tekjustofnar eru útsvar, fasteignaskattur og framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaganna.


Við höfum ekki góða reynslu af slíku fyrirkomulagi. Á vettvangi sveitarstjórna þessa lands hafa fasteignaskattar hækkað ótæpilega frá ári til árs og ekki síst í Reykjavík, en þangað mundi gistináttaskatturinn einkum renna vegna þess að þar eru gistirýmin flest.

Það er vægast sagt óhugnanleg tilhugsun fyrir rekstraraðila gistihúsa þessa lands að vera kastað á bál fjársveltra sveitasjóða. Vissulega þarf að tryggja fjármagn til lögboðinna verkefna sveitarfélaganna, en bent hefur verið á ýmsar leiðir til að láta þau njóta eðlilegrar hlutdeildar í margháttuðum virðisauka af ferðaþjónustu, sem þegar er innheimtur, nánast við hvert fótmál ferðamannsins. Að ætla gisthúsaeigendum einum að leysa þann vanda er í senn ómaklegt og vanhugsað.


Á árinu 2018 var ferðamálaráðherra falið að finna 2.5 milljarða króna til viðbótar gistináttaskattinum svo ríkissjóður gæti talist fullsæmdur af hlut sínum á því allsnægtaborði sem íslensk ferðaþjónusta er talin vera – hvernig sem viðra kann eða ára á þeim bæ.

Í þessu skyni var stofnuð s.k. gjaldtökunefnd sem falið var að koma með tillögur í þessum efnum og þar var m.a. horft til gistináttaskattsins. Nú hefur þessi fjárhæð verið tekin út úr fjárlagafrumvarpinu og felst í því ákveðin viðurkenning á stöðu greinarinnar.

Minnisblað FHG til gjaldtökunefndar má lesa HÉR.



Gistihús um allt land þurfa fjölmörg að horfast í augu við hallarekstur á yfirstandandi ári og umtalsverð lækkun á verði hótelgistingar á Íslandi 2019 er staðreynd sem ekki verður horft fram hjá. Má í þessu samhengi minna á þann samdrátt í greininni sem orðið hefur á yfirstandandi ári vegna verkfalla, launahækkana, flugtregðu og almennrar fækkunar ferðafólks hingað til lands.



Helstu verkefni FHG

FHG hefur að sjalfsögðu skilning á að ríkissjóður þarf að afla tekna. Vænlegast er að stuðla að heilbrigðri uppbyggingu á löglega rekinni gistiþjónustu um allt land. Til að jafna samkeppnisstöðu í greininni, gerum við þá kröfu að gistináttaskatturinn verði aflagður, en í staðinn verði eftirlit hert og gripið til aðgerða gegn svartri og leyfislausri starfsemi til þess m.a. að leiðrétta rekstrarumhverfið og sækja tekjustofna á ný mið.


Er líða tók á árið 2019 benti FHG stjórnvöldum á augljósa mismunun milli rekstraraðila eftir því hvort gist er á sjó eða landi. Fljótandi hótelskip og skemmtiferðaskip greiða hvorki virðisaukaskatt, gistináttaskatt, fasteignaskatt, áfengisskatt né aðrar þær álögur sem hvíla á gistiþjónustunni á föstu landi.


Þá var bent á þá gjaldtöku sem þegar er stunduð í sendiráðum Asíu, þar sem stimplun vegabréfs til Íslands kostar kr. 7.000. Þessi gjaldtaka ein og sér aflar ríkissjóði umtalsverðra tekna sem eiga eftir að aukast verulega, m.a. með tilkomu beinna fluga frá Kína.




Árangur hefur náðst

Ferðamálaráðherra hefur nú fengið samþykktar breytingar á lögum, þar sem heimildir sýslumanns til álagningar stjórnvaldssekta á ólöglega heimagistingu hafa verið rýmkaðar og fyrirheit eru um fjármögnun á löngu tímabæru eftirliti til að uppræta svarta starfsemi.

Afar mikilvægt er að fylgja þessu máli vel eftir.


Eftir óteljandi fundi margra aðila með ráðherrum, nefndarmönnum, embættismönnum og almennum þingmönnum er ánægjulegt að fyrirhuguð 2.5 milljarða króna gjaldtaka úr ferðaþjónustunni hefur verið blásin af borðinu í núverandi fjárlagafrumvarpi.


Ferðamálastofa tók við s.k. mælaborði ferðaþjónustunnar af Stjórnstöð ferðamála og birtir nú reglulega gögn á heimasíðu sinni um þróun Airbnb gistingar, komur skemmtiferðaskipa o.fl. Áreiðanleg gögn eru forsenda þess að hægt sé að taka skynsamlegar ákvarðanir til að stuðla að heilbrigðara rekstrarumhverfi. Sú vísa verður aldrei of oft kveðin.




Starfið framundan

Áfram verður unnið að afnámi gistináttagjaldsins, samhliða kröfunni um að heimagistingu verði settar skýrari skorður, að fasteignaskattahækkunum sveitarfélaganna linni og því að hér á landi verði stuðlað að sjálfbæru rekstrarumhverfi gististaða í sátt við íbúa og stjórnvöld.


FHG hefur nú gerst aukaaðili að SAF og við treystum því að samtökin muni leggjast af öllum þunga á árar með okkur í því skyni að afnema gistináttaskattinn og standa í vegi fyrir öllum hugmyndum um að honum verði breytti í veltuskatt og færður til sveitarfélkaganna.

Við þökkum ykkur félagsmönnum í FHG hvatninguna og stuðninginn og teljum okkur mega vel við una, þó Gistináttaskattinum hafi enn ekki verið aflétt.


Baráttunni fyrir því hagsmuna- og réttlætismáli mun ekki linna þar til sú barátta er fullunnin!

Höfum hugfast að sameinuð stöndum vér - en sundruð föllum vér!


bottom of page