top of page

Fréttabréf FHG - Janúar 2021

Updated: Jan 6, 2021



ÚR ORRAHRÍÐINNI

Ágæti félagsmaður.


Áskoranirnar verða ekki stærri en þær sem mættu félagsmönnum á liðnu ári í orrahríð kórónuveiru. Þegar spjótin eru breið þurfa skildirnir að vera harðir. FHG lögðu sitt af mörkum á árinu til að styrkja brjóstvarnir greinarinnar. Samtökin áttu í reglulegu samtali við stjórnvöld í tengslum við viðbrögð við þeim vanda sem faraldurinn leiddi af sér.


Eitt af því fyrsta sem stjórnvöld boðuðu til stuðnings fyrirtækjum í gistiþjónustu vegna lokunar landsins var tímabundin niðurfelling gistináttaskatts, mál sem FHG höfðu lagt mikla áherslu á frá stofnun. Leiða má að því líkum að skynsamlegur málflutningur samtakanna í þeim efnum ásamt ítarlegri greinargerð um þá samkeppnisröskun sem gistináttaskattur leiðir af sér hafi ýtt undir að þetta var eitt af fyrstu úrræðunum sem stjórvöld drógu úr hillunni. Ýmis fleiri úrræði fylgdu í kjölfarið, s.s. hlutabótaleið, lokunarstyrkir, viðspyrnustyrkir, stuðningslán fyrir minni fyrirtæki, brúarlán fyrir stærri fyrirtæki, frestun gjalddaga skatta og lækkun tryggingargjalds.


Síðastliðið vor afhentu FHG stjórnvöldum álitsgerð um lagalegar afleiðingar heimsfaraldurs á gerða samninga, þ.á.m. skyldu til fullra efnda. Álitsgerðin, sem unnin var af Viðari Má Matthíassyni lagaprófessor við Háskóla Íslands, varð grunnur að lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar fyrirtækja (lög um greiðsluskjól). Hún var einnig lykilgagn þegar sýslumaður setti sumarið 2020 lögbann á að lánastofnun væri heimilt að greiða út bankaábyrgð leigutaka hótels til leigusala. Fyrrgreind lög og lögbannið hafa styrkt samningsstöðu félagsmanna FHG og annarra fyrirtækja í þeim skuldavanda sem blasir við mörgum.


Utan launakostnaðar vega greiðslur vegna gistirýmis þyngst í rekstrarkostnaði fyrirtækja í gistiþjónustu. Þunginn í þeim greiðslum er tvíþættur, annars vegar leiga eða afborgarnir lána og hins vegar fasteignagjöld til sveitarfélaga.


Lánveitendur hafa almennt verið viljugir til að veita greiðslufresti, allt fram á mitt ár 2021. Sumir leigusalar hafa komið til móts við leigutaka, en það hefur ekki gengið þrautalaust í öðrum tilvikum. Geta fyrirtækjanna til að greiða uppsafnaðan kúf vegna lána/leigu þegar óveðrinu slotar mun velta á nokkrum lykilþáttum: þeim vaxtakjörum sem lánin munu bera, hvort uppsöfnuðum afborgunum verði dreift til lengri tíma og að sjálfsögðu markaðnum sjálfum, þ.e. hversu góð nýting gistirýma verður og meðalverði gistingar.


FHG og SAF hafa í sameiningu átt í samtölunum við bæði sveitarfélög og ráðherra um leiðir til að koma til móts við fyrirtæki í ferðaþjónustu vegna fasteignagjalda. Þau samtöl hafa skilað því að ráðherra sveitarstjórnarmála kynnti þann 23. desember á samráðsgáttinni frumvarp sem miðar m.a. að því að skapa sveitarfélögum aukið svigrúm til að koma til móts við gjaldendur fasteignaskatta. Samtökin munu fylgja því máli eftir.

Fleiri mál voru á borðum FHG á liðnu ári. Þannig áttu samtökin fund í október með eldvarnasviði Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar til að leggja áherslu á mikilvægi þess að kröfur um eldvarnir hjá þeim sem leigja út skammtíma heimagistingu séu í takt við það sem tíðkast hjá öðrum aðilum sem hafa leyfi til að bjóða gistingu. Eldurinn spyr ekki um tegund starfsleyfis. Skömmu fyrir jól var skýrsla HMS um brunann á Bræðaborgarstíg, sem kostaði þrjú mannslíf, gerð opinber. Þar kemur m.a. fram að félagsmálaráðherra hafi falið HMS að skila sér tillögum til úrbóta fyrir janúarlok 2021.


FHG sendu einnig ákall til forsætisráðherra og þeirra ráðherra sem koma að Stjórnstöð ferðamála að starfsemi hennar verði viðhaldið í breyttri mynd meðan ferðaþjónustan er að vinna sig til baka úr kórónuveiruáfallinu. Samtökin leggja til að Stjórnstöðin fái formlega til sín það hlutverk að finna lausnir við þeim rekstrar- og skuldavanda sem steðjar að ferðaþjónustunni og fylgja eftir að þær komist til framkvæmda.


Stjórn FHG hélt 10 fundi á árinu til að ræða stærstu mál sem brenna á greininni og leggja línur um megináherslur. Þá var aðalfundur FHG haldinn í mars. Eftirfarandi gestir mættu meðal annarra á fundi FHG á árinu til að fara yfir stöðuna: Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, Guðjón Rúnarsson lögmaður, Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður, Óskar Jósepsson, framkvæmdastjóri Stjórnstöðvar ferðamála, Skarphéðinn Berg Steinarsson Ferðamálastjóri og Tryggvi Þór Herbertsson, hagfræðingur og stjórnarformaður Icelandair hotels.


Um leið og ég óska félagsmönnum FHG gleðilegs nýs árs vona ég að þær jákvæðu blikur sem eru á lofti með tilkomu bóluefnis við kórónuveirunni færi okkur betri tíma. Samtökin munu ekki láta sitt eftir liggja í að styðja sína félagsmenn í að vinna sig út úr þeim vanda sem faraldurinn hefur skapað. Eitt stærsta málið framundan er að kalla eftir skýrum skilaboðum um hvernig og hvenær landamærin verði opnuð á ný fyrir ferðamönnum og fyrirsjáanleiki verði á þeim reglum sem munu gilda. Þá þarf að skoða hvort ekki þurfi að koma til sams konar úrræði varðandi skuldaaðlögun fyrirtækja sem hafa orðist harðast úti vegna lokunar landsins og fyrirtækjum í skuldavanda var boðið uppá í kjölfar bankahrunsins. Einnig er mikilvægt að tryggja að gistináttaskattur verði ekki lagður á aftur, með þeirri mismunun milli aðila sem hann felur í sér.


SVEITARFÉLÖGIN OG FASTEIGNAGJÖLD


Á samráðsgátt stjórnvalda má finna drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á sveitarfélög, sjá hér. Í frumvarpsdrögunum er að finna ákvæða sem rýmka munu lögveðsrétt sveitarfélaga úr 2 árum í 4 ár, sem og heimild til sveitarfélaga að lækka eða fella niður dráttarvexti á fasteignaskatta hjá gjaldendum sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða vegna kórónuveirufaraldursins. Þá er ákvæði sem rýmkar heimildir Lánasjóðs sveitarfélaga til lána til sveitarfélaga. Í greinargerð frumvarpsins er beinlínis talað um þann vanda sem ferðaþjónustan býr við og lögð áhersla á að þessum breytingum sé ætlað að skapa sveitarfélögum svigrúm til að koma til móts við þá aðila.


Framangreint frumvarp er í samræmi við þær áherslur sem FHG og SAF höfðu haft uppi í bréfum til landshlutasamtaka sveitarfélaga og samtali við sveitarstjórnaráðherra, sbr. frétt á heimasíðu FHG þann 12. október 2020 (sjá hér).


Frestur til að skila umsögn um frumvarpið er til 7. janúar 2021. FHG og SAF munu senda inn sameiginlega umsögn um málið.


BANKAR KOMI AÐ SKULDAVANDA



Eiríkur S. Svavarsson, hrl., og lögmaður Fosshótels Reykjavík, segir mikilvægt að fjármálastofnanir komi til móts við leigusala og leigutaka í hótelgeiranum sem hafi orðið fyrir tekjufalli í kórónuveirufaraldrinum. Þetta kom fram í grein Eiríks sem birtist í Morgunblaðinu 15. september 2020. Fyrir fjármagnsþungar fasteignir s.s. hótel, verði þessi mál ekki leyst nema með aðkomu fjármálastofnana í formi vaxtalækkana, a.m.k. tímabundið. Einnig verða sveitarfélögin að koma að málinu með lækkun eða verulegri frestun fasteignagjalda.


Hann segir öll rök fyrir því að lánveitendur komi strax að borðinu. Þeir verði að gefa lántökum svigrúm til að komast út úr þessum aðstæðum. Það verði ekki gert með því einu að fresta afborgunum, heldur þurfi leigusalar, leigutakar og lánveitendur að deila ábyrgðinni. Þannig þurfi allir að taka á sig tjón og bankarnir að fella niður afborganir á meðan kórónuveiran ríður yfir. “Þessi leið er ódýrust fyrir alla“ segir Eiríkur og telur Sigurð G. Guðjónsson hrl. hafa hitt naglann á höfuðuð í samtali við Morgunblaðið 1. ágúst sl., þar sem hann líkti þessu við sameiginlegt sjótjón leigutaka, leigusala og fjármagnseigenda. Að öðrum kosti þurfi dómstólar að taka á þessum málum, sem sé ekki skynsamasta lausnin.

Sjá nánar frétt á heimasíðu FHG hér.


FORSTÖÐUMAÐUR EFNAHAGSSVIÐS SA FUNDAR MEÐ FHG



Anna Hrefna Ingimundardóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, mætti á fund stjórnar FHG þann 27. ágúst síðastliðinn. Hún sagði SA vera að vinna að heildstæðri greiningu á áhrifum Covid19 á stöðu atvinnulífsins á Íslandi. Hagfræðileg umræða um þau áhrif hefði verið takmörkuð. Hún fagnaði tækifærinu til að eiga samtal við stærstu atvinnurekendurna í þeirri atvinnugrein sem sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda eru að bitna harðast á. Í máli Önnu Hrefnu kom fram að ólík sjónarmið vegist á í tengslum við umræðu um lokanir á landamærum, sóttvarnarsjónarmið annars vegar og efnahagsleg sjónarmið hins vegar. Hvað síðarnefnda þáttinn varðar þyrfti þó einnig að horfa til afleiddra áhrifa sem sóttvarnaraðgerðir stjórnvalda hafa á t.a.m. atvinnuleysi og þar með lýðheilsu. Þau áhrif séu líklegri til að bitna á heilsu þjóðarinnar og þjóðarbúinu til lengri tíma litið, en einnig er erfiðara að leggja heildstætt mat á þau áhrif.

Varðandi aðgerðir stjórnvalda sagðist Anna Hrefna hafa skilning á því að erfitt sé fyrir stjórnvöld að hanna skilvirk úrræði til að milda höggið þegar óvissan er jafnmikil og raun ber vitni en að mikilvægt væri að aðgerðir stjórnvalda væru hnitmiðaðar og tækju á rót vandans. Á fundinum komu fram sjónarmið stjórnar FHG um að stjórnvöld skuldi atvinnulífinu svör um við hvaða aðstæður landamæri verði opnuð á ný. Það taki tíma að markaðssetja Ísland sem áfangastað eftir slíka lokun sem nú er uppi og því séu miklir hagsmunir fyrir atvinnugreinina að það sé sett fram með skýrum hætti hvað þurfi til, til þess að hægt verði að opna landið að nýju.


AÐILD AÐ FHG


Aðildarfélög FHG má finna á heimasíðunni - sjá hér.


Samtakamátturinn er aldrei mikilvægari en á tímum eins og við upplifum nú um stundir. Sótt er um aðild á heimasíðu FHG, sjá hér.



bottom of page